22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (4525)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að vekja upp nýjar deilur um þessi dýrtíðarmál, þau hafa verið svo margrædd á Alþ., að það væri aðeins til þess að tyggja það sama upp aftur. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. Str. um skilning okkar á uppbótargreiðslum, í hvers hlut þær falla. Ég held, að það sé augljóst reikningsdæmi. Ég er á móti uppbótargreiðslunum í því formi, sem þær eru framkvæmdar, t.d. að því fleiri kjötkíló, sem menn framleiða, því hærri uppbótargreiðslur fá þeir, og það er öllum kunnugt, að í hlut smæstu bænda kemur sama og ekki neitt í uppbótargreiðslur, og því sama sem ekkert gagn að þeim. Og varðandi 6 manna samkomulagið, þá vildi ég alltaf, að við það væri staðið og það væri þannig útreiknað, að við uppbótargreiðslu fengju bændur allt upp í meðalbú, sbr. sex manna samkomulagið, út úr starfi sínu. Hins vegar var það haft á orði að selja kjötkílóið á 18 kr. Ef staðið hefði verið við álit sex manna n., þá er þetta sagt út í hött. Það er reiknað út af kjötverðlagsnefnd, en ekki af hagstofunni. Það er ekki nema 10% af verði, sem felst í þessum afslætti frá búnaðarþinginu frá því verði, sem hagstofan reiknaði út.

Viðvíkjandi ummælum hv. þm. Barð., að ummæli mín væru brot á samkomulagsgrundvellinum, sem ríkisstjórnin gerði með sér, þá er það alls ekki rétt. Ég lýsti því yfir, að ég væri ekki lengur á móti þessu frv., þó að ég væri andvígur því og þó að ég hefði barizt fyrir annarri stefnu í þessu máli á Alþ. Hins vegar segir í tilkynningu frá ríkisstj., þegar hún var mynduð, að ríkisstj. hafi með samþykki meiri hl. Alþ. ákveðið í fyrsta lagi launalög og í öðru lagi frv., sem hér liggur fyrir um breyt. á dýrtíðarlögunum. Ríkisstjórninni var kunnugt að hún hefði samþykki meiri hl. Alþ. í þessu máli, og sá meiri hl. er til, þó að hann hafi setið hér hjá.

Hv. fyrri þm. Eyf. þarf ekki að benda á neinar mótsagnir hjá mér í þessu efni. Ég lýsti því yfir áður, að það, að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, þýddi það, að ég væri á móti frv., en mundi sitja hjá við afgreiðslu þess. Ég lýsti því yfir, að við hefðum talið það mikilvægt, þegar nýja stjórnin var mynduð, og gengið svo langt að láta þetta mál hlutlaust. Viðvíkjandi ummælum, sem hafa komið fram í sambandi við þetta, er það gamla platan um, að sósíalistar vilji, að allt sé í öngþveiti og að allt gangi sem örðugast og þeir séu fjandmenn bændastéttarinnar, og það er hlutur, sem ekki tekur að svara. Þegar allt kemur til alls. þá er kannske vandséð, hverjir hugsa mest og bezt til landbúnaðarins og bændastéttarinnar. Og það er alveg spurning. þegar sagan verður skráð, hvort sá flokkur, sem alltaf er með bændur á vörunum, hafi hagað pólitík sinni skynsamlega fyrir bændastéttina.