18.01.1945
Efri deild: 105. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (4911)

257. mál, veltuskattur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Ég er í þeirri n., sem stungið hefur verið upp á að vísa þessu máli til, og býst því við, að ég geti fjallað

um málið í n. Ég er ekki vanur að tala mikið um mál við 1. umr., sem eiga að fara til n., sem ég er í, en það eru þó örfá orð, sem ég vildi segja nú þegar um þetta mál. Ég vildi í fyrsta lagi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvers vegna hann yfirleitt stingur upp á því, að þetta mál fari til n. Mér hefur virzt það svo með þessi stærri mál, sem hæstv. stj. hefur verið að sýna, síðan hún kom til valda, að þau hafi lítið til n. að gera. Það er yfirleitt samið um þessi mál, ekki einasta í höfuðdráttum eins og oft hefur áður verið venja, að stjórnarfl. hafa samið um málin í höfuðdráttum, heldur virðist nú vera samið um málin í hverju einstöku atriði og ekki þýði fyrir stjórnarandstæðinga a.m.k. að stinga upp á neinum breyt. þar á. Í öðru lagi get ég ekki stillt mig um að láta í ljós nokkra undrun yfir því, að þetta frv. skuli vera borið fram í því formi, sem það er, og fróðlegt hefði verið að heyra til hæstv. fjmrh. og flokksbræðra hans, ef Framsfl. á valdatíma sínum hefði komið fram með slíkt frv. sem þetta. Ég skal þó taka það fram, að ég skil það vel, að stj. þarf nýjar tekjur og nýja tekjustofna til þess að standast fyrirsjáanleg útgjöld. Það, að stj. þarf auknar tekjur, er afleiðing af tvennu: Það er fyrst og fremst afleiðing þeirrar þróunar, sem hv. þm. Str. gerði að umtalsefni í ræðu sinni og verið hefur í fjármálum þjóðarinnar nú um skeið, og það er í öðru lagi afleiðing af stefnu hæstv. ríkisstj. Ég álít, að þó að landsmenn eigi alls ekki allir, og ekki allir flokkar, jafna sök á því, hvernig þessi þróun hefur verið, að heildargjöld ríkisins og sveitarfélaga hafa stöðugt aukizt, þá verða þó allir landsmenn, — og þar af leiðandi allir flokkar og alþm. —, að taka jafnt afleiðingunum af því. Þess vegna er það, að þó að ég sé stjórnarandstæðingur, þá mun ég sumpart styðja og sumpart ekki veita andstöðu sumum af þeim tekjuöflunarfrv., sem stj. ber fram. En þó að maður viðurkenni. að það vanti tekjur, þá er í fyrsta lagi það, að ég álít, að það sé hæstv. ríkisstj. sjálfrar og hennar fl. að taka afleiðingunum af því, sem leiðir beinlínis af eigin stefnu hennar, og í öðru lagi, þó að þörf sé tekna í ríkissjóð, getur skattafrv. verið þannig úr garði gert og svo ósanngjarnt og óheppilegt, að ekki sé hægt að styðja það, þó að þörf sé á tekjum, og a.m.k. er full ástæða til þess að athuga það, hvort ekki sé hægt eftir öðrum heppilegri leiðum að fá svipaðar tekjur í ríkissjóð en stungið er upp á með þessu frv. Það er stutt síðan hér var á ferðinni á Alþ. frv. um eignaraukaskatt. Að því frv. stóðu ásamt Framsfl. tveir af stuðningsfl. núv. ríkisstj. Eftir þeim áætlunum, sem gerðar voru um þann skatt, hefði hann átt að gefa hærri tekjur en þessu frv. er ætlað að gefa. Að vísu var eignaraukaskatturinn þess eðlis, að ekki var hægt að leggja hann á nema einu sinni, en hæstv. fjmrh. sagði, að þessi skattur, sem hér er farið fram á, verði ekki heldur lagður á nema einu sinni. Nú vildi ég spyrjast fyrir um það hjá forsvarsmönnum þessara tveggja stuðningsfl. stj., Alþfl. og Sósfl.: Hvernig stendur á því, að þeir, sem hafa þó 2/3 af ríkisstj. og þar með allt hennar ráð í hendi sér, hafa ekki heldur látið bera slíkt skattafrv. fram heldur en þetta; frv., skatt, sem þeir hafa áður flutt og talið á allan hátt réttmætan?

