16.06.1944
Sameinað þing: 33. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (4503)

74. mál, gildistaka stjórnarskrár lýðveldis Íslands

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Í 81. gr. stjskr. þeirrar, er afgr. var á Alþ. í vetur, var svo fyrir mælt, að hún skyldi borin undir atkv. allra kosningarbærra manna í landinu. Þessi atkvgr. fór fram samtímis atkvgr. um till. um sambandsslitin, og allir hinir sömu menn höfðu atkvæðisrétt.

Niðurstaða atkvgr. var þessi: Af 73.056 kjósenda, er neyttu atkvæðisréttar, guldu 69.433 stjskr. jákvæði, eða 95.04%, en á móti voru 1051, eða 1.44%. Auðir seðlar 2054 og ógildir 518, eða samtals 3.52%.

Í 81. gr. stjskr. stóð enn fremur, að er stjórnarskráin hefur verið borin undir atkvæði þjóðarinnar og náð samþykki, skyldi um það gerð ályktun á Alþingi, hvenær stjórnarskráin skyldi öðlast gildi. Á þingi í vetur var nokkur ágreiningur um þetta og frestað fullnaðarákvörðun um það.

Nú liggur hér fyrir till. um, að 17. júní verði valinn til gildistöku lýðveldisstjórnarskrárinnar, enda var það höfuðfororð þm., að þessi dagur yrði valinn.

Ég leyfi mér að leggja til við hv. Alþ., að það fallist á till. eins og hún liggur fyrir.