08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

143. mál, fjárlög 1945

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Það er hér ein lítil brtt., sem ég á á þskj. 646 og fjallar um það að veita lúðrasveit Reykjavíkur styrk að upphæð 50 þús. kr. Þau rök, sem til þess liggja, að ég ásamt hv. 6. þm. Reykv. hef lagt til, að að þessu ráði verði horfið, eru, að lúðrasveitin hefur sent Alþingi allýtarlegt bréf, þar sem hún gerir grein fyrir starfi sínu og fjárþörf. Um starf þessarar lúðrasveitar er það að segja, að hún hefur starfað hér að mestu óslitið síðan 1922 og meðlimir hennar áreiðanlega lagt á sig mikið og óeigingjarnt starf í þágu þeirrar listar, sem þeir iðka. Þessi hljómsveit er skipuð um 20 manns, og er nú svo komið, að hljómsveitarstjórinn telur sér ekki annað fært en að launa starf þeirra að nokkru. Hefur verið lagt til innan hljómsveitarinnar, að hver maður hafi 300 kr. á mánuði eða 3600 kr. í árslaun án uppbótar, sem er þá 72 þús. kr. alls. Stjórnanda hefur hljómsveitin fastan í sinni þjónustu og mun greiða honum í árslaun milli 15 og 20 þús. kr. Og auk alls þessa eru svo útgjöld vegna húsnæðis o.fl. o.fl., þannig að rekstrarkostnaður lúðrasveitarinnar mun vera þó nokkuð á annað hundrað þús. kr., ef að því verður horfið að greiða þeim, sem í hljómsveitinni vinna, einhver laun, sem virðist sanngjarnt og óumflýjanlegt.

Eins og menn vita, er svo háttað störfum slíkra hljómsveita, að þær fá að jafnaði ekki mikið fyrir hljómleika sína og í raun og veru oftast ekki neitt beinlínis. Þar er að jafnaði um útihljómleika að ræða, sem öllum mönnum er frjáls aðgangur að. Og það er því eðlilegt, að opinber aðili greiði fyrir þetta starf með opinberum styrk. Reykjavíkurbær hefur styrkt þessa starfsemi nokkuð, og sýnist eðlilegt, að ríkið komi þar nokkuð á móts við, enda hefur hljómsveit þessi oft aðstoðað við ýmis tækifæri opinberlega á vegum ríkisins, og má þar til nefna 17. júní s.l. Það munu liggja fyrir meðmæli með slíkri fjárveitingu, m.a. frá Páli Ísólfssyni. Og ég hygg, að það sé á einhverjum misskilningi byggt, að fjvn. sá sér ekki fært að ætla neitt framlag til þessarar hljómsveitar. — Við. flm. viljum vænta þess, að hv. fjvn. vilji athuga þetta mál á ný, og munum fallast á að taka þessa brtt. okkar aftur til 3. umr. í trausti þess, að hv. fjvn. athugi málið vel á milli umr.