Eins og hv. þm. Str. tók skýrt fram og ég ætla ekki að orðlengja um, þá er það svo, að hvað sem þessi skattur, sem ráðgerður er í frv., er kallaður, þá er hann í rauninni tollur, sem hlýtur að koma niður á öllum almenningi. Ég hef oft samþ. ýmsa tolla, og það er ekkert úrslitaorð um það, að gjöld til ríkissjóðs séu ranglát út af fyrir sig, þó að það séu tollar, því að þeir geta verið réttlátir, en það hefur verið greinilega sýnt fram á það, að þessi tollur, sem hér er lagður á allar vörur, er svo ranglátur sem verða má. Hann t.d. kemur nákvæmlega jafnt niður á nauðsynjavöru, sem yfirleitt er lítið lagt á af verzlunum, og á óþarfa. Það stendur að vísu í frv., að það sé ætlazt til þess, að vörurnar hækki ekki vegna þessa skatts, en ég álít það innantóm orð og þýðingarlaust að setja slíkt í l. Annaðhvort hljóta vörurnar að hækka um það, sem tollinum nemur, eða heildsölur og verzlanir hefðu staðið jafnvel að vígi að lækka vörurnar um sömu upphæð, og ef verzlanir geta borið þennan skatt, án þess að hækka vörurnar, þá gætu þær það eins, þó að verðlagseftirlitið skipaði þeim að lækka þær sem þessu nemur, og það mundi draga úr dýrtíðinni. Þetta virðist mér vera alveg augljóst mál, sem ekki sé hægt um að deila. Ég býst við, að stuðningsfl. stj. þyki það ekki beinlínis galli á frv., þó að það sé alveg sýnilegt, að þessi skattur kemur harðast niður á þeim landsmönnum, sem verzla í samvinnufélögunum, og mér virðist eins og það hlakki ofurlítið í sumum út af því. En hvað þá menn snertir, sem verzla í samvinnufél., er þetta alveg augljóst mál, hvernig sem að er farið, hvort skattarnir eru lagðir á veltu ársins 1944 eða 1945, því að hvort tveggja hlýtur að koma fram sem minnkandi arður greiddur félagsmönnum. Það getur ekki í samvinnufélögum komið niður á verzluninni, án þess að það komi niður á almenningi, vegna þess, að í því tilfelli er verzlunin og almenningur eitt og það sama. Hv. þm. Str. minntist á það, hvernig mundi fara eftir þetta ár, og færði rök að því, sem ég fellst alveg á, að ekki séu líkur til þess, ef sömu stjórnarstefnu er haldið, að hægt verði að komast af með minni tekjur en áður, og hvað á þá að koma í staðinn? Hér eru á ferðinni ný launal. fyrir starfsmenn ríkisins, það er búið að fella till. frá mér, sem hefði lækkað útgjöld ríkisins af þessum launal. um 2 millj. kr., og það er búið að samþ. brtt. frá meiri hl. fjhn., sem hækkar þessi útgjöld frá því, sem frv. var upphaflega, a.m.k. um 1/2 millj. kr., m.ö.o. nokkurn veginn sömu upphæðina og einu af þeim tekjuöflunarfrv., sem stj. ber fram, er ætlað að gefa ríkissjóði í tekjur. Og það hefur verið minnzt á tryggingarnar, sem stj. hefur lofað, að komist í gegn á þessu ári. Það er því nokkurn veginn víst, að það muni koma sömu þarfirnar á næsta ári eins og nú, og hvað á þá að taka til þess að fullnægja þessum þörfum? Hæstv. fjmrh. sagði, að þessi skattur yrði ekki á lagður nema þetta eina ár, og þess er óskandi, að hann og hæstv. stj. geti staðið við það. En ég vildi spyrja hann út frá þessu, sem ég sagði, hvað stj. meinar með því að leggja til, að þessi tekjuöflunarfrv. gildi aðeins eitt ár, þegar það er fyrirsjáanlegt, að sömu tekjur þarf framvegis. Er ekki kominn tími til þess að endurskoða dálítið skattalöggjöfina með það fyrir augum að fá fastari tekjustofna. svo ekki þurfi í vaxandi mæli að framl. slík l. frá ári til árs.

