14.11.1944
Efri deild: 66. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

70. mál, heilsuverndarstöðvar

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Frv. þetta felur í sér nokkuð aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, en á fullan rétt á sér, þar sem það miðar að því að koma í veg fyrir sjúkdóma. Heilbr.- og félmn. gerði ráð fyrir, að frv. þessu yrði breytt að nokkuð verulegu leyti, hvað snertir 4. gr. þess. Eins og þegar hefur verið getið af frsm. n., var upphaflega gert ráð fyrir, að styrkurinn næmi allt að þriðjungi kostnaðar að mati ráðh., og einnig gert ráð fyrir, að stj. hefði ekki mikið að segja um rekstur heilsuverndarstöðvanna. Ég get falizt á það, að hreinlega sé frá því gengið, að ríkissjóður taki að sér þriðjung rekstrarkostnaðar heilsuverndarstöðvanna, en annað mál er það, að varla er á nokkurn hátt gengið á rétt sveitarfélaga og sjúkrasamlaga eða til hindrunar heilsuverndarstöðvunum, þótt ákvæði sé um það í l., að ráðh. úrskurði reikninga heilsuverndarstöðva. Það er að vísu sagt í frv., að ætlazt sé til, að gefin verði út reglugerð um starfsemi heilsuverndarstöðvanna, og verði ágreiningur milli bæjarstjórnar og stjórnar sjúkrasamlags, skuli ráðh. skera úr ágreiningnum, en hins vegar virðist þetta ekki ná til reikninga heilsuverndarstöðvanna að því leyti, sem ríkissjóð snertir. Ég held, að með dálítilli breytingu á þessari gr. sé hægt að ná þessu án þess að breyta nokkuð tilgangi landlæknis, og vildi ég leyfa mér að leggja fram skriflega brtt. við brtt. n. á þskj. 481, sem hljóðar þannig:

„Ráðherra úrskurðar reikninga heilsuverndarstöðva að fengnu áliti berklayfirlæknis og tryggingaryfirlæknis.“

Hins vegar fellst ég á, að rétt sé að ákveða, að framlag ríkissjóðs sé þriðjungur rekstrarkostnaðar heilsuverndarstöðvanna.