01.02.1945
Neðri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (4132)

24. mál, atvinna við siglingar

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. — Ég kveð mér hljóðs nú af því, að af eðlilegum ástæðum hefur mér ekki gefizt kostur á að taka til máls í þessu máli fyrr en nú, og í öðru lagi af því, að mér virðist svo, að það sé sumum hv. þm. kannske ekki alveg ljóst, — hvort sem mér tekst að gera það ljóst, — hver er kjarni málsins.

Mér er tjáð, að þessi hv. d. hafi þó að miklum meiri hluta haft nokkuð ljósan skilning á málinu. En ágreiningur er nú kominn fram á þingi, og veltur þá á miklu, hvort sá ágreiningur, sem um málið er, verður leiðréttur hér við þessa umr.

Það væri freistandi að rifja upp að nokkru sögu sjómannafræðslunnar í landinu. En e.t.v. gerist þess ekki þörf. En ég vil þó benda á, að sjómannafræðslan er 54 ára gömul. Það tók þá allmiklar umr. hér á Alþ. að koma þeirri löggjöf á. En nútímamenn lofa allir framsýni þeirra manna, sem börðust fyrir málinu og urðu til þess að koma því í gegn í þinginu. — Með þessum l. var gert ráð fyrir því, að sú þekking, sem menn fengju, væri nokkru minni en nú er heimilað með fiskimannaprófi. En það var ekki gert ráð fyrir því, að menn gætu öðlazt skipstjórnarréttindi með minni þekkingu. Upp úr aldamótum var það svo, að við höfðum smáskip, 12 rúml., og úti um land frá 12 og upp í 40 rúml. En það þótti ekki hlýða, að aðrir færu með skip en þeir, sem höfðu próf frá Stýrimannaskólanum. En það hefur margt breytzt síðan. Árið 1915 mun hafa verið sett löggjöf um réttindi manna til skipstjórnar. Og þá var skipastóll okkar mjög að breytast. Togarar voru að koma til landsins, og við vorum að eignast skip til millilandasiglinga. Þeim l. var svo breytt 1922, og kröfunum, sem þá voru gerðar til skipstjórnarmanna, var þá enn breytt, því að þá komu minni fiskimannapróf til, sem veittu mönnum réttindi til þess að stjórna skipum upp í allt að 60 rúml. Þessi l. voru svo endurskoðuð 1936, sem sú breyt., sem nú er hér á ferðinni, er gerð á. En þá var þetta rýmkað fyrir mikinn áróður meðal minnaprófsmanna, þannig að réttur minnaprófsmanna var aukinn upp í 75 rúml. skip. En um leið var þyngt verulega nám hjá þeim mönnum, sem áttu að öðlast þennan rétt, frá því sem hafði verið áður. Það hefur því yfirleitt þyngzt nám þeirra manna, sem öðlast rétt til skipstjórnar, og jafnvel hærri próf. Höfuðástæðan fyrir því, að talið var gerlegt að hækka þessi réttindi upp í 75 rúml. skipa, var m.a., að ekki var talið líklegt, að skip af þessari stærð mundu yfirleitt notuð til úthafssiglinga, heldur til fiskveiða við ströndina. En eins og kunnugt er, eru háværar raddir um það að rýmka þetta upp í 150 rúml., en sumir vilja 120 rúml., án þess að nokkur fræðsla eða próf komi til hjá þeim mönnum, sem hafa réttindi til þess að stjórna 75 rúml. skipum.

