05.12.1944
Sameinað þing: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

143. mál, fjárlög 1945

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Hv. þm. V.-Sk. (SvbH) deilir á stj. fyrir það, að hún væri ekki búin að leggja fram till. sínar um nýja tekjustofna fyrir ríkissjóð, hvað þá, — hann lagði mikla áherzlu á þetta „hvað þá“, — þessar 300 millj., er hún ætlar til nýsköpunar. Það þótti honum sýnilega hin mesta goðgá. Þetta er málflutningur, sem hæfir vel þessum hv. þm. Sjálfur stendur hann að frv. um að leggja 500 millj. í nýsköpunina. Mætti ég leyfa mér að spyrja, hvar Framsókn eigi þessar 500 millj. geymdar? Stjórnarflokkarnir hafa gert fulla grein fyrir, hvar þeir ætla að taka þetta fé, eins og margsinnis hefur verið tekið fram hér í þessum umr:

Sami hv. þm. taldi bændum sýndan mikinn fjandskap, ef ekki yrði lögfest frv. um áburðarverksmiðju. Sannleikurinn er sá, eins og nú er upplýst — og þá fyrst og — fremst af rannsóknaráði ríkisins, að þetta frv. hefur fengið alveg óvenjulega lélegan undirbúning, og má telja, að ekki standi steinn yfir steini af þeim áætlunum, sem frv. fylgdu af hendi fyrrv. stjórnar. Það er því gert beinlínis til að forðast það, að verksmiðjan, ef reist verður, leggist sem baggi á bændurna, að bæði bændur og aðrir hér á þingi vilja láta rannsaka málið nánar, áður en ráðizt verður í þetta risafyrirtæki, sem kostar margar millj. kr. eða kannske milljónatugi.

Bæði þessi hv. þm. og aðrir umboðsmenn Framsfl. hafa verið að dylgja um það, að h/f Kveldúlfur hafi selt nokkuð af togurum sínum, og vilja þeir með því rökstyðja, að Kveldúlfur sé vantrúaður á nýsköpun stj. Nú er þessi Kveldúlfur, sem annan daginn er hið óþrifalegasta fyrirtæki og mesta grýla í augum framsóknarmanna, orðinn eins konar véfrétt. sem öllum beri að dá og fara eftir. En h/f Kveldúlfur selur togara sína af því, að þeir eru gamlir, og Kveldúlfur veit, að arðvænlegra er að reka ný skip en gömul. Sala Kveldúlfstogaranna sýnir því, að Kveldúlfur aðhyllist nýsköpunarhugmynd stj., enda ætlar félagið að kaupa ný skip fyrir andvirði hinna gömlu.

Þá vék þessi hv. þm. að Korpúlfsstaðabúinu og skýrði frá því til ámælis stjórnarflokkunum í bæjarstjórn Reykjavíkur, að nú væri búið að leggja í eyði þetta blómlegasta býli landsins; þar hafi verið 300 kýr, sagði þessi hv. þm. grátklökkur í málrómnum, en nú væru kýrnar aðeins 20, en hins vegar væru húsakynnin notuð fyrir geðveikt fólk.

Ég held nú, að þessi hv. þm. hefði ekki átt að minnast á þetta mál. Það er alveg rétt, að Korpúlfsstaðir voru langstærsta býli landsins og á búum Thors Jensens voru á milli 400 og 500 gripir. Það er líka rétt, að þessu er öllu lokið. En hvers vegna? Það er vegna þess, að einmitt þessi hv. þm. komst til æðstu valda í mjólkursölumálunum. Honum tókst að fara svo með þau völd, að nú er talið réttara „til samræmingar“ að reka geðveikrabú á Korpúlfsstöðum en kúabú.

Loks sagði þessi hv. þm., að það hefði ekki verið fyrr en mér var kunnugt um, að Framsfl. vildi ekki fallast á mig sem forsrh., að ég hefði snúið bakinu við þeim og farið að láta dátt að verkalýðsflokkunum. Þá væri það annað með Hermann Jónasson, — hann hefði sagt sínum flokki, að hann mundi ekki fara í stjórnina.

Ég get vitnað undir marga hv. þm. Framsfl., sem betur fara með sannleikann en þessi hv. þm., að ég hef hvað eftir annað síðustu nær tvö árin sagt þeim, að ég teldi, að Framsfl. og Sjálfstfl. ættu ekki að hafa sína fyrri ráðh. á oddinum, heldur velja nýja menn, sem líklegri væru í bili til góðrar samvinnu. Ég hef margsagt þessum mönnum, að það væru næg ráðherraefni í okkar flokki og ég tryði því ekki, að þeir teldu sig svo fátæka, að þeir ættu enga menn, sem gætu setzt í þá stóla, nema Eystein Jónsson og Hermann Jónasson.

