25.10.1944
Sameinað þing: 62. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í D-deild Alþingistíðinda. (5961)

176. mál, vantraust á núverandi ríkisstjórn

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Það eru ekki liðnir nema fáir dagar síðan útvarpið tilkynnti, að von væri á þriggja flokka ríkisstjórn, og voru þau ummæli höfð eftir hæstv. núv. forsrh. Þegar ég heyrði þessa tilkynningu, komu mér í hug orð úr gamalli og ef til vill hálfgleymdri mannkynssögu: „Þegar Krösus fer yfir Halýsfljót, mun mikið ríki líða undir lok.“

Ég veit ekki, hvort þetta verður að raunveruleika á okkar tíma. Reynslan verður að skera úr því. En þessi ummæli gætu átt við yfirvofandi hrun hins íslenzka þingræðis eða hrun hins nýstofnaða lýðveldis. Hér á landi er hreyfing, sem vinnur markvisst að því, að hið íslenzka ríki líði undir lok. En það er mikið ríki, frá okkar Íslendinga sjónarmiði.

Í öðru lagi gæti spádómurinn átt við hrun annars mikils ríkis, flokks hæstv. forsrh.

Það hefur verið venja á undanfarandi þingum að prófa heldur skjótlega, hversu fjölmennt lið fylgdi nýrri ríkisstjórn. Þess er líklega ekki síður þörf nú en áður. Nú er ný stjórn tekin við forráðum í landinu, og standa að henni heldur sundurleitir flokkar, eins og hæstv. forsætisráðherra, Ólafur Thors, komst að orði í prógramræðu sinni.

Það hefði verið æskilegt, að bæði þingmenn úr stuðningsflokkum stjórnarinnar, sem fylgja henni ekki, og einnig þeir, sem eru í andófinu, bæru fram vantraustsyfirlýsingu, en létu sér ekki nægja greinargerð stjórnarinnar. En þessir aðilar hafa ekki hreyft vantrausti, þó að til þess væri nægur tími. Hins vegar hef ég beitt mér öðrum fremur gegn samstarfi borgaraflokkanna við lið Rússa á Íslandi, og má því segja, að mér bæri nokkur skylda að prófa, hve vel byltingarflokkurinn hefur komið ár sinni fyrir borð.

Eðlilegt hefði verið, að þeir sjálfstæðisþingmenn, fimm að tölu, sem ekki styðja núv. ríkisstj., flyttu vantrauststillögu. En það hafa þeir ekki gert, og að svo komnu virðast þeir ekki vilja marka aðstöðu sína mjög skýrt.

Framsfl. hefur unnið mikið að því undanfarin tvö ár að komast í stjórn með kommúnistum, Alþýðuflokksmönnum og sjálfstæðismönnum, eftir því hvernig kaupin gerðust á eyrinni í hvert sinn. Það er því ekki undarlegt, þótt þeim framsóknarmönnum, sem að þessum samningaumleitunum hafa staðið, finnist þeir talsvert bundnir við fortíð sína.

En þessi ástæða nær ekki til mín. Ég hef ekki ráðið til þess, að Framsfl. tæki upp samstarf við kommúnista, heldur hef ég ráðið til hins gagnstæða. Þetta er glögg og skýr afstaða. Þess vegna ber mér skylda til að hefjast handa, úr því að aðrir draga sig í hlé. Þess vegna flyt ég þessa vantrauststillögu. Hvernig sem atkvæði falla, mun það koma í ljós, hvaða fylgi stjórnin hefur.

Ég vil þá fyrst koma að þeirri röksemd, sem sannar ótvírætt, að þessi stjórn á ekki og má ekki verða langlíf í landinu. Hún er skipuð ráðherrum, sem eru á móti ríkjandi þjóðskipulagi. Kommúnistaflokkurinn er á móti þingstjórn og lýðræði og hefur í því efni allt aðra afstöðu til málanna en aðrir flokkar hér. Hann fylgir lífsstefnu sovéthreyfingarinnar og starfar í samræmi við þá stefnu. Menn í öðrum flokkum líta á sig sem Íslendinga og taka ekki við skipunum frá erlendum ríkjum. En kommúnistar hafa sýnt og sannað, að þeir lúta erlendum yfirráðum. Þeir tóku upp skarpa andstöðu gegn Þýzkalandi fyrir stríðið. Ég var á sama máli og þeir í því að óska ekki eftir nasistiskri stjórn hér á landi og nasistisku fyrirkomulagi. En mér var ljóst, að yfirlýstur fjandskapur Íslendinga gagnvart Þýzkalandi hafði enga þýðingu og var óviðeigandi. Hér var um stórþjóð, sjálfstæða þjóð og vinsamlega frændþjóð að ræða, sem oft hafði sýnt Íslendingum mikla góðvild. Það var að öllu leyti óviðeigandi fyrir Íslendinga að gagnrýna stjórnarfyrirkomulag Þjóðverja, alveg eins og við neitum rétti annarra þjóða til að blanda sér í íslenzk málefni. En í þessu efni störfuðu kommúnistar eins og þeir lytu stjórn Rússlands. Þegar heimsstyrjöldin skellur á, gerði Hitler griðasamning við Rússa og telur sig hafa með því fengið trausta aðstöðu til þess að vinna styrjöldina.

Meðan þessu fer fram, breytist viðhorf íslenzka kommúnistaflokksins. Nú ræðst þessi flokkur gegn Englandi, sem verið hefur verndari íslenzku þjóðarinnar á erfiðum tímum og góður nábúi. Öldum saman hafa jafnan verið góð skipti milli þessara þjóða. En þrátt fyrir þessa löngu reynslu sýndu íslenzkir kommúnistar Englandi hinn mesta ruddaskap í blöðum sínum. Svo fór, að Englendingar töldu sig þurfa, vegna innrásar Þjóðverja í Danmörk og Noreg, að hernema Ísland og hafa hér bækistöð. Voru þeir síðan hér, landi og þjóð til verndar, unz Bandaríkin tóku vernd landsins í sínar hendur. Nú líður nokkur tími, en þegar Þjóðverjar sáu ástæðu til að fara í stríð við Rússa, skipti í tvö horn hjá íslenzka kommúnistaflokknum. Þá tók hann upp harðvítuga baráttu gegn Þýzkalandi, en fór að sýna vinsemd í garð Englendinga. Allt ráð þessa flokks var í höndum Rússa.

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvernig hann skýri það að hafa gert pólitískt bandalag við flokk, sem þannig hagar sér og fer eftir skipunum frá öðrum löndum í sínum málaflutningi, flokk, sem lítur á málefnin frá erlendum sjónarmiðum. Það er ekki góð reynsla, sem borgaralegir flokkar í Englandi og Skandinavíu hafa af kommúnistum, enda haga þeir sambúðinni eftir því. Í þessum löndum segja borgararnir við kommúnista: Þið eruð sjálfsagt ágætt fólk, en hafið aðrar skoðanir en við. Þið stefnið að öðrum markmiðum, af því að þið ætlið að kollvarpa þjóðskipulagi beztu landa. Þess vegna viljum við ekkert hafa saman við ykkur að sælda.

