24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í D-deild Alþingistíðinda. (5371)

222. mál, virkjun Andakílsár

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Áður en ég svara hv. þm. Borgf., vil ég fara nokkrum orðum um brtt. þá, sem fyrir liggur á þskj. 837. Ég get strax lýst yfir því, að ég treysti mér ekki til að fylgja henni, og eru fyrir því tvær ástæður. Önnur er sú, að í 2. málsgr. brtt. er lagt til, að ríkisstjórninni heimilist að verja fé úr ríkissjóði til þessara framkvæmda, sem í brtt. greinir í fyrri málsgr., en til þess að sjá fyrir fé til þess, hefur hvorki komið fram till. um lánsheimild né heldur hefur þetta verið tekið til greina við afgreiðslu fjárl. Hin ástæðan er sú, að ég hef alls ekki sannfærzt af ræðu hv. þm. A.-Húnv. í þessu máli. Hann færir fram sem aðalrök fyrir sínu máli og leggur áherzlu á það, að með raforkumálin eigi að fara eins og síma, vegi og brýr í landinu. En þá er hægt að slá því föstu strax, að ef framkvæmd raforkumálanna í landinu ætti að verða á svipaða lund, þá yrðu þær sveitir, sem erfiðast eiga með að fá rafmagn, eins langt á eftir með að fá ljós og annað, sem rafmagnið veitir, eins og þær hafa orðið að bíða eftir því að fá til sín vegi, brýr og síma. Og ég tel þetta svo stórt mál, að það megi alls ekki fara í sama farveg og samgöngumálin hafa verið í gagnvart þeim sveitum landsins, sem á eftir hafa orðið um þær framkvæmdir. Það er nýlega búið að leggja hér fram landsreikninginn fyrir árið 1941, sem hv. þm. A.-Húnv. hefur sjálfur endurskoðað og gert aths. við, og er m. a. veitt hvorki meira né minna en 213 þús. kr. til nokkurra tilgreindra vega og brúa fyrir það ár á fjárl., en greiddar 974 þús. kr. til þeirra. Það þýðir, að 761 þús. kr. hafa verið greiddar það ár til þessara vega- og brúargerða fram yfir áætlun á fjárl., eða nærri fjórfalt á móts við það, sem lagt var fram á fjárl. Og hv. þm. A.-Húnv. gerir þá aths. við

þetta: „Á þessum tuttugu og einum gjaldalið 13. gr. nema umframgreiðslurnar samtals kr. 761064.37. En auk þess, sem hér er talið, er greitt til ýmissa þjóðvega, og til sumra þeirra verulegar upphæðir, sem ekkert er veitt til á fjárl. Nema þessar greiðslur samtals 77 þús. króna.“ Þannig hefur verið farið með síma- og vegamál allan tímann, sem hv. þm. A.-Húnv. hefur setið á þingi. Alltaf hefur verið þann tíma misnotað stórkostlega veitingarvald Alþ. á fé til þessara framkvæmda, og sumpart hefur verið varið til þeirra fé utan við fjárl., og er skemmst að minnast á Krýsuvíkurveginn, en inn á þennan veg vil ég ekki fara með rafmagnsmálin, það er óhugsanleg stefna. Og ég get minnzt á misrétti í símamálum, þar sem á röngum forsendum hefur verið veitt meira til samgöngubóta en önnur héruð hafa fengið, miðað við þörf og aðrar ástæður, sem til greina koma. Af hverju hefur slíkt verið gert á röngum forsendum? Af því að ekki var hægt að koma því fram á réttum forsendum. Má t. d. um þetta nefna Álftaverssímann. (GSv: Hver dæmir um það?) Einnig má nefna símalagningar í Borgarfjarðarsýslu, Húnavatnssýslu og ýmsum öðrum sýslum landsins. — Af þessum ástæðum mun ég ekki geta greitt þessari þáltill. atkv. mitt.

Ég var dálítið undrandi yfir því, þegar hv. þm. A.-Húnv. sagði, að aðalatriðið væri ekki að byrja á raforkuframkvæmdum á þeim stöðum, þar sem aðstaðan til þess er bezt. En hann vill endilega láta þá staði, þar sem aðstaðan er bezt til þess að koma raforkumálum í framkvæmd, bíða þangað til hinir staðirnir eru búnir að fá rafmagn til sín. En það vil ég ekki. Og ég er ekki svo illgjarn, að ég geti ekki unnt stöðunum, sem betri aðstöðuna hafa í þessu tilliti, að fá rafmagn, þótt ekki sé um leið hægt að koma rafmagninu til strjálbýlisins. Ég álít farsælast fyrir framkvæmd raforkumálanna í landinu, að einstaklingar fái einnig að taka þátt í því að hrinda þeim í framkvæmd. Það er sameiginlegt um flest stórmál, að farsælast er, að framkvæmd þeirra verði fyrir framtak einstaklinga, héraða og ríkis, þannig að sameiginlegt átak þessara aðila verði til þess að lyfta þeim. Og þannig verða langminnst fyrir borð bornir hagsmunir þeirra manna, sem bezt þarf að gæta. — Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að fólkið mundi ekki þola þann mismun á þægindum til lengdar, að allir fengju ekki rafmagn til sín. En það sama má þá alveg eins segja um hitaveitur. Málið má ekki takast upp á svo þröngum grundvelli, heldur á þeim grundvelli, sem ég hef lýst sem skoðun minni á málinu.