Það, sem þessi hv. þm. segir um, að Hermann Jónasson hafi tjáð flokki sínum, að hann vildi ekki fara í stj., er að vísu satt, en það er ekki nema hálfur sannleikurinn. Hann sagði við sinn flokk, að eins og þeir hlytu að skilja, þá væri ekki hægt að ætlast til, að hann, — hann, sem hefði verið forsrh. í mörg ár, gæti tekið óvirðulegra sæti í stj. en sitt fyrra embætti. Ég læt ósagt, hvort hv. þm. Framsfl. hafa „skilið“ þá hugsun, en ég held ég þori að segja, að þeir eru þá einir um það.

Hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) var að reyna að þvo af sér ámælið fyrir að hafa nú snúizt gegn öllu því, sem Framsfl. vildi fylgja, meðan hann ætlaði sjálfur í stj. Bar hann nú fram ýmsar spurningar um hvenær Framsfl. hefði verið fús að ganga í stj., ef þetta eða hitt hefði átt að gera, sem nú hefur verið ákveðið að gera. Sannleikurinn er sá, að flest þessi atriði var Framsfl. búinn að aðhyllast, eins og ég sannaði í gær, en á hin minntust þeir ekki einu orði, meðan á samningsumleitunum stóð.

Hv. þm. sagði, að í samningunum hefði ég viljað stöðva kaupið nema til samræmingar. Þetta er rétt. Þetta sagði ég þá. Og þetta segi ég enn.

Og þetta er einmitt það, sem stj. beitir sér nú fyrir. Í þessu hafa því engin undarleg fyrirbrigði skeð, önnur en þau, að Eysteinn Jónsson, sem mælti fast með þessu, þegar hann ætlaði í stj., hefur nú allt á hornum sér út af því.

Um stjórnarmyndunina læt ég nægja að vísa til þess, er ég sagði í gær. Það var dramb og ofmetnaður Framsfl., sem kom í veg fyrir fjögurra flokka stj. og forðaði jafnframt Sjálfstfl. frá þeirri hættu, er yfir hann hefði verið færð, ef hann hefði hætt sér á þá hálu braut að mynda stj. með Framsfl. einum.

Á þingi vita allir, að þeir Eysteinn Jónsson og Hermann Jónasson bera á þessu ábyrgð. Hugarfar þeirra má marka af því, sem flestir hv. þm. vita, að er satt, hvað sem Eysteinn Jónsson segir, að Hermann Jónasson gekk meðal manna og bauð val milli glundroða og hruns og forsætis síns, og því, sem ég var að segja frá og allir hv. þm. Framsfl. vita, að er satt, að Hermann Jónasson tjáði flokki sínum, að eftir hinn langa valdaferil sinn mætti eigi vænta, að hann tæki að sér óvirðulegra starf en forsætisráðherradóm! Ég vænti, að menn skilji, að erfitt er að semja við slíkt hugarfar.

Í þessum umr. hefur Framsfl. mest ráðizt á Sjálfstfl. og mig persónulega, — nei, afsakið, árásirnar eru ekki á mig persónulega, — þær eru heift Framsfl. í garð þess, sem situr í sæti forsrh., og tek ég þær því ekki nærri mér. Mér er kannske frekar skemmt með þeim. Ég læt því þessi svör nægja, en skal í þess stað út af ræðum framsóknarmanna benda á nokkrar þær staðreyndir, sem komið hafa í ljós við umr.:

Það er ósatt, að stj. hafi beitt sér fyrir kauphækkunum.

Það er ósatt, að yfirleitt hafi aðrar kauphækkanir átt sér stað en til samræmingar og lagfæringar, sbr. skýrslu hæstv. samgmrh., er sýndi, að kauphækkanir hafa verið frá 3,4% upp í 9,4%, en Dagsbrún, sem við er miðað, hefur á sama tíma hlotið 16,3%.

Það er ósatt, sbr. einnig yfirlýsingu hæstv. samgmrh., að samið hafi verið um að gera landið að einu kjördæmi, því að till. um þá kröfu var felld í Alþfl. með þeim rökum, að vitað væri, að ég mundi aldrei fallast á hana.

Það er sannað, að Framsfl. var með launal., meðan hann ætlaði í stj., og fól því Bernharð Stefánssyni að flytja það, en snýst nú á móti málinu, þegar hann er utan gátta.

Það hefur sannazt, að Framsfl. er alls ekki skoðanalaus, eins og haldið hefur verið fram, heldur hefur hann þvert á móti tvær skoðanir á hverju máli, — allt eftir því, hvort hann ætlar í ríkisstj. sjálfur eða ekki.