Frá þessu er aðeins ein undantekning og hún óbjörguleg. Það er í Frakklandi, sem einu sinni var voldugt stórveldi. Þótt þar sé um að ræða gáfaða þjóð, hefur henni ekki tekizt að njóta þingræðis. Þar standa ríkisstjórnirnar stundum aðeins hálfan mánuð. Þar er því ekki þingræðisstjórn í vestrænum skilningi. Þar gerði Alþfl.maður bandalag við frönsku kommúnistana nokkru fyrir síðasta stríð, en það gaf hina hörmulegustu raun, þeir héldu áfram stefnu sinni með uppþotum og lagabreytingum, sem voru stórlega skaðlegar fyrir öryggi Frakklands, og það er enginn vafi á því, að hrun Frakklands árið 1940 var bein afleiðing af þessari samstjórn, sem líka endaði mjög sorglega fyrir þann Alþfl.mann, sem fyrir samvinnunni hafði staðið. Ef maður tekur Breta, sem lengst hafa búið við þingræði, þá er afstaða þeirra til kommúnista þannig, að þeir unna þeim að vísu frelsis og kosningarréttar, en verkalýðsfélögin vilja ekkert með þá hafa, og brezka herstjórnin hefur bannað fréttariturum kommúnistablaðanna að vera á vígstöðvunum vegna þeirrar sérstöðu, sem kommúnistar hafa utan við brezka þjóðfélagið. Þetta er athugandi fyrir okkur, enda í sjálfu sér fullkomlega eðlilegt. Balfour lávarður sagði vel og viturlega um þetta efni: „Þingræðisstjórn getur ekki staðizt, nema allir þingflokkarnir byggi á sama grundvelli.“ Það hefur nú í tvö ár ekki tekizt að mynda stjórn hér, þótt þjóðin hafi óskað þess, en það stafar af því, að hér er flokkur, sem lítur allt öðruvísi á þjóðskipulagið en aðrir flokkar og hefur hindrað, að það samstarf tækist, sem eðlilegt var milli lýðræðisflokkanna. En það hefur sömu áhrif og ef einn maður í knattspyrnu færi eftir öðrum reglum en hinir leikendurnir. Afleiðingin yrði sú, að leikurinn færi út um þúfur. Enda þótt nýja stjórnin hafi ekki setið lengi við völd, er þó eitt, sem vænta mátti að hún mundi gera fyrr en síðar, og það var að leysa verkföllin, sem nú standa. Hafi forsrh. unnið að því að stilla til friðar, er árangurinn ekki sýnilegur, verkföllin halda áfram eins og í Frakklandi eftir að Léon Blum tók við. Frá sjónarmiði kommúnista er eðlilegt, að verkföll haldi áfram. Það er stefna þeirra, sem veldur því, að ekki er von til þess, að þessi borgaralega byltingarstjórn geti orðið happasæl landi og þjóð. Ég vil líka beina öðru atriði til hæstv. forsrh. Stjórnarmyndunin, sem hann hefur komið í kring, er bændastéttinni mikil vonbrigði. Ég kemst kannske ekki hjá því að víkja að því nokkrum orðum, að árið 1943 voru samin dýrtíðarlög, þar sem svo er fyrir mælt, að ef tiltekin nefnd yrði sammála fyrir 15. ágúst það ár, skyldi verð á landbúnaðarvörum ákveðast eftir fyrirmælum hennar í hlutfalli við kaup verkamanna og hækka eða lækka með því. Þessi nefnd varð sammála, og sáttmálinn gekk í gildi. Blöðin héldu því fram, að allar deilur um afurðaverðið væru úr sögunni, og var ekki hægt að skilja það öðruvísi en að bændur fengju vörur sínar greiddar eftir því, sem kaup hækkaði eða lækkaði. Morgunblaðið hélt því fram um leið og það dásamaði fulltrúana í nefndinni, að ríkið yrði auðvitað að borga uppbætur á útflutningsvörurnar. Tíminn var ekki síður ákveðinn, en það vildi svo til, að Vísir dró í efa, að þetta væri bindandi fyrir ríkissjóð, og tók Tíminn þá skýrt fram, að um vantúlkun á lögunum væri að ræða hjá Vísi og fór hörðum orðum um það blað. Ég læt þetta nægja að þessu sinni, en vil þó bæta því við, að bændastéttin gat ekki annað en gert ráð fyrir, að þetta væri fastur grundvöllur og öll hin fögru orð um frið og sættir væru bindandi gagnvart sveitafólkinu. Ég fer ekki út í það, sem gerzt hefur síðan, fyrr en í haust, að Mbl. segir í forustugrein, þar sem mér voru sendar nokkrar hnútur, að ég hafi hlotið að vita um, að leiðtogar Sjálfstfl. og Framsfl. hafi látið kalla búnaðarþing saman og beðið fulltrúa þess að mæla með því, að fallið yrði frá hækkun á landbúnaðarafurðum. Nam sú fjárhæð 8–10 millj. kr. Búnaðarþing hafði aðeins þetta eina mál til meðferðar, hvort samþ. skyldi að falla frá hækkun samkv. 6 manna samkomulaginu eða ekki. Þess má þá fyrst geta, að kaup verkamanna í Rvík. hefur hækkað um 20%, og einn bændafulltrúinn á Alþ., hv. þm. A.-Húnv. (JPálm), hefur í blaðagrein nú fyrir fáum dögum haldið því fram, að kaupið í sveitum hafi hækkað um 35–40% á s. l. ári. Því verður ekki móti mælt, að kaup hefur hækkað stórlega bændum í óhag, og þess vegna ekki um að villast, að þeim ber að fá hærra vöruverð, enda var þeim talin trú um það af blöðum flokkanna, að þetta væri öruggt eins og gulltrygging. Nú gerist það, að fulltrúarnir í búnaðarþingi mæla með því, að bændastéttin gefi eftir þær 8–10 millj., er þeim ber samkv. 6 manna samkomulaginu að fá í hækkuðu afurðaverði. En að því er ýmsir fulltrúar á búnaðarþingi hafa sagt hafði það áhrif á gerðir þingsins, að fullyrt var, að komið mundi á borgarastjórn Framsfl.manna og Sjálfstfl.manna og með því móti hafin lækkunarherferð með aðstoð bænda, því að bændur eru eina stéttin, sem vill lækka verðlag og kaupgjald. Þess vegna þótti bændafulltrúunum skiljanlegt, að hér væri hafin allveruleg tilraun til þess að lækka dýrtíðina, og allir nema tveir samþ. þessa umleitan flokksforkólfa Sjálfstfl. og Framsfl. En rétt þegar þetta er um garð gengið, kemur annað hljóð í strokkinn. Þá kemur í ljós, að það er aðeins einn veikur þráður milli þessara tveggja flokka, og hann kemur fram í sameiginlegri andúð gegn fundahaldi, sem ég stofnaði til í Árnessýslu. Bændur á Suðurlandi hafa aðra skoðun á þessum málum en fram kom hjá búnaðarþingi. Stjórn Búnaðarfél. Suðurlands hafði kallað saman fund á Selfossi, sem um 40 fulltrúar sóttu, og á þessum fundi mættu 4 þm., sem héldu fram því, sem meiri hluti búnaðarþings hafði samþ., og þeir gerðu það í þeirri trú, að þeir væru að mæla með samstjórn borgaraflokkanna, en tveir þm. töluðu móti þeirri samþykkt búnaðarþings að gefa eftir lögmætar hækkanir, og voru engir fulltrúanna sammála gerðum búnaðarþings. Þegar þetta var véfengt af Tímanum og Morgunblaðinu, boðaði ég til fundar á sama stað fyrir bændur á Suðurlandi, og málsvarar borgaraflokkanna skyldu hafa jafnan ræðutíma á við okkur hina. En án þess að fara út í það hér, hvernig á því stóð, mun fundartilkynningin hafa brenglazt í útvarpinu, en annar fundur boðaður 2 dögum fyrr en minn fundur, og stóðu að honum Sjálfstfl. og Framsfl. Þessi fundarhöld sýna, að á þessu stigi málsins voru þessir flokkar sameinaðir á grundvelli búnaðarþings og að fulltrúarnir á búnaðarþingi hafi skilið það svo, að um byrjun á samstjórn þessara flokka væri að ræða. Á fundi mínum og svo á fundi í Rangárvallasýslu s. l. sunnudag töldu bændur, að ekki hefði verið rétt að fallast á þessa uppgjöf. (IngJ: Þetta er misskilningur.) Hv. þm. veit, að sama sem allir voru á einu máli um það. (IngJ: Það var engin till. borin upp um þetta.) Nei, en það var vegna þess, að þótt vinir hv. þm. og kjósendur væru honum ósammála um þetta atriði, voru þeir sammála honum í afstöðu hans gegn núverandi ríkisstjórn. Það er einnig bezt að taka það fram, að á þessum fundum féllu orð þannig, t. d. hjá hv. 2. þm. S.-M. (EystJ), að fullkomið bandalag væri milli borgaraflokkanna og aðeins eftir að útnefna sameiginlega ráðherra. En þetta varð nú ekki, og stuttu eftir öll þessi vináttumál kemur í ljós, að hæstv. núv. forsrh. hefur myndað allt aðra stjórn og útilokað þann flokk, sem honum hafði áður verið falið að mynda stjórn með. Sérstaklega kom bændum og búnaðarþingsfulltrúum þetta á óvart. Fyrst og fremst hefur nú verið samið um nokkur verkföll og alls staðar hækkað kaupið, en annars staðar halda verkföllin áfram. Ef ríkisstjórnin ætlar að knýja fram launalög, sem hækka útgjöldin til launamanna, gengur hún í öfuga átt við stefnu bænda. Hér hafa orðið ótrúleg straumhvörf, kannske hin skyndilegustu í sögu Alþingis. Nú mælist ég til þess, að hæstv. forsrh. af hinni alkunnu mælsku sinni geri sitt til, að okkur verði ljóst, hvað valdið hefur því, að hann hvarf svo skyndilega af vegi bænda og borgara í þennan undarlega félagsskap, sem hann nú er kominn í. Það er þess vegna eins og þegar lýst var í kirkjum og ætlazt var til, að menn á réttum tíma lýstu meinbugum, er þeir vissu á ráðahagnum, að ég tel allmikla meinbugi vera á þessum ráðahag. Eina vitneskjan, sem þjóðin hefur um stefnu nýju stjórnarinnar, felst í boðskap forsrh., sem útvarpað var tvisvar, en ekki hefur verið hægt að prenta. Tek ég þá nokkur atriði úr þessum boðskap, en stikla á stóru, en um margt stórmálið að ræða. Það er þá fyrst, að þessi nýja stjórn virðist vera bundin við það, að kaupgjald haldist óbreytt eða lítið breytt í 1½ til 2 ár. Þetta er einstakur sáttmáli, því að eflaust fer kaupgjald eftir því, hvað framleiðslan getur borið, en það fer eftir því verði, sem á vörunum verður, þegar stríðið er búið. Hagfræðingar hafa reiknað út, að raunverulegur munur á kaupgjaldi við algenga vinnu á Íslandi, Englandi og Svíþjóð sé sá, að þegar við fáum 50 kr., fær Englendingurinn 15 kr., en Svíinn 22 kr. Þessar tölur eru eins nálægt sanni og hægt er að komast. Nú er engum blöðum um það að fletta, að eftir að aðrar þjóðir fara að stunda fiskveiðar, breytist aðstaðan, og ef þá á að halda sama kaupi og nú er, verður að eyða af þjóðarauðnum til þess að greiða mismuninn á 50, 15 og 22 kr. kaupi, og er ekki smátt atriði, hvernig ríkisstjórninni, ef hún lifir svo lengi, lánast að leysa þennan vanda, því að ekki er að sjá annað en þjóðarauðurinn eyðist á stuttum tíma, ef ekki verður að gert. Þrátt fyrir þetta hefur ríkisstjórnin lofað að koma í gegn í Alþ. launalögum, sem maður, er til þekkir, hefur sagt, að geri ráð fyrir, að ísl. launamenn búi við allt að þriðjungi hærri tekjur en stéttabræður þeirra í Danmörku. Laun hafa hækkað stórkostlega hjá okkur, t. d. laun presta, sem voru reyndar ekki há, hækkuðu gífurlega sumarið 1942. Þetta er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Það er ekki ástæða til þess, að embættismenn ríkis og bæja hefðu lægra kaup en aðrir, meðan þetta fé barst inn í landið. En það mun vera fordæmalaust hjá öðrum þjóðum að gera launalög til frambúðar mitt í óstjórnlegri verðbólgu. Verð ég að telja það mesta óráð, að ríkisstjórnin hugsi sér að festa þessi útgjöld þannig. Enda mun það mála sannast, að þrátt fyrir það, þótt skattar séu allháir, svo að mönnum finnst nóg um, og skattarnir séu of háir, þá er búið einmitt á þennan hátt að binda bæði með kaupsamningum og launasamningum — þó ekki séu það lög nema sumt af því — ríkissjóð þannig, að það vantar 6½ millj. kr. til þess að hægt sé að halda við næsta sumar svipuðum verklegum framkvæmdum og gert var á kreppuárunum 1934–1940. Og þetta er af því, að það er búið af stjórn og Alþ. að binda ríkissjóð við launagreiðslur, sem eru þannig, að það er lítið eftir til verklegra framkvæmda. — Og hæstv. ráðh. veit, að ekki má svo búið standa. Og nú mun hann og hans flokksbræður ætla að leggja hugann í bleyti í hálfan mánuð til þess að finna nýja skatta til þess að bæta úr því, að ríkissjóður er í raun og veru hættur að vera annað en launagjafi, en verklegar framkvæmdir bíða. En vitanlega ætti helzt að koma launamálum landsins í það horf, sem Bjarni frá Vogi og Skúli Guðmundsson alþm. hafa, hvor á sínum tíma, lagt til, að gert yrði, að launin í landinu séu látin vera háð verðlagsskrá og fara eftir því, hvernig afkoma ríkisbúsins er á hverjum tíma. En verði hins vegar haldið áfram á þeirri braut, sem nú hefur verið farin í launamálum, mun það að öllum líkindum verða til þess að fella krónuna og fella í gildi það sparifé landsmanna, sem þeir hafa dregið saman, oft með súrum sveita, á undanförnum árum.

