14.01.1944
Sameinað þing: 4. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (4036)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Eysteinn Jónsson:

Ég vildi segja nokkur orð um þáltill., áður en henni verður vísað til þeirrar n., sem fyrirhugað er að kjósa. Ég vil ekki trúa því, fyrr en ég má til, að miklar deilur þurfi að standa um þá meðferð á sambandsmálinu og við lýðveldisstofnunina, sem nú er fyrirhuguð, og ræð ég það bæði af málavöxtum og af forsögu málsins. Íslendingar hafa flestir litið á tímann síðan 1918 sem millibil eða undirbúningstíma, unz sambandslagasamningurinn yrði felldur úr gildi og þeir tækju öll mál sín á eigin hendur. Um þetta vitna yfirlýsingar frá öllum flokkum. Framsfl. lét í ljós, að hann vildi eindregið stuðla að því, að þetta yrði gert jafnskjótt og tími væri til kominn skv. sambandslögunum.

Menn vissu ekki, hvaða áhrif þessi styröld kynni að hafa á gang málanna, en líklegt var, að þau gætu orðið mikil, og mátti muna stríðið 1914–18 og styrjöldina 1802–14. Samband Íslands og Danmerkur hafði þá slitnað í bæði skiptin og tengslin orðið Íslendingum ákaflega lítils virði, þegar mest á reyndi. Var þetta orðið öllum ljóst, að ekki væri annars að vænta. Danmörk var síðan hernumin 1940 og Ísland af öðrum hernaðaraðila. Af því leiddi þá breyting hins æðsta valds í landinu, sem öllum er kunnug, og fer síðan ríkisstjóri með vald konungs. En utanríkismál sín hafa Íslendingar tekið öll í eigin hendur. Með þessu var teningunum kastað. Það er ekki hægt að snúa aftur til þeirrar skipunar málanna, sem var fyrir stríðið.

Fram hafa komið mismunandi raddir um, hvern formlegan hátt væri rétt að hafa á sambandsslitunum, þegar þörf yrði að ganga frá þeim til fulls. Menn hafa bent á þær vanefndir samningsins, sem leiddi af einangrun Danmerkur við hernámið, og vildu sumir láta leiða af því full sambandsslit þegar árið eftir. Aðrir töldu réttara að bíða, en taka greinilega fram, að Íslendingar teldu sig hafa þann rétt, sem af vanefndum leiddi, og kynnu síðar að grípa til hans, ef svo bæri undir, þótt þeir kærðu sig ekki um það þá þegar. Þessi skoðun sigraði á Alþ., og í samræmi við hana voru ályktanir þess vorið 1941 og störf þess síðan. Ég tel, að þar með hafi allir þm. svarizt í bræðralag um það, á hverjum grundvelli byggja skyldi frekari framkvæmdir. Í ályktun um sjálfstæðismál landsins frá 17. maí 1941 er því slegið föstu af öllum þm. með skírskotun til sambandslaganna, að við höfum öðlazt rétt til sambandsslita, og með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að lýsa yfir því: að það telur Ísland hafa öðlazt rétt til fullra sambandsslita við Danmörku, þar sem Ísland hefur þegar orðið að taka í sínar hendur meðferð allra sinna mála, enda hefur Danmörk ekki getað farið með þau mál, sem hún tók að sér að fara með í umboði Íslands með sambandslagasamningi Íslands og Danmerkur frá 1918,“ — enn fremur, „að af Íslands hálfu verði ekki um að ræða endurnýjun á sambandslagasáttmálanum við Danmörku, þótt ekki þyki að svo stöddu tímabært vegna ríkjandi ástands að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnarskipun ríkisins, enda verði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka.“

Þar með var fastráðið, að lýðveldið skyldi stofnað og mál okkar tekin öll á íslenzkar hendur eigi síðar en í styrjaldarlok. Hv. 4. þm. Reykv. átti sinn fulla þátt í þessari samþykkt og því meiri en aðrir, að hann var utanrrh. og bar því öllum öðrum meiri skylda til að kveða upp um það, ef honum þótti þá uggvænt, að samþ. þessi stæðist ekki gagnvart öðrum ríkjum, en það gerði hann ekki. En í ræðu hans áðan gat ég ekki betur heyrt en hann efaðist mjög um, að Íslendingar væru, jafnvel enn, búnir að fá þennan rétt, sem þeir byggðu á 1941, eða nokkurn vanefndarétt yfirleitt, og ef þeir færu ekki nákvæmlega eftir samningnum frá 1918, fremdu þeir ekki aðeins lagabrot, heldur freklegt siðferðisbrot. Gegnir þetta furðu.