Hæstv. ráðh. játaði, að þessi skattur kæmi misjafnt niður, og það í ríkara mæli en aðrir skattar. En hvers vegna er verið að bera fram slíkt frv., sem kemur harðara og misjafnara niður á skattborgurunum en nokkur annar skattur hefur gert hingað til, og þar með óréttlátara? (Fjmrh.: Það er misskilningur.) Hæstv. ráðh. sagðist játa, að þessi skattur kæmi misjafnara niður og það í ríkara mæli en aðrir skattar, — því vona ég, að skrifararnir hafi náð. Nú dettur mér ýmislegt í hug í sambandi við það, þegar lagt er til að leggja á skatt, sem hæstv. ráðh. játar, að komi misjafnar niður en aðrir skattar og þar með ranglátar. Ég er búinn að benda stuðningsfl. stj. tveimur á skattafrv., sem þeir sjálfir voru með og þeir hefðu þó a.m.k. átt að geta haldið fram nú í staðinn fyrir þetta, en það kemur fleira til. Mér finnst, að áður en lagt er út á aðra eins braut og hér er farið fram á, þá hefði átt að taka til athugunar að afnema skattfrelsi það, sem hin efnuðustu fyrirtæki þjóðfélagsins nú hafa. Ég á þar við varasjóðshlunnindi hinna almennu hlutafélaga, a.m.k. margra þeirra. Það eru sum hlutafélög, sem rekin eru sem gróðafyrirtæki, ekki nein þjóðþrifafyrirtæki, og ég sé ekki og hef aldrei séð, hvers vegna þau eiga að njóta þessara hlunninda fram yfir einstaklinga, sem reka sams konar fyrirtæki. Og yfirleitt eru þessi félög rekin af efnaðri mönnum. Í sumum þessum hlutafél. munu vera maðurinn, konan og börnin og aðrir ekki. Og það hefur verið sagt hér á þingi, ekki af mér, heldur af flokksbróður hæstv. ráðh., að þessi hlutafélög væru sum þannig, að það væri hægt að halda stjórnarfundina í hjónarúminu. Mér hefði nú fundizt, sérstaklega þegar þess er gætt, að 2/3 hlutar stj. eru skipaðir sósíalistum, að það hefði verið eðlilegt, að það hefði verið athugað, hvort ekki ætti að einhverju leyti að afnema þessi sérréttindi, áður en farið er að leggja skatt á allan almenning í landinu, eins og hér er farið fram á. Mér virðist, að sósíalisminn hafi ekki orðið ofan á að 2/3 hlutum í hæstv. stj., þegar það var samþ. að ganga inn á að bera þetta frv. fram. (Fjmrh.: Má ekki telja öll félög?) Ég býst við, að hæstv. ráðh. eigi við samvinnufélögin. En ég hef vikið að því áður, að samvinnufélög og meðlimir þess eru það sama, en það má vel taka allt þetta til athugunar. Ég er ekki heldur að halda því fram, að afnema beri allt skattfrelsi hlutafélaga. Ég á sérstaklega við félög, sem reka ýmiss konar atvinnu, sem ekki getur talizt lífsnauðsyn neinni þjóð. Ég býst ekki við, að ég mundi samþ. það, þó að það væri borið fram í n., að afnema skattfrelsi og varasjóðsframlag útgerðarfyrirtækja, og er þó þess að geta í sambandi við það, að landbúnaðurinn framleiðir líka lífsnauðsynjar handa þjóðinni, og ekki hefur hann sams konar réttindi, og iðnaður, sem hér er rekinn sem hlutafélög, hefur ekki sams konar réttindi.

Ég vildi nú spyrjast fyrir um það þegar við þessa umr., hvort það er hugsanlegt, að brtt., t.d. frá mér, sem fram kæmu í fjhn., yrðu teknar til greina, yfirleitt hvort það þýðir nokkuð fyrir mig að ræða þetta mál. Ég þekki mína meðnm. að því, að þeir eru samvinnuþýðir menn, og ég kvarta ekki undan þeim. En þegar þeir fást ekki til að ræða uppástungur, þá stafar það frá skipunum eða samþykktum í flokkum þeirra. Ég vildi mjög gjarnan stuðla að því, og mér er það fullkomin alvara, að ríkissjóður gæti staðizt hvað tekjur og gjöld snertir, þó að ég vilji ekki fallast á þann óskapnað, sem hér er borinn fram. Og þó að skattar þyki háir á skattborgurum landsins, skil ég þó ekki í öðru. ef þjóðin getur risið undir því að borga þennan skatt, sem, eins og ég hef sýnt fram á, er tollur, sem öll þjóðin borgar, en að koma mætti þessu fyrir á heppilegri hátt en þann, sem hér er farið fram á.

Hv. 3. landsk. féllst á það og sagði það beint í ræðu sinni, að þetta væri óæskileg aðferð og það væri aðeins af illri nauðsyn, sem þetta frv. væri borið fram, og hann afsakaði það með því, að þetta ætti aðeins að gilda í eitt ár. Það hefur verið sýnt fram á það, hve miklar líkur eru til þess, að þetta geti gilt aðeins í eitt ár eða þá, að annað þurfi ekki að koma í staðinn. En hvernig stendur á því, og að því vil ég spyrja hv. 3. landsk., að hann og flokkur hans hafa enga viðburði nú í stjórnaraðstöðunni til þess að fá fram í stjórnarsamvinnu suma þá skatta, sem þeir hafa áður talið réttláta og gætu komið í staðinn fyrir þennan skatt, sem hann taldi illa nauðsyn?

Ég skal ekki orðlengja þetta. Erindi mitt var að skýra frá afstöðu minni í fjhn. Ég tel, að það sé einungis formsatriði að vera að ræða þetta, því að það mun fyrir fram ákveðið. hversu því verður lokið. En ég vildi spyrjast fyrir um, hvort það er ekki tilgangslaust að vinna að þessu máli í nefnd.