Eins og frv. er nú, er gert ráð fyrir, að þeir menn, sem hafa tekið minna fiskimannapróf, verði að bæta við sig þekkingu, og það ætti að vera hverjum manni kleift að fara á námsskeið til þess að bæta við örlítilli þekkingu. Í sumum tilfellum væri þetta ekki nema próf, ef um greinda menn væri að ræða, sem mundu vilja stytta námið, og ætti það ekki að verða neitt kostnaðarsamt. En höfuðrök þeirra, sem bezt þekkja til þessara mála og vilja, að þetta sé gert, eru þau, að í landinu er til af ungum og eldri mönnum með hið almenna fiskimannapróf, svo að tugum skiptir, sem eru færir til þess að taka við stjórn skipa yfir 75 rúml. Allur þorri þeirra manna, sem ganga á Stýrimannaskólann hér í Reykjavík og gera það sjálfsagt á ungum aldri, tekur hið meira fiskimannapróf, — þeir, sem ekki taka farmannapróf, — og telur það nauðsynlega undirstöðu undir lífsstarf sitt að mennta sig sem bezt og svo sem efni standa til. En námsskeiðin, sem samkvæmt l. eru haldin úti um landið, hafa stuðlað að því, að minna fiskimannapróf er svo mikið notað af þeim mönnum, sem hugsa sér að stjórna minni skipum, og þar ,af leiðandi hefur þessum mönnum fjölgað verulega.

Það má segja, að menn, sem hafa öðlazt þessa þekkingu og þau réttindi. sem þessi próf veita, hafa í flestum tilfellum reynzt svo vel, að þeir séu fullfærir til þess að stjórna stærri skipum. En þessi próf veita ekki réttindi til þess. Sama er að segja um meiri fiskimannaprófin. Þeir menn, sem þau taka. fá alls ekki réttindi til þess að stjórna kaupskipum, þó að segja mætti, að meiraprófsfiskimaður hafi þá þekkingu til brunns að bera, að hann geti stjórnað kaupskipum. En honum eru alls ekki veitt þau réttindi. Þannig er það líka um minnaprófsmanninn. Hann hefur ekki öðlazt meiri rétt en minna prófið veitir honum.

Um frv. sjálft skal ég fara nokkrum orðum, eins og það er nú komið frá hv. Ed. Þar er atvmrh. veitt heimild til þess að veita mönnum með minna fiskimannapróf. sem hafa að vísu siglt sem skipstjórar eða stýrimenn á 30 rúml. skipi eða stærra í 5 ár og eru ekki yngri en 40 ára, réttindi til þess að fara með skip allt að 150 rúml. En upprunalega var gert ráð fyrir því í þessu frv., að þessir menn öðluðust ekki þennan rétt. nema þeir hefðu gengið undir próf áður og á námsskeið, ef þeir þyrftu þess með fyrst.

Það upplýstist hjá hv. sjútvn, í gær, að þó að þessi breyt. yrði að l., þá getur hún ekki komið til framkvæmda, nema l. um Stýrimannaskólann í Reykjavík sé breytt í samræmi við þessi l. En það hefur ekkert komið fram á þingi enn, sem bendi í þá átt, að svo eigi að gera. Þetta upplýsti skólastjóri Stýrimannaskólans í gær og sagði, að þetta væri nauðsynlegt. En ég veit ekki, hvort tími mundi vinnast til þess að koma slíku frv. gegnum þingið nú.

Það er mín skoðun, að menn eigi að ganga undir próf, áður en þeir öðlast rétt til þess að fara með skip. Það er margt, sem veldur því. Það er t.d. talið nauðsynlegt, að skipstjórnarmaður þurfi að hafa allvíðtæka þekkingu á öllu því. sem lýtur að björgun og slíku, en það er ekki hægt að veita fræðslu um slíkt nema á námsskeiðum. Eitt af því, sem nútíminn krefst, að mikil áherzla sé lögð á, og allir skipstjórnarmenn verða að hafa nákvæma þekkingu á, eru nýtízku björgunartæki, og nú er alltaf verið að gera stöðugt meiri og meiri kröfur á því sviði, eftir því sem tímar líða. Þá vil ég benda á eitt, sem er nauðsyn að vekja máls á hér. en það er, að skipstjórnarmaður hafi þekkingu á meðferð talstöðva. Það er ein af, kröfunum, sem nú eru uppi, að hver einasta fleyta sé útbúin með talstöð. Þessa þekkingu er ekki hægt að fá nema á námsskeiði. Það er því að mínu viti tvímælalaust nauðsyn, að þessi fræðsla fari fram á námsskeiðum. En hvernig sem þingið ræður því til lykta, þá vil ég láta skoðun mína koma fram um þetta atriði. Þetta er eitt af mestu öryggismálum þjóðarinnar, og afstaða mín í þessu máli er fyrst og fremst öryggismál. Við vitum það frá gömlum tímum, þegar menn urðu að bjargast á seglum. Nú er komin vélaöld, og við skulum segja, að það sé léttara að stjórna skipi með vél en áður með segli. En það er annað, sem fylgir með vélunum. Nú er ekki verið að bíða eftir, að lygni eða birti. til að taka land eða sigla fram hjá andnesjum, heldur er nú treyst á sérfræðiþekkinguna, að menn komist rétt fram hjá blindskerjum og boðum. Þess vegna er það, að einmitt nú er okkur nauðsyn á þekkingu sjófarenda og það lífsnauðsyn. — Þetta var það, sem ég vildi segja um frv. almennt.

