22.02.1945
Neðri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (4820)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Þetta frv. var flutt í hv. Ed. á sl. sumri. Efni þess var að heimila dómsmrh. að veita þeim, sem sviptir hafa verið borgara- og atvinnuréttindum með dómi eða vegna afleiðinga refsidóms fyrir afbrot framin fyrir 17. júní 1944, réttindi sín aftur án umsóknar. Stóð þetta í sambandi við fyrirætlanir, sem þá voru á döfinni um allvíðtæka náðun eða sakaruppgjöf í sambandi við stofnun lýðveldisins. Til þess hefur ríkisstj. heimild samkv. stjórnarskránni án sérstakra l., en til að veita aftur atvinnu-, og borgararéttindi þurfti sérstaka löggjöf.

Þegar mál þetta kom fyrir hér í Nd., var því vísað til allshn. Meiri hl. hennar lagði til, að frv. væri fellt, og færði rök fyrir því, að þetta væri allt of víðtæk heimild, sem hefði m.a. í för með sér. að samkv. því væri heimilt að veita aftur atvinnuréttindi, ökuleyfi og önnur slík réttindi mönnum, sem jafnvel hafa valdið mannslátum við ölvun við akstur o. fl. slíkt. Þegar átti að taka málið fyrir til 3. umr. í sumar, var synjað um afbrigði, þannig að það náði ekki fram að ganga. Hins vegar kom fram í báðum d., að sterkur meiri hl. var fyrir að samþ. frv., og er mér ekki annað kunnugt en svo sé enn. Til þess að draga úr frv., þannig að það yrði ekki eins víðtækt og það var, hefur allshn. eða meiri hl. hennar orðið ásátt um að breyta frv. Flytur hún brtt. á þskj. 1145, þannig að í stað þess, að í frv. er ákveðið „að veita réttindi aftur án umsóknar“, þá komi orðin: „fá réttindi sín aftur, enda hafi ekki hlotizt heilsutjón af verknaði þeirra“, þannig að allir þeir, sem hafa valdið heilsutjóni með slíkum verknaði og af þeim ástæðum verið sviptir atvinnuréttindum, geti ekki fengið þau aftur: Ég vil taka skýrt fram, eins og ég tók fram í framsöguræðu fyrir meiri hl. n. í sumar, að að meginstefnu til er ég andvígur þessu, en þó er náttúrlega allt öðru máli að gegna um málið, ef brtt. meiri hl. allshn. verður samþ., því að hún dregur mjög úr hinum miklu ágöllum, sem upphaflega voru á frv.