17.10.1944
Sameinað þing: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í D-deild Alþingistíðinda. (6142)

167. mál, verðlagsvísitalan

Brynjólfur Bjarnason:

Ég er þeirrar skoðunar, að það þyrfti endurskoðunar á vísitölunni, ef um það er að ræða, hvað eru lúxusvörur, eins og dilkakjöt. Ég veit ekki, hvað er nauðsynjavara, ef ekki kjötið. Það er að vísu dýr vara, en ekki lúxusvara. Hv. þm. nefndi annað dæmi, sagði, að eggin hefðu orðið til að raska vísitölunni, þótt þau væru ófáanleg. Ég veit ekki betur en egg komi lítið inn í vísitöluna. Ástæðan til þess, að þau hafa orðið til að hækka vísitöluna, er sú, hve gífurleg verðhækkun hefur orðið á þeim. Nú er það svo, að þó að þau fáist ekki tímum saman, koma þau þó einstaka sinnum á markaðinn, og hljóta þau því að hafa nokkur áhrif á vísitöluna. Auk þess er eitthvað selt á ólöglegum markaði, þó að það komi ekki inn í það magn, sem reiknað er með. Hins vegar er til fjöldi af vörum, sem ekki koma inn í vísitölugrundvöllinn, þegar hann er reiknaður. Þó að eggin væru ekki með og það mundi orsaka nokkra lækkun, þá er ég hræddur um, að þær vörur mundu valda ekki minni hækkun, væru þær teknar með. Annars er gott að vita, að við hv. flm. erum sammála, þar sem hann segir, að fyrir sér vaki að fá sem réttasta vísitölu, og þá er líka rétt, að till. verði þannig orðuð, að þessi tilgangur komi greinilega í ljós. Slíkri endurskoðun væri ég ekki á móti.