Í ofanálag á þetta eigum við svo að fá stórkostlegar skattabyrðar á útmánuðunum í vetur, þ. e. almennar tryggingar. Og verð ég að víkja fáeinum orðum að því, að þetta er framkvæmd, sem er næstum því að segja enn óglæsilegri og óæskilegri en það, sem ég nú hef skýrt frá. Okkur er sagt, bæði í ræðu hæstv. forsrh. á dögunum og af öðrum í ríkisstjórninni, að það hafi starfað hér einhverjir menn, og sé einn þeirra hagfræðingur. Þessi ungi hagfræðingur á að hafa tekið tryggingakerfi, sem rætt var um í Englandi til þess að bregða upp fyrir þjóðinni öðru en myndum af blóði, tárum og svita, sem sú þjóð á við að búa. Er þetta mál þar á umræðustigi, og ekkert af því hefur verið lögleitt þar í landi. — En dugnaðurinn á Íslandi er svo mikill, að það á að lögfesta hér án nokkurs undirbúnings tryggingaskipulag, sem aðrir hafa talað um, en enginn reynt að framkvæma. Mér er ómögulegt að finna dæmi, sem hliðstætt er að ógætni þessu, sem hér er um að ræða. Því er lofað af þremur þingflokkum — sennilega án þess að nokkur maður í flokkunum hafi kynnt sér málið til nokkurrar hlítar — að gera þetta kerfi að lögum og það innan nokkurra mánaða, án þess að þeir, sem þessu lofa, viti nokkuð, hversu há útgjöld þessu fylgja, og án þess að þingið eða menn utan þings hafi minnstu hugmynd um það. Þetta er svo gerræðislegt, að það mundu flestir telja óhugsandi, að nokkur þingræðisstjórn gerði þetta. Englendingar settu fyrst fræðimann til þess að rannsaka skipulagið. Síðan leggja þeir það fram fyrir kjósendur. Svo líða mörg missiri, og það er rætt um málið í Parlamentinu og í blöðum, og þjóðin veit, hverju fram fer. En við okkur er sagt: Það á að taka þetta skipulag í þýðingu eftir einhvern ógætnasta launakröfumann í landinu. — Og þetta á að gerast án þess, að rætt sé um það í blöðum eða á mannfundum og án þess að borgararnir í landinu viti nokkurn skapaðan hlut um eðli málsins. Þær tryggingar, sem við höfum og ég greiddi atkv. með á sínum tíma, — en var talsvert óánægður með, ekki af því, að þar væri ekki stefnt í rétta átt, heldur af því að það mál var borið fram af flokki, sem nú stendur að ríkisstjórninni, án þess að rætt hefði verið við þjóðina um málið áður en það var borið fram, — þessar tryggingar eru þannig, að það eru mjög margir gallar á löggjöfinni, af því að hún kom of fljótt. En þó eru miklu meiri ágallar á þessu umtalaða skipulagi, sem nú á að lögleiða.

