11.02.1944
Sameinað þing: 15. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (4254)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Mér kom það nokkuð kynlega fyrir sjónir, er ég kom hér inn í d. síðastl. þriðjudag, að sjá þessari till. þá útbýtt. Hv. l. flm. till. hafði áður komið að máli við mig og spurt mig að því, hvort ég vildi verða meðflm. að henni, og gaf ég honum ákveðin loforð um það. Ég býst nú við því, að hv. l. flm. muni afsaka sig með því, að ég fór úr bænum í nokkra daga. Frá mínu sjónarmiði er það engin afsökun fyrir hv. þm., því að hann vissi, hvar ég var staddur, en hafði fengið ákveðin loforð um það frá mér, að ég ætlaði að verða flm.till. Í öðru lagi er það aukaatriði, hvort till. var lögð inn á mánudag eða þriðjudag, en þá var ég kominn í bæinn, og hefði verið jafnlíklegt, að till. hefði verið samþ. hvorn daginn, sem var. Mér finnst því þessi framkoma hv. l. flm. alveg óskiljanleg, en á bágt með að trúa því, að hann hafi ekki viljað hafa mig með á till. eða ekki viljað fylgi Sjálfstfl. við þetta mál eða þeirra manna, sem vildu vera með því. Ég býst við, að hann segi eitthvað á þá leið, að það hafi ekki andað svo hlýju til þessa máls frá ýmsum sjálfstæðismönnum, að það þýði að vænta stuðnings frá þeim. En hann vissi hins vegar um skoðun mína á málinu, og eins og ég tek meira tillit til hæstv. forseta (hv. 10. landsk.) og hv. 2. þm. Árn., þá veit ég einnig, að þeir taka meira tillit til þess, hvað ég segi í þessu máli, en til hv. þm. V.-Sk. Hefðu þá verið meiri líkur til þess að fá þá flm.till., ef ég hefði verið þar með. Það er þó ekki þar með sagt, að ég hafi nokkuð yfir skoðun þessara manna að ráða, en ég veit, að þeir taka meira tillit til þess, sem ég segi, en til hv. þm. V.-Sk., eins og ég tek meira tillit til þess, hvað þeir segja. Ég á bágt með að trúa því, að hann langi til þess að hafa einhvern vinstri blæ yfir till. þessari, og ég trúi því ekki, að flm. hafi flutt till. í því skyni, þótt ástæða hafi verið gefin til þess, heldur álít ég, að honum sé alvara í því að bæta úr samgöngunum austur yfir fjall, þótt framkoman gefi ástæðu til grunsemda. Er slík framkoma vægast sagt ósamboðin þm., þótt úr andstæðingaflokki sé. Ég býst nú við, að það hafi verið freistingin hjá þessum þm. að fá vinstri öflin í lið með sér, en ætlunin hafi ekki verið að skaða málið, en ég segi, að það verður ekki honum að þakka, þótt málið skaðist ekki. Ég vil lýsa hér yfir, að ég mun ekki láta málið gjalda þess, þótt svona hafi verið að þessu farið.

Um þetta mál hefur staðið styr að undanförnu, og hefur mörgum fundizt sitt hvað í þessum efnum. Ég hef stundum verið dálítið vantrúaður á, að þessi leið væri sú heppilegasta til úrlausnar fyrir okkur, og ýmsir verkfræðingar hafa einnig lagt á móti henni, ekki vegna þess, hversu leiðin er snjóþung, heldur vegna þess, hversu löng hún er. Mér hefur löngum vaxið í augum þessi mikla vegalengd, en eftir að ég hef nú vetur eftir vetur farið austur yfir fjall, þá hef ég sannfærzt um, að vegalengdin er algert aukaatriði. Þegar ég kom síðast leiðina austan yfir fjall, vorum við 11 og 1/2 klst. frá Þingvöllum til Reykjavíkur, og var okkur þá ljóst, að það hefði verið algert aukaatriði, þótt við hefðum farið 40–50 km krók, móts við það að vera heila nótt að brjótast áfram í sköflum. Við slíkt ástand verður því ekki lengur unað. Þegar það er nú upplýst, að Krýsuvíkurleiðin er snjóléttari og verður oftast fær, þá virðist mér sú ástæða, vegalengdin, orðin algert aukaatriði eftir þá reynslu á vetrarferðalögum, sem ég hef nú. Þegar vegurinn um Krýsuvík er kominn, verður um þrjár leiðir að ræða austur: Þingvallaleiðina, Hellisheiðarveginn og Krýsuvíkurveginn, og verða þá mjög miklar líkur til þess, að alltaf verði einhver þessara leiða fær. Þegar mikið snjóar á Þingvallaleiðina, þá snjóar ekki á Krýsuvíkurveginn. Sama máli gegnir um það, ef miklum snjó hleður niður á Krýsuvíkurleiðina, þá snjóar lítið á Mosfellsheiði. Ástæðan til þessa er sú, að snjólögin leggjast eftir því, hvaða átt er, þegar snjórinn fellur. Ef Krýsuvíkurvegurinn verður lagður, geta Reykvíkingar því verið nokkurn veginn vissir um að verða ekki mjólkurlausir.