Ég skal svo, til að þetta mál verði ekki allt of langt, víkja örfáum orðum að þeim rökum, sem mér virtist hv. 2. þm. S.-M. mæla fyrir því. að gerð væri sú undanþága, sem sett var inn í frv. í Ed. Sú undanþága er, eins og menn vita, um það, að menn, sem nú hafa rétt til að stjórna skipum 75 rúmlestum að stærð, geti fengið þann rétt án frekara náms upp í 150 smálestir. Ágreiningurinn er fólginn í því, eins og siglingafróðir menn, og ég vitna í því efni til þeirra, af því að þeir eru dómbærastir um það, — telja, að slíkar undanþágur eigi ekki að vera til. En ef menn vilja fá rétt til að stjórna stærri skipum en 75 smálesta, þá er það svo kostnaðarlítið fyrir viðkomandi mann að bæta við sig örlitlu námi, ef hann þarf þess með, og taka síðan próf samkvæmt reglugerð, sem gildir þar um. Hv. frsm. sagði, og það er alveg rétt, að það sé engin ástæða til að kveinka sér við að leggja þessa kvöð á þessa menn, af því að þeir séu fátækir. Þeir eru í skipstjórastöðu og búa yfirleitt við góð laun. Það er fullkomin ástæða til að krefjast þess, að menn í svo ábyrgðarmikilli og vel launaðri stöðu hafi þá fyllstu þekkingu til að bera, sem krefjast má.

Einn ókostur við undanþágurnar, eins og hér er gert ráð fyrir, er sá. að undanþágurnar, sem yrðu í höndum ráðh. á hverjum tíma, kæmu alltaf meira og mínna óréttlátlega niður. Ég held, að það hafi verið um 1925, að svo mikil brögð voru orðin að þessum undanþágum, að orðið var gersamlega óviðunandi, og sjómönnum þótti mælirinn vera orðinn svo fullur, að þeir hótuðu að leggja niður störf, ef þessu héldi áfram, af því að undanþágurnar voru ekki alltaf bundnar við hæfileika manna, heldur geðþótta ráðh. Það þurfti ekki annað en góður flokksbróðir hans ætti í hlut eða umsækjanda hefði tekizt að afla fisks úr sjó o.s.frv. Mönnum þótti undanþágurnar svo mikið vandræðafálm, að þeir töldu, að ekki mætti til þeirra grípa. Það er til svo mikið í landinu af ungum og efnilegum mönnum, sem hafa fullkomna menntun, að það á ekki að þurfa að gripa til undanþágnanna. Með slíkum undanþágum. sem hér hafa verið, er settur fjötur um fót ungra manna, sem búnir eru að mennta sig til þessara starfa.

