26.09.1944
Sameinað þing: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (4866)

147. mál, verðlækkun á vörum innan lands

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Það mun hafa verið 14. þ. m., sem samþ. var till. hér á Alþ. um að halda áfram að borga niður verð á landbúnaðarvörum á innlendum markaði í nokkra daga. Var gert ráð fyrir, að fyrir þann tíma, sem til tekinn var, mundi verða búið að skipa þessum málum lengra fram í tímann, en það hefur farið svo, að ekki hefur unnizt tími til að ganga frá málinu til frambúðar, og það er fyrst nú verið að útbýta frv. frá meiri hl. fjhn. Nd., sem ætlazt er til, að gildi í eitt ár. En þar sem ætla má, að það taki nokkra daga að afgreiða það frv., þótti nauðsynlegt að flytja þáltill. í Sþ., sem fæli ríkisstj. að halda áfram niðurgreiðslum, og með tilliti til þessa er till. á þskj. 366 flutt.

Við flm. erum meiri hl. fjhn. Nd., sömu menn, sem flytja frv. Með till. er ekki ætlazt til annars en að framlengt verði það skipulag, sem er, þar til frv. er afgreitt.

Af því að þetta mál var rætt allmikið í Sþ. á dögunum, sé ég ekki ástæðu til að hefja almennar umr. nú, og ég sé ekki ástæðu til að óska, eins og sakir standa, að till. verði vísað til n., þar sem um bráðabirgðaskipulag er að ræða. Ef fram kemur krafa um, að henni verði vísað til n., er ekki hægt að hafa á móti því, en vonandi geta þm. samþ. hana nefndarlaust og látið hana ganga til síðari umr. Mun ég svo ekki mæla fleiri orð að sinni fyrir till.