Þá kem ég að því, sem er miklu stórkostlegra en tryggingarnar, sem eru þjóðnýtingarplön hæstv. ríkisstjórnar. Eftir þeim molum, sem hægt er að ráða af stefnuskrárræðu hæstv. forsrh., þá stendur til nú á einu ári eða rúmu ári, að á þeim tíma á að vera búið að koma á þjóðnýtingu, sem nær svo að segja til allrar framleiðsluatvinnu á Íslandi nema sveitabúskaparins. Það er í stuttu máli þetta: Atvinnulífið og framleiðslan í bæjunum á samkv. þessu í raun og veru þá að vera orðin þjóðnýtt, en einstaklingsframtakinu að vera spilað út úr þessu þjóðfélagi. — Nú verð ég að skjóta því til þeirra hæstv. ráðh. úr Alþfl., sem sæti eiga í ríkisstjórninni nýmynduðu, að það væri æskilegast, að þeir tækju sér til fyrirmyndar í þessu efni flokksbræður sína í Svíþjóð. Ég veit, að þeim er það kunnugra en mér, að þessi flokkur hefur haft hreinan meiri hl. í báðum deildum sænska þingsins. En Svíar fara svo varlega í þessum efnum, að alþýðuflokkur þeirra, sem hefur meiri hl. í báðum deildum og mikið af völdum mönnum til framkvæmda, hann stjórnar eins og borgaralegur flokkur — eins og Sjálfstfl. eða Framsfl. hér — í öllum atriðum og segir við þjóðina: Þið þurfið ekkert að vera hræddir um það, að við komum með neinar sérkreddur fyrr en eftir almennar kosningar, þar sem þjóðnýting væri samþykkt. Og þetta er rétt aðferð. En hitt er öfugt að farið, að flokkar hagi sér eins og Alþfl. nú, sem sennilega vill ekki ganga lengra í ógætni en vinir þeirra erlendis, og Sjálfstfl., sem hefur haft fyrir sitt kjörorð, að hann vildi vernda framtak einstaklingsins og hefur haft mikið af fylgi sínu fyrir þá tiltrú, sem hann hefur aflað sér á þann hátt. Það er óhugsandi, þegar leiðtogar þessara flokka athuga málið betur, að þeir misbjóði þjóðinni svo á þessu kjörtímabili, að þeir framkvæmi svo stórvægilegar framkvæmdir sem um er talað, án þess að það sé rætt í landinu áður. Það er nú ekki neitt smáræði, sem á að gera í þessu efni. Hinir nýju stjórnarflokkar eiga að taka 300 millj. af því fé, sem þjóðin á og hefur sparað saman og er eign einstakra manna, en ekki ríkisins — taka það á ábyrgð ríkissjóðsins, eftir að málum ríkissjóðs hefur verið stjórnað svo sem gert hefur verið. Því að fyrst og fremst hefur ríkissjóður ekki borgað að kalla neitt af ríkisskuldum allt þetta góðæristímabil, og ef ekki eru lagðir á miklir nýir skattar, getur hann ekki staðið undir verklegum framkvæmdum, eins og hag hans er nú komið. En þessir nýju ráðh. ætla að taka 300 millj. kr. af fé einstaklinga og ráðstafa því — að mér virðist mjög mikið eftir þeim hugmyndum, sem komið hafa fram í Þjóðviljanum á undangengnum mánuðum og missirum. Mér hefur ekki þótt það furðulegt að sjá þær bollaleggingar í blaði, sem vill ekki viðurkenna eignarréttinn og vill brjóta niður þjóðfélag okkar. En ég varð meira undrandi, þegar hæstv. forsrh., formaður þess flokks, sem hefur á stefnuskrá sinni einstaklingsrétt og einstaklingsrekstur í landinu, gerist forkólfur í þessu efni. — Mér er kunnugt um það af tilviljun, að á einum stað á landinu er ein lánsstofnun þannig sett, að gera má ráð fyrir, að enginn eigi þar inni nema bændur úr litlum landshluta og menn úr sjóþorpum. Þessir menn eiga 12 millj. kr. innstæður í bankanum. Þetta fólk — t. d. bændur, sem eiga vafalaust mikið af þessu, — hefur ekki getað gert umbætur í 5 ár, engar jarðabætur að heitið geti. Það er ekki vafi á því, að þeir vilja leggja þetta sparifé sitt í umbætur, þar á meðal jarðabætur, að stríðinu loknu, þegar hægt verður að koma því við. En hvað gerist? Það á að fara að ráðstafa þessu fé af stjórnarvöldunum, og til þess á að brúka aðferð, sem Hitler brúkaði. Það á að fara að þvinga menn til þess að leggja fé í fyrirtæki, sem þeir óska ekki eftir að leggja fé í. Þessi vinnubrögð gætu hvergi hugsazt nema í Rússlandi eða Þýzkalandi undir stjórn Hitlers og hefur líka sérstaklega verið praktiseruð þar. Þar hafa komið erindrekar frá ríkisstjórninni og sagt við eigendur fjárins: Þið hafið ekki keypt ríkisskuldabréf nú um stund; við ætlumst til þess, að þið kaupið ríkisskuldabréf fyrir 5 þús. mörk. Og það er ekki til neins fyrir þá, sem þetta er sagt við, að gera annað. — Nú er satt bezt að segja, að mjög áþekk orð verða sögð við eigendur þeirra innstæðna, sem hér er um að ræða, sem landsmenn eiga erlendis. Því hefur verið haldið fram af byltingasinnuðum mönnum eða þeim, sem fáfróðir hafa verið um fjármálaleg málefni, að það væru fáir auðkýfingar, sennilega Kvöldúlfur og aðrir slíkir, sem ættu þetta sparifé mestallt, og því væri sjálfsagt að taka þetta fé, það væri þá svo fáum gert rangt. En þá hélt einn bankastjóri Landsbankans góða og glögga ræðu í útvarpið, sem síðan var prentuð í blaði Sjálfstfl., þar sem hann sýnir fram á, að þetta fé var sparifé landsmanna. Og í þeim banka, sem hann veitir forstöðu, eru 47 þús. sparisjóðsbækur; ekki kannske jafnmargir eigendur sparifjárins. En ef reiknað er með hinum bönkunum og sparisjóðum á landinu, þá má búast við, að þessar innstæður séu einkaeign um 100 þús. manna í landinu. Þetta fólk hefur vafalaust gert ráð fyrir, að það hefði ráðstöfunarrétt á þessum peningum. Og ef hér væri ekki sú dýrtíð, sem drepur alla framleiðslu til lands og sjávar, þá mundi fólkið vilja leggja þetta fé í ræktun, byggingar báta og skipa og iðnfyrirtæki — ef aðeins aðstaðan væri þannig, að fólkið gæti framleitt, af því að kaup væri ekki hærra en í flestum öðrum löndum. Þá þyrfti engar nefndir, sem ríkisstjórnin setti upp til þess að ráðstafa eignum manna, og það með þeirri hörku, að gert er ráð fyrir, að fé þetta sé sett með nauðungarlánum, ekki aðeins til ríkisins, heldur hreint og beint inn í ákveðin fyrirtæki.

