08.03.1944
Sameinað þing: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (4304)

58. mál, launauppbót til embættis- og starfsmanna ríkisins vegna barna á framfærslualdri

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Ég vil einungis benda á eitt atriði hjá hv. þm., sem síðast talaði. Hann var hálfpartinn að átelja það, að fjvn. hefði ekki skýrt Alþ. frá því, að þessi breyt. væri áætluð um niðurfelling þessara uppbóta. En í fjárl., sem ekki aðeins fjvn., heldur hver einasti hv. þm. fer höndum um, þar kemur þetta skýrt fram. Ég skal t. d. leyfa mér að lesa upp greinina um lögmannsembættið í Reykjavík, — og laun til annarra starfsmanna ríkisins eru, að því er snertir þessa uppbót sérstaklega, ákveðin eins, þ. e. a. s. hún er ekki nefnd, — þessi gr., sem er í þrem liðum: 1. Grunnlaun, 2. Aukauppbót, 3. Verðlagsuppbót. Þarna eru þá upp taldar allar þær greiðslur, sem um er að ræða til þessara og annarra hliðstæðra starfsmanna. Hér er ekki minnzt á neina uppbót vegna barna á framfæri launþega. Þetta stendur skýrt í fjárl. og þarf engrar skýringar við.