18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (5516)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Þóroddur Guðmundsson:

Aðeins nokkur orð út af þessu væntanlega Dagsbrúnarverkfalli.

Hv. þm. S.-Þ. er mjög hneykslaður yfir því, að það hafi ekki verið skipaður maður frá Framsfl. af sáttasemjara til þess að gera sáttaumleitanir í vinnudeilu þeirri. sem nú er hafin af Dagsbrún. Ég hafði ekki litið svo á, að þarna væru skipaðir menn af pólitískum flokkum, heldur að skipaðir væru menn, sem líklegir væru til þess að geta aðstoðað til þess að leysa þessa deilu. Hins vegar virðist hv. þm. S.-Þ. líta svo á, að hér sé verið fyrst og fremst að skipa einn fulltrúa í þessa sáttanefnd frá hverjum pólitísku flokkanna, og þá sé Framsfl. settur hjá við skipun í þessa nefnd. Ég veit ekki fyrir víst, hvað hefur vakað fyrir hæstv. ráðh., þegar þessi ákvörðun var tekin um n. En ég vil leyfa mér að benda á, að ef átt hefði að skipa einn mann frá hverjum pólitísku flokkanna í þessa n., þá hefði verið laukrétt að skipa ekki mann í n. frá Framsfl., því að hann er líklegastur af öllum flokkum í landinu til þess að reyna að hafa pólitíska hagsmuni af því, að ekkert samkomulag náist um þessa deilu. Hann hefur enga stjórnmálastefnu, en er milliflokkur, sem leitast við að hafa pólitíska hagsmuni af því að fjarlægja flokkana til hægri og vinstri. Hans pólitísku hagsmunir byggjast á því, að deilur séu á milli flokkanna til vinstri og hægri og að þær deilur geti risið sem hæst. Og með tilliti til þessa væri óhyggilegt að skipa fulltrúa frá Framsfl. í þessa sáttanefnd.

Þá var það, sem hv. þm. S.-Þ. var að tala um, að ef ætti að leyfa verkalýðsfélaginu Dagsbrún að skipa svona lögreglulið, þá væri það nýmæli, og sagði, að þjóðfélagið gæti ekki haldizt við, ef leyft væri annað eins og þetta. Ég get ekki séð, að hæstv. Alþ. geti gert neinar ráðstafanir í þessu efni. Og það er ekki hægt að benda á með rökum, að hér sé um hættulegt athæfi að ræða af hálfu Dagsbrúnar. Eftir því, sem Dagsbrún segir, þá er skipað þarna lið til þess að aðstoða lögregluna við að halda uppi lögum og rétti, meðan á verkfalli stendur, ef til verkfalls kemur. Og að hér sé nokkur sú hætta á ferðum, að ástæða sé til þess að taka málið upp á Alþ., get ég ekki með bezta vilja, séð. Það væri þá fyrst, ef það kæmi upp, að eitthvað annað væri á ferð en látið er í veðri vaka. En eins og stendur, virðist mér ómögulegt að líta svo á, að nein hætta sé hér á ferðum. Það hefur verið regla um áratugi, að þegar verkfall hefur verið í aðsigi hjá verkalýðsfélögum, þá hafa þau skipað sérstaka menn til þess að undirbúa reglur, sem fara skuli eftir í verkföllunum, og til þess að sjá um, að settum reglum sé framfylgt. Nú er eftir lögum vinnuveitendum óheimilt að láta einstaka menn úr félögum, sem þeir deila við og hafa gert verkfall, vinna. En hins vegar er vitanlegt, að atvinnurekendur eru mjög ólöghlýðnir menn í verkföllum. Og þó að í þeim tilfellum verklýðsfélögin séu sökuð um að hirða ekkert um lög og rétt, þá sýnir saga verkfallanna á Íslandi það, að atvinnurekendur hafi fyrst og fremst brotið lög í þessum efnum. Ég þori að leggja það undir dóm óhlutdrægra manna. að það eru atvinnurekendurnir, sem sífellt hafa brotið lög og reglur í slíkum tilfellum, en verklýðsfélögin hafa mjög sjaldan gert það. Er skemmst að minnast þeirra verkfalla, sem harðastar deilur hafa orðið í, sem voru Novuverkfallið á Akureyri og Borðeyrardeilan, sem slagsmál urðu út af á báðum stöðum. Og bæði á Akureyri og á Siglufirði var það Framsfl., sem stóð fyrir því, að koma af stað slagsmálum þessum, þar sem tilviljun var, að ekki hlauzt verra af en raun bar vitni.

Ég vil endurtaka það, að ég álít, að hér sé engin sérstök hætta á ferðum, þannig að ástæða væri fyrir hæstv. Alþ. að gera neinar sérstakar samþykktir eða aðgerðir í þessu verkfallsmáli, ef verkfall verður hjá Dagsbrún nú. Sú eina hætta, sem ég álít, að gæti orðið á ferðum í sambandi við þetta verkfall, ef til þess kemur, er sú, að viss hópur manna reyndi að spekúlera í að nota verkfallið sér til framdráttar.

Atvinnurekendur gengu ekki að því gruflandi. að það var aðeins tímaspursmál, hvenær Dagsbrún krefðist þess að fá a.m.k. sama kaup og greitt er annars staðar. Þetta kemur því ekki flatt upp á atvinnurekendur. Og ef þeir leggja nú út í harðar deilur, þá er það ekki vegna þessa kaupgjalds, heldur er það af öðrum ástæðum. sem ég sé ekki ástæðu til að nefna hér nú.