Nú er mála sannast, að ef hæstv. ríkisstjórn hefði aðstöðu til að gera þetta — sem er ákaflega erfitt, vegna þess að stríðið er ekki enn þá búið, og því miður er ekki víst, að það verði svo fljótt búið sem menn vildu óska, — og þó að það verði búið innan skamms, þá eru litlar líkur til þess, að við Íslendingar verðum fremstir í röð þeirra, sem fá t. d. skip eftir stríð. Við höfum verið í friði á þessum stríðsárum, og það eru ekki líkur til þess, að við sitjum fyrir t. d. Norðmönnum, Dönum og Hollendingum og öðrum þjóðum, sem mest hafa liðið, um það að fá skip eftir stríð til okkar framleiðsluþarfa. Þess vegna er ekki víst, að þetta verði svo auðvelt fyrir hæstv. ríkisstjórn, þó að hún sitji nokkra mánuði við völd. En þetta eru hennar ráðagerðir. — Eftir því sem í Þjóðviljanum hefur staðið, þá mun vera tilætlun ríkisstjórnarinnar að kaupa mikinn fjölda járnskipa og tréskipa, og stjórnin á svo að bjóða bæjarfélögum, einstaklingum og hlutafélögum skipin til kaups. En ef það gengur ekki að selja þessum aðilum öll skipin, — þó það sé ekki mikið um það talað, — þá er auðséð, að meiningin er, að það verður að vera ríkisrekstur á þeim að einhverju leyti ásamt rekstri bæja, og það er lokatakmarkið, sem sósíalistar hugsa sér um íslenzka framleiðslu.

Nú vík ég að því, að kaupgjaldið er hjá okkur tiltölulega miklu hærra en hjá nokkurri þjóð hér í kring, og þar af leiðandi erum við ekki samkeppnisfærir við þær þjóðir um markaði. Og ef ekki verður borgað með t. d. okkar fiski úr ríkissjóði, má búast við, að markaður fyrir hann lokist. Og yfirleitt er búið svo að atvinnurekstri í landinu, að ekkert má falla í verði af afurðum til þess að ekki verði stöðvun í framleiðslu þeirra. Skipastóllinn getur orðið of stór fyrir þjóðina. Það getur vantað menn á ný og gömul skip og einkum markað eins og milli 1930 og 1940. Þá þarf ekki að búast við því, að sú auðsæld okkar, sem stríðinu fylgir, verði til þess, að þær útpíndu þjóðir, sem hart hafa verið leiknar í stríðinu, opni barm sinn algerlega gagnvart þjóð, sem hefur búið við sældardaga öll stríðsárin. Við höfum þannig enga tryggingu fyrir einum einasta markaði eftir stríð.

Og svo kemur önnur hlið á þessu, sem er reksturinn á þessum nýja flota. Við skulum segja, þessi skip, sem keypt eru fyrir millj. kr. og flutt hingað til landsins, eru svo boðin út, fyrst einstökum mönnum og félögum, eins og hæstv. ráðh. tók fram. Þá finnst mér ekki óeðlilegt, að þeir segi: Íshúsin eru stöðvuð og öll skip eru stöðvuð, því að vinna, sem kostar hér 50 kr., kostar í Englandi 15 kr., við sjáum okkur þess vegna ekki fært að gera skipin út. Og án þess að ég vilji særa hæstv. forsrh., þá vil ég segja það, að hann veit vel, af því að honum er það mál sérstaklega vel kunnugt af eðlilegum ástæðum, að stærsta útgerðarfyrirtæki landsins hefur nú selt flest sín skip. Og án þess að ég sé nokkuð að lofa eða lasta þetta firma, þá hefur það þekkt sína góðu og vondu daga. Það hefur þekkt sína góðu daga. Og á árunum 1930–1940 voru þeir, sem fyrir því stóðu, húðskammaðir fyrir það að hafa lifað á bönkunum. Mér finnst ekki óeðlilegt, að þessir menn hugsi, þegar atvinnureksturinn er dauðadæmdur: Við skulum lofa einhverjum öðrum að eiga skip nú; við erum búnir að fá nóg af útgerð á undanförnum árum. — Ég er ekki að glettast við hæstv. forsrh., þó að ég segi þetta, heldur benda á, að stórt útgerðarfyrirtæki, sem er tengt honum og mest hefur borið á lengi, sem hefur haft ágæta aðstöðu og þaulreynda menn til forustu og hefur haft orð á sér fyrir vöruvöndun, meðan saltfiskur var framleiddur hér, þetta fyrirtæki hefur ekki séð sér annað fært en að draga sig í hlé nú og selja skip sín. Ég er ekki að hæla þessu. En þetta er rétt fjárhagslega séð, þegar litið er á útgerðarkostnað og verkalaun.

