13.10.1944
Neðri deild: 65. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (4001)

24. mál, atvinna við siglingar

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil biðjast afsökunar, að mér láðist að skrifa undir nál. með fyrirvara, og var þess ekki getið í nál., að till. minnar á þskj. 405 væri von. Ég er samþykkur stefnu frv. og að hafður verði sá háttur á um menntun sjómanna, sem frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar flyt ég brtt. á þskj. 405 vegna þess, að samkv. frv. er gert ráð fyrir því að vísu, að þeir, sem hafi haft réttindi, sem miðast við 75 smál. skip, geti fengið þessi réttindi framlengd þrátt fyrir hin nýju ákvæði l., en þó því aðeins, að þeir gangi undir próf áður í Stýrimannaskólanum.

Ég álít, að þetta ákvæði sé of þröngt í frv., og vil gera þá málamiðlun, að þeir, sem hafa farið með skip yfir 15 smál. í 36 mánuði, hafi möguleika til að fá réttindi sín færð upp í 120 smál., ef atvmrh. samþ. það.

Ég byggi þetta á því, að sá maður, sem hefur tekið hið minna fiskimannapróf og síðan farið með bát í að minnsta kosti 36 mánuði og getið sér góðan orðstír, er búinn til viðbótar við prófið að fá þá reynslu, að áhættulaust sé, að ráðh. megi heimila þetta.

Það er rétt hjá hv. frsm., að það má deila um, hvar eigi að draga markalinuna. Ég hef miðað við 120 smál.. því að ef það væri samþ., væri hægt að veita viðkomandi mönnum réttindi til að fara með velflest skip, önnur en síldveiðiskip. Ég óttast, ef þessi undanþága verður ekki samþykkt, að skortur verði á mönnum á næstunni. Við vitum um hinn mikla áhuga á að auka fiskiskipaflotann. Mér er einnig kunnugt um, að mjög margir menn, sem hafa farið með smærri skip undanfarið, hafa reynzt ágætlega. Það er því ekki óeðlilegt, að þeim séu veitt réttindi til að fara með stærri skip, án þess að þeir þurfi að ganga undir sérstakt próf.

Einhvers verulegs náms verður væntanlega krafizt til undirbúnings undir þetta próf. Við vitum, að það er meira fyrir reynda skipstjóra, sem eru orðnir miðaldra, að setjast á skólabekk að nýju en fyrir unga menn. Það gæti því farið svo, að ýmsir góðir og reyndir skipstjórar kinokuðu sér við því og létu sér þá heldur nægja smærri skip. Ég vil því vænta þess, að till. minni verði vel tekið, og ég sé ekki, að hún ætti að geta valdið misskilningi, og mér er kunnugt um, að margir skipstjórar á smærri skipum óska þess, að þessu verði komið þannig fyrir, á meðan þetta nýja skipulag er að festa rætur. Það er ekkert á móti því, að ungu mönnunum verði ætlað meira nám, en það er eðlilegt, að þeir, sem eru eldri og reyndari, fái þessi réttindi án þess að þurfa að setjast aftur á skólabekk.