03.03.1944
Sameinað þing: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (4293)

58. mál, launauppbót til embættis- og starfsmanna ríkisins vegna barna á framfærslualdri

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Ég ætla að vera stuttorður, en það segja nú reyndar flestir frsm., þó að efndirnar séu misjafnar. En ég ætla mér nú að efna það.

Það skal fram tekið, að till. þessi er flutt fyrir sérstaka hvatningu frá starfsmannasambandi ríkis og bæjarfélaga. Vitanlega hafa flm. sameinazt um till. vegna þess, að þeir álíta, að hún eigi fullan rétt á sér. Eins og hv. þm. er kunnugt, var ákveðið í dýrtíðarl. 1942, að greiða skyldi sérstakar bætur til þeirra manna, er hafa börn á framfæri sínu. Var ákveðið í 1., að greiða skyldi 300 kr. fyrir hvert barn innan við 16 ára aldur. Skyldi þetta greitt í tvennu lagi ár hvert. Með þessu var, að ég hygg, ætlazt til, að jafnað yrði dálítið milli þeirra manna, sem fátt hafa á framfærslu sinni, og hinna, sem hafa fyrir mörgum að sjá. Nú er það vitað, að þrátt fyrir greiðslu dýrtíðaruppbótar eiga þeir erfitt uppdráttar, sem hafa stórri fjölskyldu fyrir að sjá. Nú er hér um heimildarl. að ræða og því á valdi ríkisstj., hvort hún gerir þetta eða ekki. Ríkisstj. hefur nú auglýst, að því er mér er sagt (sjálfur hef ég ekki veitt því athygli), að hún muni ekki greiða þessa uppbót árið 1944, en hún hafði greitt þær árin 1942 og 1943. Um ástæður fyrir þessu er mér ekki kunnugt, en við nm. vitum ekki til, að frá því að þessum greiðslum lauk í árslok 1943, hafi orðið þær breyt., sem réttlæti eða geri það a. m. k. sjálfsagt að fella þessar greiðslur niður. Það má þó vel vera, að ástæður séu fyrir hendi og í fyrsta lagi þær, sem komu fram núna nýlega í yfirliti hæstv. fjmrh. um fjárhagsafkomu ríkissjóðs, að heldur horfi dapurlega, að tekjur hrökkvi fyrir útgjöldum. Ég mun ekki véfengja þetta, því að það er kunnugt, að ég hef talsvert gagnrýnt fjárl. fyrir þetta ár og gerði um það till., að ríkisstj. væri heimilað að fella niður 25% af öllum greiðslunum, ef það kæmi í ljós, að fjárl. mundu ekki standast, að tekjur mundu ekki fást fyrir gjöldum. Sú till. var felld. En þar með sýndi ég að ég taldi ekki vel úr hlaði riðið með fjárl. Þykir því víst undarlegt, að ég skuli vera viðriðinn þessa till., því að ég hef staðið mjög á móti ýmsum öðrum till., sem fram hafa komið við fjárl. á yfirstandandi ári. En að ég vildi vera með að flytja þessa till., stafar af því, að mér er kunnugt um, að það mundi koma mjög hart niður, ef felldar væru niður þessar greiðslur, sem voru með öllu sanngjörn uppbót vegna dýrtíðarinnar. Ég vil ekki heldur láta hjá líða að taka það fram, að sá frádráttur, sem eftir skattal. er heimilt að draga frá skattskyldum tekjum og talinn er persónufrádráttur, hefur staðið óbreyttur nokkuð lengi þrátt fyrir stóraukna dýrtíð. Ég held, að þessi frádráttur sé 300 kr. fyrir hvert barn, en ef á þetta kæmi hækkun, sem sýnist, að væri nokkuð sanngjarnt og í samræmi við aðra hækkun, sem orðið hefur á útgjöldum, mundi það ekki nema mjög mikilli upphæð nema fyrir þá menn, sem hafa þungt heimili eða mikla framfærslu. Ég vil segja, að þetta tómlæti Alþ. í því að leiðrétta þetta mál, að hækka persónufrádráttinn, sé einmitt mikill stuðningur við þessa till.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að eftir upplýsingum frá fjmrn. mundu þessar greiðslur ríkissjóðs nema kr. 225 þús. yfir árið, en auðvitað miklu meira alls, því að það er fjöldi fyrirtækja og stofnana í landinu og öll bæjarfélög, sem hafa greitt þessar uppbætur og ætla sér að fylgja því, þó að það sé engin lagaskylda, en fella þær niður, ef ríkisstj. fellir niður að greiða þeim, sem launaðir eru af ríkissjóði. Málið snertir því mjög marga utan embættismannastéttarinnar og, að ég hygg, fleiri utan hennar.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar, en fer fram á, að málinu verði vísað til síðari umr. og fjvn.