Færi nú ríkisstjórnin að bjóða út skip til kaups og menn vildu þau ekki, — þá eru þó hér í Reykjavík 45 þús. manns, kannske 50 þús., sem þykir gott að búa við hitaveituna og vilja ekki héðan fara og ekki annars staðar vera. Og við heyrðum það á boðskap ríkisstjórnarinnar, að hún vill, að öllum líði vel, sem er ekki nema fallegt. Og setjum svo, að fólkið hér í Reykjavík, sem ekki vill fara frá þægindunum, sem það hefur vanizt hér, segi: Nú langar okkur til þess, að bærinn geri út og ríkið geri út, því að við viljum vera hér, við viljum ekki fara út á útkjálka, o. s. frv. En þá stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að nú eftir það góðæri, sem verið hefur, hafa verið lögð fram fjárlög, sem teknir voru burt á 40 vegir. Hvernig halda menn þá, að það fari nú? Reykjavík og Hafnarfjörður standa mjög að þessari ríkisstjórn, og þar munu hv. kjósendur heimta það, að byrjað verði á þjóðnýtingu, þeirri stærstu, sem hér hefur þekkzt. Og þá gæti ég hugsað mér, að það færi að fara dálítið um þessa góðu sjálfstæðismenn og Alþfl.-menn, sem eiga innstæður erlendis, og þá ágætu kommúnista, sem eiga eitthvað af þessum 47 þús. bankabókum í Landsbankanum. Ég get hugsað mér, að þessir menn allir færu kannske að hugsa um, hvort það sé alveg áreiðanlegt, að þetta fyrirkomulag sé það bezta, og sömuleiðis, hvaða peningar það væru, sem ætti að borga með rekstrarhallann af útgerðinni. Því að það er ekki annað til þess að borga þann halla með en peningar þessara manna, og það er ekki hægt að reka þessa útgerð öðruvísi en með því að eyða sparisjóðsinnstæðunum. Ég er of fáfróður til að vita, hvort það mundi taka eitt, tvö eða þrjú ár að eyða öllum sparisjóðsinnstæðum landsmanna þannig, en það yrði ekki miklu lengur, sem þær entust til þessarar eyðslu. — Það er kannske til sú afsökun fyrir hæstv. forsrh. viðkomandi því að leggja út á þessa braut, að hann hugsi sem svo: Það er ekkert álitlegt að gera þetta, en fólkið vill eyða þessu fé, það vill ekki spara, ekki lækka dýrtíðina; því má það þá ekki ráða og eyða þessu fé? Og ef það vill fella gengið niður í ekki neitt, þá bara missir það sínar bækur, — það hefur skammað okkur fyrir að standa okkur illa á kreppuárunum, — við skulum bara lofa því að eyða sínum peningum. — Þetta er kannske eina frambærilega afsökunin fyrir Sjálfstfl., því að þeir geta kannske búizt við, að það verði ekki friður fyrir áróðri fyrr en búið er að eyða öllum innstæðunum, sem ekki eru eign nokkurra ríkra manna í landinu, heldur fjölmargra landsmanna. Og svo, þegar búið er að eyða öllum innstæðunum — ef þessi stefna verður ofan á — þá byrjum við aftur eins og Adam og Eva, þegar þau stóðu nakin og útrekin úr Eden; við verðum þá að fara að vinna aftur, að vísu ekki með blóði og e. t. v. ekki með tárum, en áreiðanlega með svita eins og í gamla daga.

Ég vil þá víkja fáeinum orðum að þessum stóru ráðagerðum hæstv. ríkisstjórnar frá því sjónarmiði, hvernig þetta allt er undir búið. Það er mála sannast, að ég hefði álitið, að það hefði þurft að hafa langar umr. og ekki minna en einar kosningar um það, sem hér er ætlazt til, að gert verði að þjóðinni fornspurðri.

Og hefur þá þessi sex manna stjórn sterka eða veika aðstöðu? Ég heyrði hæstv. forsrh. telja, að hún hefði mikinn þingstyrk, sem ég vil ekki efa, að hann hafi haft ástæðu til. Og ég vil ekkert segja um þessa mætu menn, sem hann hefur valið með sér í stjórnina, — sérstaklega úr borgaraflokkunum. Samt get ég ekki séð annað en að stjórnin sé veik. En ef maður athugar flokk hæstv. forsrh., þá getur verið, að hann sé þrískiptur í þessu máli. Ég vil ekki segja, að hann sé þríklofinn, en að hann sé þrískiptur í skoðun á stjórnarmynduninni, sem hér hefur átt sér stað. Það hefur ekki farið dult, að blöð Sjálfstfl. hafa verið allósammála um þetta. Vísir hefur haldið fram svipaðri skoðun og fyrrv. stj., að menn ættu að lækka dýrtíðina til að gera atvinnuvegina samkeppnisfæra, en Morgunblaðið hefur haldið sig á þeirri línu, sem núv. hæstv. stj. er á. Hér er um allmikinn ágreining að ræða, og er sýnilegt, að hann er ekki um menn, heldur málefni, svo að líklegt er, að Vísir styðji ekki hæstv. stj., heldur er sennilegt, að hann verði á móti henni, og fylgi hans hér í bæ er ekki svo lítið, þó að hann hafi ekki þingfylgi. Í öðru lagi hafa fimm af reyndustu þm. Sjálfstfl. sérstöðu til stjórnarmyndunarinnar, m. a. sá, sem lengsta þingsetu hefur af þeim, sem nú eru á þingi, hv. þm. Borgf. Enn fremur hæstv. forseti Sþ., sem kom jafnt honum á þing, þó að hann hafi ekki setið óslitið á þingi síðan, og einnig þrír aðrir reyndir þm. tregir að veita ríkisstjórninni brautargengi. Það er enginn vafi, að þessir menn eru ekki á móti hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh., ég hygg þvert á móti, að þar á milli sé góð vinátta, en þeir eru á móti stefnu stjórnarinnar, sem ég hef nú gagnrýnt. Þess vegna vík ég að því aftur, að þetta er veikleikamerki, að annað stærsta blað flokksins sé á öndverðum meið við stj. og að fimm af tuttugu þm., sem njóta mikils álits í sínum flokki og utan flokksins sumir, vilja ekki styðja þessa stefnu. Náttúrlega er eftir meiri hluti þingflokksins, en samt er þetta mikið áfall fyrir hæstv. forsrh., sem hefur sýnt óvenjulega mikla lagni við að halda flokknum saman og hefur alltaf tekizt það þangað til nú. Það hafa aldrei komið mál, sem flokkurinn hefur klofnað um á svo áberandi hátt sem þessi þjóðnýtingarplön, sem nú liggja fyrir.

Þá er það einnig mikið veikleikamerki, að Alþfl. er áreiðanlega mjög skiptur um, hvort þetta sé rétt leið. Ég efast ekki um, að ráðh. flokksins muni njóta persónulega mikils trausts í flokknum. Hitt dylst engum, að meðal leiðandi manna í flokknum var það mikil andúð gegn því að ganga í þessa stjórnarmyndun, að margir þeirra gerðu sér von um að sleppa frá þessu samstarfi. Þá er líka veikleiki í hinni eitruðu sambúð milli Alþýðublaðsins og Þjóðviljans. Eru þar harðar ásakanir á báða bóga, landráð það vægasta, sem á andstæðingana var borið. Er torskilið, hvernig stjórn á að starfa með slíkum stuðningi.

Ég er svo ókunnugur í flokki kommúnista, að ég ætla ekkert að segja um, hvort sams konar ágreiningur er þar, og veit ekki um, hvort skoðanamunur er þar tilfinnanlegur. En flokkurinn á ákaflega duglega „agitatora“ og undirróðursmenn. Mér dettur ekki í hug að draga af þeim, að þeir eru langsniðugastir í „agitationum“ og áróðri af öllum flokkum á Íslandi. Þeim hefur líka orðið tiltölulega vel ágengt, enda hafa þeir byggt á tækni, sem þeir hafa fengið frá sínum alþjóðlega félagsskap utan lands, og er sú áróðurstækni hin fullkomnasta og betur til þess fallin að ná árangri um stundarsakir en sú, sem hinir flokkarnir hafa.

