16.06.1944
Sameinað þing: 33. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (4499)

73. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Sú till. til þál., sem hér er til meðferðar, hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að lýsa yfir því, að niður sé fallinn dansk-íslenzki sambandslagasamningurinn frá 1918“.

Þessi till. er samhljóða 1. lið þál., er samþ. var hér á Alþ. 25. febrúar s.l. Í þeirri till., sem þá var samþ., var enn fremur ákveðið, að till. skyldi borin undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skyldi atkvgr. vera leynileg. Nú fór þessi atkvgr. fram í maí s.l.

Niðurstaða atkvgr. varð sú, að af 74.091 atkvæðisbærra kjósenda greiddu atkvæði 73.056, eða 98.60% allra kjósenda í landinu. Með till. greiddu atkvæði 71.120, eða 97.35%, en á móti 377, eða 0,52%. Auðir seðlar voru 805 og ógildir 754, eða samtals 2,13%.

Þegar till. var til meðferðar á þingi í vetur, var látinn uppi sá skilningur af einstaka þm., að setja bæri inn í till. fyrirmæli um vissa lágmarksþátttöku í atkvæðagreiðslunni og áskilja þann meiri hluta með till., sem fyrir er mælt í 18. gr. sambandsl. Eins og ljóst er, þá hefur atkvæðatalan farið langt fram úr ýtrustu kröfum, sem þar eru settar. Er því ljóst, að það er eindreginn vilji þjóðarinnar, að sambandsl. verði felld úr gildi. Till. er nú aftur lögð fyrir Alþ. og lagt til, að þetta verði gert.

Ég hef vissu fyrir því, að allir hinir sömu þm., er guldu till. jákvæði í vetur, gera hið sama nú. Legg ég því málið undir samþykki þm.