10.02.1944
Sameinað þing: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (4331)

8. mál, magnesiumframleiðsla úr sjó

Flm. (Sigurður Thoroddsen):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 8 ásamt hv. þm. Siglf. till. til þál. um rannsókn á möguleikum til magnesíumframleiðslu úr sjó. Við fluttum þáltill. á síðasta þingi samhljóða þessari, en hún var ekki útrædd. Okkur þótti málið þess virði að flytja þáltill. nú á ný.

Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð. Eins og segir í grg. till., þá hefur notkun magnesíums aukizt mikið á síðustu árum. Það er nú farið að búa til mörg áhöld úr þessu efni, sem áður voru búin til úr þyngri málmum. Og margir telja, að magnesíum eigi mikla framtíð fyrir sér.

Aðalframleiðsla á magnesíum fyrir stríð var í Þýzkalandi. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku voru fyrir stríð framleiddar af þessu efni 2000 smálestir á ári, en framleiðsla þar á þessu efni hefur margfaldazt síðan, þó að mér hafi ekki tekizt að fá neinar nákvæmar upplýsingar um þá framleiðslu síðan, vegna þess að því er haldið leyndu.

Fyrir tveim árum var gerð breyt. á framleiðslu þessa efnis. Það var verksmiðja í Ameríku, sem tók upp á því að framleiða magnesíum úr sjó. Það er kunnugt, að sjórinn inniheldur svo mikið af magnesíum, að í einum teningsmetra af sjó mun vera rúmt kílógramm af magnesíum. Þarna er því langstærsta náman til að vinna úr þennan málm.

Mér er ekki fullkunnugt um kostnað við þessa framleiðslu. Hún er talin 45 cent á kg á móti fimmföldum kostnaði áður.

Hráefni þau, sem nota þarf til þessarar framleiðslu, eru, eins og sagt er í grg. till., fyrst og fremst sjór, en því næst kalk, og hefur verið notað til þessa kalk af skelfiski, sem er skyldur ostrum og er í Ameríku í lögum; og svo þarf til framleiðslunnar rafmagn. Hér er nóg af kalki, t. d. fyrir vestan og víðar. En ég skal ekki fullyrða, að sá kalksandur, sem hér er, sé eins góður og sá, sem þarf til þessara nota. En þetta þarf að rannsaka. Og talið hefur verið, að hér á landi væru óvenjulega góð skilyrði til þess að framleiða rafmagn, svo að frá því sjónarmiði virðist svo sem þessi framleiðsla væri tilvalin hér á landi.

Nú er aðalframleiðsla okkar Íslendinga sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir. Og afkoma okkar er algerlega háð markaði fyrir þessar vörur. Framleiðsla okkar er því einhæf. Og ef það mætti ske, að þarna gæti verið um byrjun að ræða á nýrri framleiðslu hjá okkur, þar sem væri magnesíumframleiðsla, þá mundi það verða til þess að auka fjölbreytni í framleiðslunni, og þá ætti afkoma okkar þar með að verða tryggari. Það bendir allt í þá átt, að hér mætti framleiða magnesíum og að sú framleiðsla gæti átt framtíð fyrir sér. Og ef svo er, finnst mér, að ekki ætti að hika við að verja til þess, — jafnvel þó að allálitleg fjárhæð væri, að athuga, hvort möguleikar eru fyrir hendi til þessarar framleiðslu hér eða ekki. Mér finnst þetta mál varða svo miklu, að það skipti ekki máli, þó að þessi athugun kostaði nokkra tugi þús. kr. Mér virðist svo mikið vera í húfi. Ég legg svo til, að málinu verði vísað til síðari umr. og allshn.