Á síðastl. þingi var hér flutt till. af mér og mörgum fleiri þm., þess efnis, að rannsókn yrði látin fara fram á nýju vegarstæði yfir Svínahraun og Hellisheiði. Einnig skyldi rannsaka, hvort unnt væri að gera þar steinsteyptan veg. Þegar till. þessi var rædd, var ekki lagt á móti Krýsuvíkurveginum, heldur lýst yfir, að nauðsynlegt væri að fá Krýsuvíkurveginn engu að síður og hraða honum eins og hægt væri. Tilgangurinn með þessari till. á síðasta þingi var því sá að fá betri veg yfir Svínahraun og Hellisheiði og heppilegra stæði fyrir hann frá því, sem nú er, vegna þess að það er vitanlega mikið atriði að fá stytztu leiðina færa sem oftast. Hlýtur það að vera keppikefli þeirra, sem búa fyrir austan fjall, og eins þeirra, sem kaupa mjólkina, að fá hana flutta sem allra stytzta leið. Við gerðum okkur það ljóst, þótt við flyttum þessa till. á síðasta þingi, að nauðsynlegt væri að fá Krýsuvíkurleiðina, til þess að hún gæti orðið þrautalendingin, ef hin leiðin yrði ófær. Till. um rannsókn á steinsteyptum vegi og að gert verði nýtt vegarstæði yfir Hellisheiði og Svínahraun hefur því engu minni rétt á sér, þótt hér liggi fyrir till. um að hraða Krýsuvíkurveginum og fá honum lokið á tveim árum. — Enda þótt óheppilega hafi tekizt til um flutning þessarar till., ætla ég samt að vona, að hún nái fram að ganga á þessu þingi og að málið verði ekki látið gjalda þess, hvernig fór um flutning þess.

Nú liggja fyrir um 1/2 millj. kr., sem á fjárl. frá tveim síðastl. árum var ætlazt til, að yrðu notaðar í þessum tilgangi. En nú er farið fram á 2 millj. kr. til viðbótar, til þess að hægt sé að leggja að minnsta kosti 25 km eða helming af því, sem nú er ólagt, og með því svo að fá 2–21/2 millj. af fjárl. 1945 verður hægt að ljúka verkinu. Ég býst við, að fram komi raddir um, að hér sé um mikla peningaupphæð að ræða og mönnum vaxi þetta mjög í augum. En menn mega ekki gleyma því, að hér er ekki um það að ræða að tengja saman smáþorp, samgöngubót, sem kæmi nokkrum hundruðum manna að gagni, heldur er hér um að ræða að tengja Suðurlandsundirlendið við höfuðborg landsins, og mun um helmingur landsmanna koma til með að njóta þessa verks. Mætti segja, að verk þetta snerti alla landsmenn mjög mikið, þar sem börn og gamalmenni hér í höfuðstaðnum geta ekki neytt mjólkur dögum eða vikum saman. Og þegar á þetta atriði er litið, hversu margir það eru, sem munu njóta þessa verks, þá er alls ekki um svo stóra upphæð að ræða í sjálfu sér.

Ég mun svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að svo stöddu, en endurtek það og vona, að málið nái fram að ganga, þótt aðferðin við flutning þess sé á annan veg en ég hefði kosið og dálítið óvenjuleg.