En um leið og ég viðurkenni þessa yfirburði, þá get ég ekki séð, að í þessum flokki séu margir menn, sem væru líklegir til að geta veitt forstöðu þessum stóru fyrirtækjum, sem hér á að leggja í, heldur einmitt það gagnstæða. Flokkurinn hefur einbeitt kröftum sínum í að rífa niður og hefur náð þar miklum árangri. Ég get í því sambandi ekki komizt hjá að minnast á mína persónulegu reynslu af einum dugandi manni í þessum flokki, hv. 2. þm. Reykv., áður en hann kom þeim klofningi í Alþfl., sem byrjaði 1930. Við unnum þá nokkuð saman og áttum að ýmsu leyti allgóða samvinnu um stundarsakir, þó að mér hafi verið ranglega kennt, að þessi hv. þm. varð einn af forstjórum síldareinkasölunnar á Siglufirði. Ég hef kannske átt einhvern þátt í því, en ekki eins mikinn og andstæðingar mínir vilja vera láta. Mín reynsla var sú, að nokkra stund lagði þessi framkvæmdastjóri sig talsvert vel fram við að gera gagnlega hluti. En smátt og smátt fór tvíklofningur að gera vart við sig, og hann varð „agitator“ part af tímanum og framkvæmdastjóri þess á milli. Þess vegna notaðist ekki af hans gáfum. Niðurstaðan af þessum rekstri, sem var engan veginn eingöngu honum að kenna, en stafaði mikið af þessum tvískiptingi, varð því mjög í samræmi við það, sem hans flokkur óskar eftir að verði um borgarafyrirtæki. Ég geri ráð fyrir, að úr því þessum hv. þm., sem ég þekki einna bezt af þm. flokksins, lánaðist ekki betur en þetta þrátt fyrir marga góða kosti, af því að hann hafði þessa pólitísku skoðun og vantaði ekkert annað en að vera borgaralega sinnaður, þá sé margur vantrúaður á, að minni mennirnir, sem aldrei hafa reynt að vinna ábyrgðarstörf, verði færir um að standa fyrir stórum fyrirtækjum. Og án þess að ég vilji tala illa um fylgismenn hæstv. forsrh., sem margir eru vanir „business“-menn fyrir sjálfa sig, þá hygg ég, að suma þeirra vanti margt til, að þeim sé eðlilegt að vera framkvæmdastjórar fyrir almannaframkvæmdum, sem hér á að koma á fót. Ég vil í því efni benda hæstv. ráðh. á, að eitt af þeim fáu atriðum, sem hægt er að benda á, þar sem Jóni Sigurðssyni skjátlaðist í pólitískri dómgreind, er það, þegar hann áleit, að það væri eðlilegt í verzlunarbaráttunni, að íslenzkir kaupmenn legðu sína þekkingu í að koma upp félögum eins og þeim, sem við nú köllum samvinnufélög. Þetta var eðlilegt frá sjónarmiði Jóns eins og hann var sjálfur, en það lánaðist engum kaupmanni nein tilraun til að vinna á þann hátt, sem þessi mikli leiðtogi ætlaðist til, af því að þeir höfðu annað viðhorf. Þess vegna hygg ég, að það mundi verða mikil sorgarsaga, ef hæstv. forsrh. lánaðist að fá upp þessi þjóðnýtingarfyrirtæki, en vantaði menn, sem hefðu nauðsynlega þekkingu og það rétta hugarfar til að standa fyrir rekstri þeirra.

Ég býst við, að þegar burt eru rokin áhrifin af þeirri ástæðulausu bjartsýni, sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh., þá komi fram alvarlegra viðhorf hjá borgurunum en hann gerir ráð fyrir. Það er ekki ósennilegt, þegar menn, sem eiga fjárhagslegan árangur sinn af fimm ára sparnaði í bönkum og sparisjóðum, athuga, hvað þeim er hér boðið, þá komi fram uggur um fé þeirra. Það getur farið svo, að þeir reyni að koma fé sínu til útlanda, og reynslan er sú, að það er alltaf hægt að koma nokkru fé til útlanda. Hitt er þó hættulegra, ef fólk hefur ekki trú á innstæðunum og eyðir peningum sínum í alls konar ónýta hluti. Þetta er afskaplega hættulegt, kannske eitt af því allra ískyggilegasta við þessa ráðagerð, sem hæstv. forsrh. hefur lýst, að það muni skapast ótti hjá mönnum við að vinna, spara og eiga innstæður, af því að þær verði hvort sem er að engu.

Þá vil ég ekki heldur draga dul á það, að ég hef enga trú á, að neitt af þessum plönum muni lánast. Ég álít, að fólkið sé ekki undir þetta búið. Það hefur ekki verið hægt í neinu landi að koma á svona stórfelldri þjóðnýtingu nema með hervaldi og leynilögreglu. Við óskum ekki eftir, að slíkt þyrfti að koma yfir þá þjóð, sem er einna minnst af öllum þjóðum fyrir að láta stjórna sér. Það mun því reynast bæði hæstv. stj. og öðrum, að Íslendinga langar ekki til að fá stj. eins og þá, sem hér er ráðgerð.