Nú er ekki í þáltill. frá 1941 gert út um það, hvenær Íslendingar skuli lýsa yfir af sinni hálfu, að sambandssáttmálinn sé felldur úr gildi. En ég fullyrði, að þegar þetta var gert, gerðu menn sér ekki í hugarlund, að undir nokkrum kringumstæðum yrði beðið lengur en til ársins 1944.

Ég skal upplýsa um leið, að um þessar mundir, eða rétt áður en þessi sáttmáli var gerður hér á Alþingi, kom flokksþing framsóknarmanna saman til að ráðgast um afstöðu sína í skilnaðarmálinu, og þá var ákveðið af flokksins hálfu, að hann fylgdi því, að lýðveldi yrði stofnað á Íslandi eigi síðar en í styrjaldarlok og eigi síðar en árið 1944. Og þó að þetta sé ekki tekið fram í þeirri ályktun, sem gerð var á Alþingi, þá fullyrði ég, að það var fleirum í hug en framsóknarmönnum, að ekki yrði beðið lengur en til ársins 1944, þó að styrjöldinni yrði ekki lokið þá.

Frá því, að þessi þál. var samþ., og þangað til meðferð málsins var endanlega ákveðin af þremur þingflokkum nú í nóv. s. l., komu fram ýmsar till. um, hvenær Íslendingar skyldu stofna lýðveldið. Það kom fram till. veturinn 1942 um að stofna það þá um sumarið, og var þeirri till. haldið fast fram af þremur flokkum, Sjálfstfl., Alþfl. og Sósíalistafl., í sambandi við annað mál, sem var óheillamál, en ég skal ekki blanda inn í þessar umr. Framsfl. hafði álitið skynsamlegast að bíða þar til árið 1944, eins og flokksþingið ákvað 1941, en hins vegar litið svo á, að þótt einhver flokkur hefði sérstöðu, þá ætti hann ekki að gera ágreining um þá meðferð á þessu máli, sem meiri hluti Alþingis ákvæði. Þess vegna lýsti Framsfl. því yfir 1942, að hann mundi fylgja lýðveldisstofnun þá, þó að hann væri áður búinn að taka þá stefnu, að rétt væri að bíða til ársins 1944, ef styrjöldinni lyki ekki fyrr. Þannig álít ég, að eigi að halda á þessu máli, standa saman um það, sem meiri hl. ákveður. Þannig álít ég, að minni hl. eigi að koma fram nú, og þá ekki síður, þegar þess er gætt, að hann hefur á fyrra stigi málsins gengið fullkomlega inn á, að við stöndum á öruggum réttargrundvelli. Það er ekki hægt fyrir þennan minni hl. að segja nú, að við stöndum ekki á öruggum réttargrundvelli. Það er ekki hægt að skerast þannig úr leik, eftir að menn eru búnir að lýsa yfir ákveðinni réttarstöðu Íslendinga. Það er talað um hraðfara leið í þessu máli og jafnvel óðagot. Út af því er rétt að taka fram, að Alþingi lýsti yfir því 1941, að Ísland hefði vanefndaréttinn. Margir Íslendingar hafa litið svo á, að við höfum þar að auki þann rétt, sem skapazt hefur við það, að sambandssáttmálinn er búinn að vera óvirkur í fjögur ár. Samt er farið svo gætilega í þetta mál, að menn láta sér ekki nægja að byggja á þessum tvöfalda rétti, heldur taka þann kostinn, sem tvímælalaust er skynsamlegast, að bæta við sjálfum samningsréttinum eftir sambandslögunum, sem við þó álítum, að sé úr gildi fallinn, með því að bíða þangað til nú í vor. Þess vegna er sá kostur tekinn að stofna lýðveldið 1944, þegar 25 ár eru liðin frá því, að sáttmálinn var gerður, og þegar liðin eru 3 ár frá því, að endurskoðun átti að fara fram, en að þeim 3 árum liðnum, höfum við einhliða rétt til að segja upp samningnum. Það er sannarlega ófyrirsynju talað um, að teflt sé á tæpt vað og áhættuleið valin í málinu.

Þá er einnig ætlunin að halda þannig á málinu, að Alþingi geri ekki eitt út um það, hvort stíga skuli þetta skref, heldur er einnig gert ráð fyrir þjóðaratkvgr. Það hefði verið ástæða fyrir hv. 4. þm. Reykv. að telja óviðurkvæmilega haldið á málinu, ef ekki ætti að fara fram þjóðaratkvgr. um sambandsslitin og lýðveldisstofnunina. M. ö. o., við göngum svo langt, að við tökum fullt tillit til samnings, sem við álítum þó, að sé úr sögunni. Þessi stefna er einnig tekin með tilliti til þeirrar þjóðar, sem við höfum gert þann samning við, og til þess að sýna svart á hvítu, að við viljum ekki á nokkurn hátt nota okkur það ástand, sem nú ríkir í Danmörku, til þess að slíta þessu sambandi.