Það hefur sannazt, að Framsfl. var með nýsköpuninni án kauphækkana og með kauphækkunum, meðan hann bjóst sjálfur við að vera í stj.

Það er sannað, að hann vill, að nýsköpunin mistakist, og það er þar með sannað, að hann tekur vonina um óvissan, flokkslegan hagnað fram yfir velferð komandi kynslóða á Íslandi.

Það er sannað, að Framsfl. ber ábyrgð á dýrtíðinni í landinu, með því að hann sleit árið 1940 sundur kaupgjaldið og verðlag landbúnaðarafurða.

Það er sannað, að 1938 hafði Framsfl. stýrt ríkissjóði á barm gjaldþrots.

Það er sannað, að öllu, sem Framsfl. deilir á stj. fyrir, var hann sjálfur samþykkur, meðan hann gerði ráð fyrir því að verða í stj.

Það hefur sannazt, að Framsfl. hefur því enga aðstöðu til að ráðast á stj., enda viðurkennir fyrrv. form. Framsfl., Jónas Jónsson, að svo sé. Hann játar þetta í „Ófeigi“ með þessum orðum:

„En þegar betur er athugað, kemur í ljós, að hlédrægni Hermanns og Eysteins var af öðrum toga spunnin. Þeir gátu ekki áfellt Ólaf fyrir að taka höndum saman við kommúnista, því að sjálfir höfðu þeir um tveggja ára skeið einskis fremur óskað en að komast í þessa aðstöðu. — Þeir gátu ekki heldur áfellt Ólaf svo mjög fyrir starfsskrá hans, því að meginhluti hennar hafði verið sameiginleg andleg fæða í tólf manna nefndinni allt s.l. sumar. Ekki gátu þeir heldur áfellt Ólaf fyrir undanhald hans varðandi dýrtíðaruppbót bændanna, því að það var engu síður þeirra verk en hans. Torvelt var einnig fyrir þessa menn að áfella stjórnina vegna hinna ógætilegu launalaga, því að Bernharð Stefánsson hafði með þeirra vitund gerzt flutningsmaður að frumvarpinu, áður en upp úr slitnaði milli framsóknarmanna og verkalýðsflokkanna.“

Hv. alþm. og aðrir hlustendur. — Íslenzka þjóðin stendur nú á vegamótum. Við höfum verið svo gæfusamir að endurheimta frelsi okkar eftir margra alda baráttu. Í einni órjúfanlegri fylkingu steig þjóðin lokasporið. — Nú hefst ný barátta, barátta fámennrar þjóðar fyrir því að halda uppi menningarríki í okkar fagra landi. Okkur er öllum ljóst, að til þess þarf bæði atorku og ráðdeild, en þó fyrst og fremst stórhug.

Hvar sætum við nú, ef brautryðjendur í atvinnuþróun síðustu áratuga hefðu aldrei árætt að hefjast handa, fyrr en tryggt var, að „allt bæri sig“? Sá, sem skipti á árabáti og þilskipi, sá, sem setti vélina í stað seglanna, sá, sem færði þjóðarbúinu togarana, vildi að sönnu, að „allt bæri sig“, en hann gerði sér líka ljóst, að íslenzkt atvinnulíf hafði aldrei og mundi heldur aldrei veita því fé, sem þar er að verki, neitt óyggjandi öryggi fyrir, að „allt bæri sig.“ Hann gerði sér ljóst, að að undangenginni skynsamlegri athugun varð að byggja á líkum. Þá eins og nú voru menn, sem heimtuðu öryggi, töluðu um heilbrigðan og skynsamlegan grundvöll, eins og hv. 2. þm. S.-M. sagði, héldu að sér höndum og höfðust ekki að. En þá eins og nú voru líka menn, sem trúðu á auðæfi landsins og orku þjóðarinnar. Þeir hófust handa. Þeir unnu sigrana. Þeir lögðu grundvöllinn að frelsi þjóðarinnar á öllum sviðum þjóðlífsins.

Feður okkar urðu að stýra eftir hugmyndaauðgi og bjartsýni. Við höfum reynslu þeirra fyrir okkur og vitum, að sjór, land, mannsorka og mannvit hafa að jafnaði ávaxtað vel það fé, sem lagt hefur verið í íslenzkt atvinnulíf að undanförnu.

Við byggjum því á reynslu og skynsemi, þegar við skorum á þjóðina að sameina nú enn á ný hug og krafta til þess með nýju og sterku átaki í athafnalífinu að festa og tryggja hið nýfengna þjóðfrelsi.

Þess hefur ekki verið kostur að samfylkja allri þjóðinni um þessa göfugu og hagnýtu hugsjón, því miður. En látum sundrungaröflin verða fáliða.