Þá er það annað, sem fylgir undanþágunum og hv. 2. þm. S.-M. drap lauslega á. Hann taldi, að ef nota ætti skip, sem væri 150 tonn, til að sigla milli landa, þá gæti viðkomandi maður farið og tekið próf. Ég er hræddur um, að það yrði ærið örðugt fyrir viðkomandi mann að rjúka til að taka próf. ef skip hans lægi austur á Norðfirði með ísvarinn fisk og ætti að sigla til útlanda. Það er hætt við, að þá yrði ef til vill gripið til þess ráðs að fá mann með réttindi til að láta lögskrá sig að nafninu til sem skipstjórnarmann. Það er til í sjómannamáli heiti yfir slíka menn. Þeir eru kallaðir leppar. Og hvernig hefur leppmennskan gengið? Þetta eru venjulega menn, sem hefur gengið illa að komast í skipstjórastöður. Þeir eru áhrifalausir, eru venjulega niðri í hásetaklefa, eru skipstjórar aðeins á pappírnum, en gera ekkert af því, sem skipstjóra ber að gera. Það eru hreinustu vandræði, ef gripa þarf til þessarar leppsaðferðar. En ef maðurinn hefur tekið viðbótarnámsskeið sitt, þá er hann frjáls að sigla skipi sínu til útlanda og þarf ekki að nota þann mann, sem hefur hlotið þetta leppsnafn á sjómannamáli.

Ég skal ekki fara langt út í að sýna fram á nauðsyn þess, að þau atvik geti komið fyrir í siglingum hér við land, að nauðsyn sé á fullkominni þekkingu og að menn geti ákveðið, á hvaða stað skipið er statt. Ég vil aðeins benda á, að einmitt getur komið fyrir, að skip verði fyrir vélarbilun, helzt í ofviðri, og skipið reki til hafs. Þá eiga menn með meira próf að geta, — ef sést til sólar eða stjarna, - ákveðið þann stað, sem skipið er á, og stýrt til lands. Þetta getur maður með minna próf ekki. Ég tel því mjög mikið öryggi í því fólgið, að menn hafi sjófræðiþekkingu, jafnvel þó að þeir eigi að sigla hér við strendur landsins, og skip upp í 150 tonn eru höfð til sjósóknar á öllum tímum árs.

Hv. þm. hélt fram, að nauðsyn væri á, að undanþágurnar væru til staðar, en ég sé það alis ekki og get þar aftur vitnað til þess álits, sem færustu og lærðustu menn á þessu sviði álíta um málið. Það er ekki af sjálfselsku, sem þessir menn leggja svo mikla áherzlu á þekkinguna, heldur er það einmitt sú stefna, sem nú er uppi bæði hér á landi og annars staðar, að auka sem mest þekkingu sjófarenda, og þess vegna megum við á engan hátt draga úr þeim kröfum.

Ég þykist þá hafa fært nokkur rök fyrir því, að þær undanþágur, sem hér er um að ræða, eru varhugaverðar og í ýmsum tilfellum skaðlegar. Ég vænti, að hv. d. sé sjálfri sér samkvæm og breyti frv. á þann veg, að það verði nokkurn veginn eins og hún gekk frá því.

Ég skal svo að lokum benda hv. þdm. á, að á öðru sviði þjóðmálanna eru nú gerðar auknar kröfur. Nú er engum leyfilegt að stýra bifreið nema bifreiðarstjóra, sem verið hefur á námsskeiði og gengið undir verkleg og bókleg próf, svo að farþegarnir geti talizt öruggir. Og alltaf er verið að gera meiri og meiri kröfur til þessara manna, svo að þeir séu sem allra færastir um að leysa starf sitt af hendi. Þannig er þetta alls staðar. Það á þá að vera eina undantekningin, ef nú á að fara að slaka á kröfum til menntunar þeirra manna, sem sigla um höfin, og veita þeim undanþágur frá þeirri tilskildu þekkingu.

Ég þarf svo ekki að fara um þetta fleiri orðum, en ég gat ekki setið hjá og látið þetta mál með öllu afskiptalaust, úr því að mér hefur af tilviljun skotið hér upp. Mér fannst, að ég yrði að ræða um þetta mál við ykkur, hv. þm. Ég hef fjallað um þessa löggjöf, ekki einu sinni, heldur tvisvar. Ég er vel kunnugur þeim, sem látið hafa til sín heyra í þessu máli, og ég tel, að þeir hafi rétt fyrir sér, og ég tel enn fremur, að fyrir alla þá, sem á skipunum eru, sé brýn nauðsyn að hika hvergi frá þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra, er um höfin sigla.