Þá kemst ég ekki hjá að minnast á eitt atriði, sem að vísu var ekki tekið til rækilegrar athugunar í ræðu hæstv. forsrh., en það eru utanríkismálin. Hann óskaði eftir menningarsambandi við Norðurlönd og lét liggja að því, að Íslendingar ættu að öðru leyti að leita verndar hjá væntanlegu alþjóðasambandi. Fór hann um þetta þeim orðum, að þar gætti sýnilega áhrifa frá kommúnistum, stuðningaflokki hans. Það er vitað, að fyrir kommúnistum vakir sú hugsjón að geta komið á þjóðnýtingu um allan atvinnurekstur hér á landi og að verða í sem allra nánustu sambandi við ráðstjórnarlýðveldið rússneska. Þjóðræknir og vel viti bornir Íslendingar óska eins og hæstv. forsrh. vinsamlegra skipta við Norðurlönd. Hitt er slíkum mönnum ljóst, að Norðurlönd eru vanmáttug til að bjarga Íslandi í ófriði, eins og sést á því, að tvö af Norðurlandaríkjunum stynja nú undir hinni mestu kúgun framandi herþjóðar, ekki fyrir þeirra eigin tilverknað, heldur sökum mannfæðar og veikleika á hernaðarvísu samfara ásókn og ranglæti ósvífins herveldis. Á hinn bóginn eru tvö stórveldi, England og Bandaríkin, sem hafa verið bjargvættir í mestu vandamálum þjóðanna að því er snertir hervernd. Þeir menn hér á landi, sem vilja í þessu efni leita eftir bandalagi og vernd Rússa, verða að gera sér grein fyrir því, að Rússar hafa meira en nóg með að „vernda“ nokkrar nágrannaþjóðir sínar, svo sem Finna, Eystrasaltsríkin þrjú, Pólland og Balkanríkin. Þessi ríki liggja að Rússlandi, og þar fá Rússar gott tækifæri til að koma fram sem verndarar frjálsra smáþjóða. En það eru vesturveldin, England og Bandaríkin, sem Norðurlandaríkin öll, þar á meðal Ísland, hljóta að líta á sem sína vini og verndara. Þetta er ekki nýjung, ef við athugum viðburði sögunnar. Snemma á 17. öld komu hingað til lands víkingar sunnan úr löndum, rændu hér fólki og fé og beittu miskunnarlausri grimmd við varnarlaust landsfólk. En eftir þann tíma hverfa allir víkingar af hafinu kringum Ísland. Hvers vegna? Ekki var það okkur að þakka, við vorum þá eins og nú vopnlausir og áttum engan hernaðarflota. En í suðurátt frá Íslandi bjó þjóð á annarri eyju, skilin frá meginlandinu með þröngu sundi. Þessi þjóð hefur verndað frelsi sitt öldum saman og um leið skapað meginhlutann af því frelsi, sem til er í heiminum. Englendingar urðu drottnandi þjóð á Atlantshafinu og tóku sér þar lögregluvald óumbeðið. Íslendingar hafa á heimsmálavísu lifað í skjóli brezka flotans frá Tyrkjaráninu og fram til þess dags, er samningarnir voru gerðir við Bandaríkin um hervernd vorið 1941. Þarf ekki að eyða að því orðum, að bæði landfræðilega og sögulega eru Bretar sú eina Evrópuþjóð, sem getur verið verndari okkar Íslendinga. Hákon Noregskonungur og Nygaardsvold forsætisráðherra Norðmanna hafa lýst því yfir hiklaust, að norska þjóðin muni, eftir að þessari styrjöld lýkur, halda við vináttusambandi milli Noregs, Englands og Ameríku. Þeir álíta slíkt samkomulag óhjákvæmilegt til að tryggja sjálfstæði Noregs. Aðstaða okkar Íslendinga er sú mitt í Atlantshafinu, að við erum nábúar bæði Breta og Bandaríkjamanna, og þó að kynni okkar við Vesturheim séu skemmri en við England, þá hafa þau engu að síður verið mjög þýðingarmikil. Frá Ameríku höfum við fengið nálega allan þann stríðsgróða, sem landsmenn illu heilli deila nú um svo harðlega. Við leituðum til Bandaríkjanna um vernd í samráði við ensku stjórnina og gerðum um það sérstakan samning í yfirstandandi heimsstyrjöld. Ef engilsaxnesku ríkin bíða ósigur í þeirri styrjöld, sem nú er háð, þá er um leið úti um stjórnfrelsi Íslands. En ef þessar þjóðir sigra, sem allir frelsisunnandi menn vonast eftir, geta Íslendingar stjórnað málum sínum sjálfir í fullkomnu frelsi, svo framarlega sem þjóðin kann fótum sínum forráð. Ég vil þess vegna gagnrýna hæstv. ráðh. fyrir að hafa ekki í ræðu sinni gengið hreint til verks og látið það koma ljóst fram, sem ég þykist vita, að sé þó hans skoðun, að það sé ekki til fyrir Íslendinga nema ein stefna í utanríkispólitík að því er snertir vernd landsins, og það er sú, að Íslendingar hafi sem mest vinsamleg og varanleg skipti við Breta og Bandaríkin og njóti á styrjaldarárum herverndar annarrar hvorrar þessarar þjóðar eða beggja. En við Rússa höfum við aðeins eitt svar, og það á að vera á þessa leið: Þið eruð mikil þjóð og voldug. Þið hafið valið ykkur nýja og sérkennilega stjórnarhætti, sem geta átt við ykkar þjóð og þjóðhætti, en eru mjög framandi íslenzku þjóðinni. Í nánd við ykkur búa margar smáþjóðir, sem þurfa verndar við á hættutímum eins og við Íslendingar. Sýnið í skiptum við nábúa ykkar, að þið séuð vel fallnir til að vernda frelsi og sjálfstæði þessara þjóða. En við Íslendingar heyrum að uppruna og menningu til vesturþjóðunum. Við viljum fylgjast með þeim eftir vandasömum leiðum heimsstjórnmálanna á ókomnum árum.

Ég vil ekki enda þessi orð án þess að víkja að öðru, sem mér er hugðnæmara en að gagnrýna þessa nýju stjórn, sem hefur tekið að sér mikinn vanda og er ekki öfundsverð af þeirri byrði. Þar sem mér sýnist líklegt, að sú stefna, sem mér finnst furðulegt, að hæstv. forsrh. skuli hafa í huga, mæti nokkurri andstöðu, sem hann hefur nú líka fengið allalvarlega áminningu fyrir með sérstöðu nokkurra náinna vina hans, þá vil ég taka fram, að ég hygg, að þessi stjórnarmyndun, sem ég óska, að þeir hefðu ekki lent í, megi samt, úr því að gengið var út í þennan háska, verða til nokkurs góðs. Og það gott, sem ég vil af þessu hafa, er, að nokkur andleg átök verði um þá stefnu, sem hér hefur verið tekin, en upp úr þeim átökum þarf að spretta allsherjar viðurkenning á þeirri stefnu, sem þjóðin hefur fylgt í þúsund ár, þar sem byggt hefur verið á einstaklingsframtaki og frelsi einstaklinganna.

Þess hefur orðið vart, að stór hópur af dugandi mönnum hefur hafið andóf gegn hæstv. stj. Vil ég þar fyrst og fremst víkja að þeim fundi, sem haldinn var nýlega í Rangárvallasýslu, sem er þannig skipuð, að kjósendur þar hafa verið framsóknarmenn og sjálfstæðismenn nálega að jöfnum hlutum og eru það sjálfsagt ennþá.

Það er vitað af líkum, að þeim hluta bænda, sem fylgir Framsfl. að málum, muni ekki líka þessi stefna. Á þessum fundi, sem hv. 2. þm. Rang. hélt á sunnudaginn var, þar var kominn vinsæll maður úr ríkisstj., hæstv. fjmrh. Það mun ekki hafa leynt sér þar, að þrátt fyrir það, að fundarmenn væru mjög vingjarnlegir við hann, þá létu þeir ótvírætt í ljós skoðun sína á móti honum, og enn fremur sýndi það sig við atkvgr., að þeir töldu það eðlilega afstöðu, sem hv. 2. þm. Rang. hefur tekið. Ég þori að fullyrða, að þessi alda hefði verið algerlega óhugsandi í Rangárvallasýslu, ef ekki hefði verið um þetta þjóðnýtingarspursmál að ræða. Sjálfstæðismenn í Rangárvallasýslu hafa verið einhverjir tryggustu fylgismenn og flokksbræður hæstv. forsrh. En svo má lengi brýna — ég vil ekki segja deigt járn, því að það er ekki deigt í Rangæingum, — en það má fara svo langt af leið, að jafnvel tryggir fylgismenn stingi fótum við, og á eftir Rangæingum munu koma bændur um allt land bæði til sjávar og sveita. Þetta er ekki langt komið enn, en það gagn, sem ég vil vona, að verði af þessari djarflegu stjórnarmyndun, er, að fram fari harðar umr. og skoðanakönnun á næstu vikum og mánuðum, svo að ekki sé meira sagt, um þessar tvær stefnur, þá, sem íslenzka þjóðin hefur búið við hingað til, þar sem byggt hefur verið á framtaki einstaklinganna, og þessari nýju stefnu hæstv. stj., og ég álít, að það, sem hefur hingað til verið ólán verkalýðsstéttarinnar, sé það, að hún hafi unnið of auðvelda sigra. Ég vænti, að nú komi upp, ekki óeðlileg, heldur skipulega upp byggð mótstaða til sjávar og sveita, ekki móti þessari hæstv. stj., sem ég geri ekki ráð fyrir, að starfi svo lengi, heldur á móti þeirri pólitík, sem hæstv. stj. hefur tekið að sér með svo mikilli bjartsýni. Það er út frá því sjónarmiði, sem ég vil, um leið og ég harma, að hæstv. forsrh. skuli hafa lent út á þessa nokkuð vafasömu braut, vænta, að þessi háskaför verði honum ekki að aldurtila á neinn hátt, heldur til þess, að hinn borgaralegi hluti þjóðarinnar safnist til skipulegrar varnar um borgaraleg sjónarmið og samstarf og komi frá þeirri baráttu sterkari og í betra jafnvægi en hann hefur verið í áður í okkar landi.