17.02.1944
Sameinað þing: 17. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (3958)

36. mál, veðurfregnir

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég þakka hæstv. ráðh. góðar undirtektir um þetta mál.

Hæstv. ráðh. segir, að hann muni vinna að þessu máli áfram, hvort sem till. verður samþ. eða ekki. Ég hélt, að honum mætti þykja að því nokkur styrkur að fá þessa till. samþ. og fá fram einróma vilja Alþ. um málið, sem ég efast ekki um, að fáist. Ég ætla, að hæstv. ráðh. ætti að hafa nokkurn stuðning í baráttu sinni í því að fá slíka samþykkt nú. Hitt var misskilningur, að ég segði, að það væri af nokkurs manns völdum eða landssímans, að veðurskeytin tefðust, en hitt er vitað, að tíðar símabilanir valda töfum, og auk þess eru svo mikil þrengsli á símanum, að margt nauðsynlegt verður af þeim ástæðum að sitja á hakanum. Ég var síður en svo að saka landssímann um það, að hann gerði ekki allt, sem hann gæti, til að koma veðurskeytum áleiðis. Um það, að Veðurstofan hafi sent út aðvörun um það, að stormur væri í aðsigi, er það að segja, að menn hafa reynslu af því, að veðurfregnir Veðurstofunnar eru nú óábyggilegar, hvort sem spáð er góðu eða illu. Auk þess var aðvörunin ekki gefin út þannig, að búast mætti við öðru eins fárviðri og á daginn kom, að hefði Veðurstofan vitað það, er ekki að efa, að hún hefði stílað aðvörun sína með öðrum hætti. Ég efast ekki um, að hún geri það, sem hægt er, eftir þeim aðstæðum, sem hún býr við.

Ég vil að lokum segja þetta: Ef svo reynist, að þeir menn, sem hér hafa um að ráða, daufheyrast við kröfum Íslendinga um það, að nokkuð sé rýmkað til, þá megi þeir fá að vita, að þeir eru hér að framkvæma glæpsamlegt athæfi gagnvart hinni íslenzku þjóð.