29.02.1944
Sameinað þing: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (4237)

51. mál, hafnargerð í Ólafsfirði

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Með þessari till. á þskj. 87 er farið fram á heimild fyrir ríkisstj. til að verja 200 þús. króna vegna efniskaupa til hafnargerðar í Ólafsfirði. — Þessi till. kann nú að þykja nýstárleg, en ekki er langt síðan Alþ. gaf fordæmi með þál., er samþ. var 12. nóv. s. l. um efniskaup til rafveitu Reykjaness, og fleiri sams konar heimildir munu hafa verið veittar.

Á síðasta þingi voru samþ. hafnarl. fyrir Ólafsfjörð. Í sambandi við það var þá upplýst með rökum, að svo mikil nauðsyn væri þar á hafnarbótum, að í rauninni væri ekki nema um tvennt að velja, að leggja niður byggð í Ólafsfirði eða bæta höfnina. Var þá að því ráði horfið að bæta höfnina, og stóð til að hefja framkvæmdir á næsta sumri til að gera það allra nauðsynlegasta, svo að útgerð gæti haldið þar áfram. Efni hefur verið tryggt til þessara framkvæmda og útflutningsleyfi fengið fyrir því í Ameríku.

En nú er svo komið, að Ólafsfjarðarhreppur hefur ekki getað fullnægt 2. gr. hafnarl. um tryggingu fyrir væntanlegu láni til hafnargerðarinnar. Sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu, sem áskilið er, að gangi í bakábyrgð, hefur synjað um hana, — ekki af því, að hún vilji ekki styðja að framgangi málsins, heldur af því, að henni þykir löggjafarvaldið ganga of langt í því að krefjast ábyrgðar sýslnanna fyrir lánum, er einstakir hreppar taka til hafnargerða og annarra framkvæmda, og skorar á Alþ. að breyta þessum lögum.

Það er farið fram á það með þessari till., að stj. verði heimilað til bráðabirgða að kaupa þetta efni til þess að missa ekki af því. Að sjálfsögðu vakir það ekki fyrir okkur flm. að fá þetta efni gefið, heldur að ríkisstj. kaupi það og selji hafnargerðinni í Ólafsfirði, þegar hún getur fullnægt þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir lánstryggingu. Ég efast ekki um, að þeim verði hægt að fullnægja í vor. Og yrði þessi till. samþ., þá gæti verkið hafizt eins og til stóð.

Annaðhvort mun sýslunefndin breyta afstöðu sinni eða Ólafsfirðingar grípa til fullnægjandi ráða til að tryggja sér lán.

Ég býst við, að rétt þyki að láta fjvn. fjalla um þetta mál, og geri það því að till. minni í því trausti, að hún bregðist vel við og greiði svo fyrir því, að það geti fengið þinglega meðferð og fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi eða áður en því verður frestað. Að draga málið til hausts er sama og gera það þýðingarlaust í framkvæmd, því að þá verður Ólafsfjarðarhreppur óefað búinn að fullnægja þeim skilyrðum, sem þarf til að útvega lán.