06.12.1944
Sameinað þing: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (5316)

204. mál, rafveitulán fyrir Ólafsvíkurhrepp

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Þessi till. fer fram á að heimila ríkisstj. að ábyrgjast f. h. ríkissjóðs 130 þús. kr. lán til rafveitukerfis í Ólafsvík.

Um nokkurt skeið hefur verið fyrirhuguð virkjun Fossár fyrir þorpin í Ólafsvík og á Sandi og nágrenni þeirra. Rannsókn sýnir, að þar er um einstæð skilyrði að ræða, og ætti virkjunin að verða mjög hagstæð. Enn hefur ekki verið hægt í þetta að ráðast, því að efni hefur ekki verið fáanlegt. En nú hafa Ólafsvíkingar hug á að fá rafmagn til ljósa og leggja inntaugakerfi um þorpið. Kostnaðaráætlun hefur verið gerð og nemur 130 þús. kr. eða því fé, sem till. tekur til. Mótor, sem fyrst um sinn verður að knýja rafstöðina, kostar 50 þús. kr., og aflar hreppurinn þess fjár án ríkisábyrgðar. Hvort sem Fossá verður síðan virkjuð eða hentugra þykir að fá rafmagn frá landsrafveitu, verður inntaugakerfið miðað við að geta tekið við rafmagni frá vatnsvirkjunum, þegar það er hægt, og verður þá ekki tvíverknaður úr þessu. Þegar verk þetta var ákveðið í Ólafsvík, var Alþ. eigi saman komið, og var það ráð tekið að leita umsagnar flokkanna. Hafa a. m. k. 3 þeirra veitt ákveðið vilyrði um stuðning, og að því fengnu hefur Búnaðarbankinn veitt lán, 130 þús. kr. víxil, sem fellur í gjalddaga 23. des. n. k. Fyrir þann tíma þyrfti till. að hafa náð fram að ganga.

Ég treysti því, að ekki verði fyrirstaða að fá þessa samþ., og legg til, að till. verði vísað til síðari umr. og fjvn.