11.01.1945
Neðri deild: 102. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (3890)

235. mál, skipakaup ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég get ekki fallizt á, að þessi brtt. mín. þó að hún verði samþ. sé til nokkurra óþæginda fyrir ríkisstj. viðvíkjandi skipakaupum. Það er kunnugt, enda tekið fram í grg. frv., að á þeim tíma, þegar ákveðið var að kaupa þessa báta frá Svíþjóð, lá ekki fyrir umsókn frá útgerðarmönnum um kaup á öllum þessum bátum. Fyrrv. ríkisstj. hafði þá aðferð, að hún hafði um þetta samráð við þingflokkana, áður en hún ákvað kaup á bátunum, og tryggði þannig meirihlutafylgi við þessar ráðstafanir. Og það er þetta, sem ég álít að eigi að gera. Ég vil taka það fram, að þótt brtt. mín verði samþ., ber auðvitað að skilja frv. þannig, að það veiti heimild fyrir ríkisstj. viðkomandi þessum 45 Svíþjóðarbátum. Ef hins vegar ríkisstj. telur ástæðu að gera ráðstafanir til skipakaupa framvegis, án þess hún hafi vísa kaupendur að þeim skipum, þegar þau koma, þá tel ég, að viðhafa eigi sömu aðferð og fyrrv. ríkisstj. hafði um þessi mál, að afráða þau í samráði við þingflokkana, ef það er gert á þeim tíma, sem þingið er ekki starfandi, og fæ ég ekki séð, að slíkt sé svo torvelt, að nokkur hætta sé á því, að ríkisstj. muni þess vegna missa tækifæri, sem kynnu að vera fyrir hendi til heppilegra skipakaupa.