10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (4464)

72. mál, læknishéruð

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég hef, eins og hv. flm. gat um, borið fram brtt. á þskj. 209. Ég tel, að það sé mjög nauðsynlegt að setja þetta í till., því að þá er skýrt kveðið á um, að þessi n. skuli einnig taka til athugunar þessi atriði. Þetta er e. t. v. eins veigamikið atriði í málinu og læknisskipunin sjálf, en í aðaltill. er ekki sagt til um þetta. Ég held, að þegar sú stefna er tekin í læknamálunum að búta læknishéruðin í smáparta, verði að taka til athugunar, hvaða þátt ríkissjóður eigi að taka í rekstri og byggingu læknisbústaða og sjúkraskýla í hinum smærri héruðum. Ég held, að í afskekktum héruðum sé alveg nauðsynlegt að breyta löggjöfinni þannig, að ríkissjóður byggi læknisbústaðina á sinn kostnað og sjái þeim fyrir öllu, sem tilheyrir læknisstarfinu. Ég legg því til, að þetta mál verði tekið til mjög rækilegrar athugunar, og legg ég á það áherzlu, að þetta verði ekki fellt úr till. Mæli ég því fastlega með, að till. verði samþ. eins og hún er á þskj. 209.