18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (5519)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta hæstv. forseta, og ég ætla ekki að skipta mér af þessum umr. Hins vegar þykir mér ekki hlýða að láta með öllu ósvarað þeirri fullyrðingu, að í kaupdeilum hafi atvinnurekendur alla jafnan beitt ofbeldi og ólögum, en alls ekki verkamenn eða þeirra forkólfar. Þessu vil ég eindregið mótmæla. En svo langt sem mín reynsla nær til þess, þá hafa það alls ekki verið verkamennirnir sjálfir, heldur þeirra forkólfar, sem hafa staðið fyrir ofbeldinu. Það hefur verið skipulagt af þeim og þeir notað til þess verkalýðinn. Og í samræmi við það hafa þessir sömu forkólfar ætíð beitt sér móti eflingu lögreglu, sem gæti verið til styrktar ríkisvaldinu. Ef hv. þm. ætlar að færa sönnur á sitt mál, þá verður hann að vitna í sanna viðburði, sem sanna þetta, en það hygg ég, að honum veitist örðugt, því að sannleikurinn er sá, að þeir, sem hafa staðið fyrir ofbeldi í þessum málum, eru þeir menn, sem lifa á að æsa verkalýðinn upp.