Þá var hv. þm. A.-Húnv. að tala um æði, sem hefði gripið fólkið í sambandi við þessi rafmagnsmál. En það er ekki undarlegt, þó að fólkið hafi mikinn áhuga fyrir þessum málum þar, sem hægt er að koma þeim í framkvæmd. Og hv. þm. skyldu sjá, hvaða æði mundi grípa fólk um allar sveitir, þegar búið væri að ákveða með l., að ríkið skyldi sjá fólkinu fyrir rafmagni í hverri sveit og hverju koti á landinu. Því að raforkumálin eru ein hin mestu áhugamál landsmanna allra nú. Og þess vegna er það líka, að allir, sem til þess hafa getu, eiga að taka saman höndum um að koma rafmagninu heim til sín, hvort sem þeir búa í sveit eða við sjó.

En langmestu erfiðleikarnir í raforkumálunum eru þeir, hve erfitt er að senda rafmagnið. Það er vitanlegt, að mörg sveitabýli vildu fá rafmagn frá Sogsvirkjuninni á sínum tíma. En það hefur ekki verið framkvæmt vegna þess, að það kostar svo mikið að breyta spennunni, þegar rafmagn er tekið af háspennuleiðslu. Þess vegna er það ákaflega víða í sveitum, að það kostar minna að virkja sérstaklega eða að koma rafmagnsstöð upp á annan hátt fyrir hvern bæ, og það þótt aðstaðan sé ekki neitt sérstaklega góð til þess, heldur en að leiða rafmagn heim á bæinn af háspennulínu, því að til þess þarf svo dýra spennustöð og leiðslu. Í Skaftafellssýslu hafa t. d. verið reistar margar rafstöðvar, sem hver er aðeins fyrir einn bæ.

Vil ég þá snúa mér að því, sem hv. þm. Borgf. sagði. Ég vil benda honum á, að ég las meira en nál. Ég las líka tvær þáltill., sem hafa verið samþ. hér á hæstv. Alþ. í sambandi við þetta mál. Og ég held, að ekki sé hægt að segja annað en að einmitt sé farið hér inn á nýja braut. Það var samþ. á Alþ. 3. marz 1944 þál. út af þessu ákveðna máli, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess, með fjárframlagi úr ríkissjóði eða lántöku og ábyrgð fyrir hönd ríkissjóðs, að hafin verði smíði á vélum og nauðsynlegu efni í fyrirhugaða virkjun Andakílsár.

Jafnframt fellur niður heimild sú, er ríkisstjórninni var veitt með þingsályktun um sama efni frá 12. apríl 1943.“

Hér er í raun og veru alveg ákveðið með þessari heimild, að ríkissjóður skuli standa að öllu leyti undir þessum framkvæmdum, sem hér er til tekið að gera. En með brtt. á þskj. 830 er því alveg slegið föstu, að 15% af þeirri áhættu, sem fylgir rafvirkjun á þessum stað, sem hér er nú um að ræða, skuli hvíla á viðkomandi héraði, ef þessi brtt. verður samþykkt. Og ég tel þetta ákaflega mikla stefnubreytingu. Ég mun því fylgja þessari brtt., en mun bera fram skrifl. brtt. til viðbótar síðar.

En ég vil benda á það, að þegar búið er að samþ. ábyrgð þessa fyrir Andakílsárvirkjunina og einnig fyrir Siglufjörð og fleiri staði og farið er að reka þessar raforkuveitur, e. t. v. með hagnaði, þá hygg ég, að erfitt verði fyrir það opinbera að koma svo aftur, og taka þessar stöðvar eða virkjanir af þessum héruðum. Það kann vel að vera, að mögulegt sé að gera það, en erfitt hygg ég að það muni vera. Það kann vel að vera, að verjanlegt væri að gera það t. d. gagnvart Andakílsfossavirkjuninni, ef rafmagn væri þar fyrir hendi, sem hægt væri að dreifa út um héraðið. Og ef Dynjandi yrði virkjaður fyrir Vesturland og það yrði gróðafyrirtæki, sem ég veit ekki, hvort verða mundi, ef til kæmi, þá veit ég ekki, nema það kynni að vera hæpið, að ríkið gæti sagt: Við viljum taka þetta orkuver og ráða ykkar rafmagnsverði, þó að þið standið að fullu við skuldbindingar ykkar vegna virkjunarinnar. — Þess vegna er hér farið inn á nýja braut með þessari brtt., sem ég út af fyrir sig er ekkert að harma. Ég tel frekar hægt að koma þessum rafmagnsmálum í framkvæmd, ef þeir menn, sem áhuga hafa fyrir þessum málum, fá að hjálpa ríkissjóði til þess að koma þeim í framkvæmd.

Það er því sjálfsagt, að ríkið hafi sterkara eftirlit með þessu en verið hefur hingað til. Þess vegna leyfi ég mér að bera fram brtt., sem hljóðar þannig: „Ábyrgð ríkissjóðs er bundin því skilyrði, að yfirumsjón með verkinu og reikningshald sé falið manni, er ráðuneytið samþykkir“. Þetta er sagt í öllum hafnarl., og ég tel óverjandi, að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir 85% af kostnaðarverði, nema slík ákvæði fylgi. Þá ber ríkið ábyrgð á því, sem gert er, og getur fylgzt með því, sem fer miður en skyldi, sbr. það, sem hefur verið gert á Siglufirði.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt. og vænti, að hún verði samþykkt.