Það er því að mínum dómi alveg óviðurkvæmilegt að bregða þeim, sem standa að þeirri málsmeðferð, sem nú er fyrirhuguð, um það, að þeir ætli sér að flana að þessu máli. Það er fjarstæða, að Danir geti með rökum fundið að þessari meðferð málsins. Það er óskiljanleg viðkvæmni fyrir því, sem kann að hrærast í brjósti einstöku Dana, sem misskilja þetta mál algerlega, sem kemur fram hjá þeim, sem nú beita sér gegn stofnun lýðveldis í vor.

Dönum kemur ekki á óvart það, sem við erum að gera í þessu máli. Við höfum keppzt við að láta í ljós þá skoðun, að við ætluðum okkur ekki að endurnýja sáttmálann við Dani, svo að þeir þyrftu ekki að vaða í villu og svíma um það, og forðazt að gefa þeim undir fótinn um framhald sambandsins. Þetta kom líka greinilega fram fyrir styrjöldina. Þess vegna er ekki hægt að bera okkur á brýn, að við höfum notað okkur ástandið í Danmörku til þess að stíga þetta skref.

Ég vil því vona, þrátt fyrir það, sem fram hefur komið, að hægt verði að fylkja mönnum öllum um þessa úrlausn. Mér finnst vera svo hóflega á þessu máli haldið, öll rök svo sterk og hníga að einni og sömu niðurstöðu, að ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að við getum ekki allir sameinazt um þessa málsmeðferð. Og þegar við látum atkvgr. fara fram um þetta mál, þá er öllum ljóst, að okkur ætti ekki að verða skotaskuld úr að láta þá atkvgr. sýna, að þjóðin vill þetta, og okkur ætti ekki heldur að verða skotaskuld úr því að láta atkvgr. uppfylla þau skilyrði, sem upp eru sett í sambandssáttmálanum, og væri það þýðingarmikið, þótt hann sé úr gildi fallinn. Ef sú ógæfa henti okkur, að við stæðum ekki jafnvel saman og ráðgert er í 18. gr. sambandslaganna, þá er það ekki fyrir annað en þá andstöðu, sem nú er haldið uppi í landinu gegn sambandsslitum nú. Einu áhrif þessarar mótstöðu verða þau að veikja okkur í atkvgr. og þar með að veikja aðstöðu okkar út á við eftir á. Ég vil vona, að hamingjustjarna þeirra manna, sem í andófinu sitja, sé svo hátt á lofti, að þeir verði ekki til þess að koma sundrung til leiðar. Ég geri ráð fyrir, að þótt þeir reyni með nokkru kappi að hafa áhrif á meðferð málsins á Alþingi, þá nái það ekki lengra, og að þegar málinu hefur verið ráðið til lykta hér á Alþingi, þá verði staðið saman um það, sem hér verður ákveðið.

Þá ætla ég að minnast þess að síðustu, vegna þess, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Reykv. um konungssambandið, að á sama tíma og alþm. gerðu bandalag 1941 og fylktu sér saman um þá stefnu, sem kom fram í þál. um sambandslögin á því ári, var einnig gerð önnur þál. um stofnun lýðveldis, og hún var auðvitað engu þýðingarminni en hin þál., og hver einasti alþm. 1941 galt henni jákvæði sitt eins og hinni. Sú þál. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að lýsa yfir þeim vilja sínum, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi, jafnskjótt og sambandinu við Danmörku verður formlega slitið.“

Með þessu eru gerð samtök um það, að lýðveldi skuli stofnað, jafnskjótt og sambandinu er slitið. Lýðveldisstofnunin er með þessu móti tengd sambandsslitunum, og er ekki hægt að slíta málin sundur, nema með því að taka upp algera stefnubreytingu frá því, sem ákveðið var 1941. Ég ræði þetta ekki nánar í sambandi við þessa þál., en frá mínu sjónarmiði er málefnalega rangt og gæti einnig verið hættulegt að aðskilja þessa tvo þætti. Við höldum því fram, að það sé réttur okkar að ákveða sjálfir, hver fari með æðstu stjórn landsins, og það er alveg tvímælalaust í beztu samræmi við eðli sambandsins við Dani og við konunginn, að þessu verði hvoru tveggja breytt í senn.

Ég vil svo láta þetta nægja um málið á þessu stigi, og það var í raun og veru aðalerindið að lýsa yfir því, að Framsfl. stendur óskiptur að þeirri þáltill., sem hér er til umræðu, og að hin er flutt, ef svo mætti segja, í umboði hans og tveggja annarra flokka þingsins.