29.01.1945
Efri deild: 113. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (4661)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég mun ekki tala langt mál um þetta frv., þar eð hv. 1. þm. Eyf. hefur talað rækilega um þetta mál af hálfu Framsfl., þannig að þar þarf litlu við að bæta. Mun ég því ekki ræða hinar einstöku brtt., sem hér liggja fyrir, við þetta frv., en ætla aðeins að minnast hér á eina brtt., sem ég flyt við frv., og get einnig verið mjög fáorður um hana, því að efni hennar er þannig, að hún skýrir sig sjálf.

Það er augljóst mál, að afgreiðsla þessa máls fer þannig úr hendi hér á hv. Alþ., að það veldur allmiklum útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, og eru menn nokkuð ósammála um, hve sá útgjaldaauki er mikill. En ég geri hins vegar ráð fyrir því, þegar menn fara að reikna saman, hverjar séu tekjur sumra embættismanna samkv. þessu frv., og margfalda þær með dýrtíðaruppbót, og þegar menn hafa lagt allar þær upphæðir saman, að þá fari menn að renna grun í, hvernig er að fara um gjaldeyri okkar, en ég mun ekki orðlengja um það. En mér finnst það alveg auðsætt mál, að svo geti farið, þegar þessi launal. hafa verið samþ., að ekki líði mjög á löngu, þangað til ríkið eigi fullt í fangi með að inna þessar greiðslur af hendi. Ég er þó þeirrar skoðunar, að það sé eitt aðalatriðið fyrir hvort þjóðfélag, að það eigi góða embættismenn og launi þá vel, en hins vegar getur ekkert ríki til lengdar launað embættismenn sína í ósamræmi við tekjurnar. Ég álít því nokkuð til í því, sem komið hefur fram í grg. fyrir þessu frv. í upphafi og jafnframt í nál. þeirrar hv. n., sem um þetta mál hefur fjallað, að það skipti mjög miklu máli, bæði fyrir þjóðfélagið og ekki síður fyrir embættismennina. að launakerfi ríkisins verði tekið til endurskoðunar og reynt að gera það einfaldara og ódýrara en það nú er. Það er augljóst mál, að slíkt er í þágu þjóðfélagsins, en það mun sannast, að það er ekki síður í þágu embættismanna og starfsmanna ríkisins. fyrir þá sök, að um leið og ríkið launar þeim vel, er alveg fullvíst, ef embættismannastéttin er fjölmenn og fjölmennari en þörf gerist, að þá kemur að því, að þjóðfélagið getur ekki innt greiðslur sínar af hendi gagnvart þeim, og því fyrr sem embættismannastéttin er fjölmennari en hóf er á. Þess vegna hlýtur það alltaf að vera í þágu embættismanna, að embættismannakerfið sé sem einfaldast, vegna þess að með því eina móti getur fátækt þjóðfélag launað þeim svo, að viðunandi sé fyrir þá.

Í annan stað er það ljóst, og hefur verið rætt um það hér á hv. Alþ., að það er nú þegar mjög misjafnt, hvernig embættismenn inna, skyldur sínar af hendi, og er ekki til neins að draga fjöður yfir það. Það mun vera nokkuð rétt, sem hér hefur komið fram opinberlega, að skrifstofutími er mjög misjafn og menn sækja skrifstofur sínar mjög misjafnlega. Það hefur þegar verið kastað hnjóðsyrðum til þeirra manna. sem vinna erfiðisvinnu og afkasta litlu, en það er áreiðanlega ekki síður ástæða til þess að kvarta undan því, hvað afköstin hafa minnkað hjá opinberum skrifstofum og embættismönnum. Þess vegna er það, ef við viljum launa embættismenn vel, að þá verðum við jafnframt að gera þá kröfu til þeirra, að þeir vinni störf sín sæmilega. Í þessari till. minni er því gert ráð fyrir því tvennu. að áður en l. þessi öðlist gildi og þjóðfélagið veitir embættismönnum sínum þessa fjárhagslegu réttarbót, komi þar í móti, að embættismenn ríkisins aðstoði við að gera starfsmannakerfið einfaldara og ódýrara en það nú er og að semja l. um réttindi og skyldur embættismanna og opinberra starfsmanna. Með því eina móti, að allt þetta haldist í hendur, er von til þess, að þetta mál geti farið sæmilega úr hendi.

Að vísu munu menn segja, að þetta verði gert síðar, en ef það er ekki gert jafnsnemma og lög um laun starfsmanna ríkisins, þá mun verða dráttur á því, að það verði samþ., þótt um það sé rætt í nál. og blöðum. Það kann að vera, að þessi brtt. verði felld, en þá gæti farið svo, að síðar megi á það minnast, að óheppilegt hefði verið að samþ. þetta ekki um leið. Því að ekki má gleyma því. sem oft hefur verið um rætt, að ósamræmi milli stétta í þjóðfélaginu stendur aldrei lengi, slíkt leitar ætíð jafnvægis. Ég álít því fullvíst, að heppilegast væri bæði fyrir ríkið og þegnana, að þetta verði gert samtímis.

Ég skal svo ekki tala öllu meira um þetta. Ég geri ekki ráð fyrir, að brtt. mín nái fram að ganga. Það er búið að semja um þetta mál, og má vera, að þetta sé þar til baga, en við því má búast, þegar samningar eru gerðir þannig um eitt mál, eins og frv. um launakerfið, að allt fari ekki vel. Þá var eitt atriði, sem ég vildi minnast á í sambandi við 30. gr. frv. Þar er sleppt úr að ákveða laun við húsmæðraskóla. Að vísu er því svo farið, að mörgum stofnunum, sem ekki eru ríkisstofnanir, er sleppt úr, en hér eru aðrir skólar, sem ekki eru ríkisskólar, teknir upp í frv., og finnst mér því ósamræmi í því að sleppa þessari tegund skóla. Ég vil aðeins beina þessu til n., án þess að ég hafi ákveðið, hvort ég ber fram brtt.. þegar ég hef heyrt skýringu n.

Ég ætla ekki að ræða hinar einstöku brtt. við frv., en tel mér hins vegar ekki fært að greiða atkv. með frv. í heild.