20.06.1944
Sameinað þing: 35. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (6454)

Kveðja frá Bandaríkjaþingi

Forseti (GSv):

Forsetinn hefur lokið máli sínu. Störfum þessa þingfundar er lokið. Þingheimur heldur þó um sinn kyrru fyrir á Lögbergi. Þegar að afloknum fundi munu fulltrúar erlendra ríkja flytja kveðjur.

forseti (GSv): Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf frá utanríkisráðuneytinu, undirritað af utanríkisráðherra:

„Utanríkisráðuneytið vill hér með tilkynna yður, herra alþingisforseti, að sendiráð Bandaríkjanna hér hefur skýrt ráðuneytinu frá því, að öldungadeild þjóðþings Bandaríkjanna hafi samþykkt svo hljóðandi ályktun einróma, er fulltrúadeild þjóðþingsins var áður búin að samþykkja í einu hljóði:

„Whereas the people of Iceland in a free plebiscite on May 20 to 23, 1944, overwhelmingly approved the constitutional bill passed by the Althing providing for the establishment of a republican form of government, and, whereas the Republic of Iceland will be formally established on June 17, 1944, now, therefore, be it resolved by the Senate, The House of Representatives concurring that the Congress hereby expresses to the Icelandic Althing, the oldest Parliamentary body in the world, its congratulations on the establishment of the Republic of Iceland and its welcome to the Republic of Iceland as the newest Republic in the family of free nations.“

Vilhjálmur Þór.

Forseti Sameinaðs Alþings, Reykjavík.“

Bréfinu fylgdi íslenzk þýðing, svo hljóðandi: „Með því að íslenzka þjóðin hefur með frjálsu þjóðaratkvæði dagana 20. til 23. maí 1944 samþykkt með yfirgnæfandi atkvæðamun stjórnarskrárfrumvarp, sem Alþingi hafði afgreitt og ráð gerir fyrir stofnun lýðveldisstjórnarforms, og með því að lýðveldið Ísland verður formlega stofnað 17. júní, ályktar öldungaráðið, að fengnu samþykki fulltrúadeildar, að Bandaríkjaþing flytji hér með Alþingi Íslendinga, elzta þjóðþingi veraldar, hamingjuóskir í tilefni af stofnun lýðveldisins Íslands og bjóði velkomið lýðveldið Ísland, yngsta lýðveldið í flokki frjálsra þjóða.“

Ég leyfi mér að taka það fram, að Bandaríkin, æðsta stjórn þeirra, forsetinn og ríkisstjórnin, voru fyrst þeirra velda — og þau eru nú eitt mesta stórveldi heims —, sem hét því fyrirfram að leggja blessun sína yfir það, að gengið yrði til fullnustu , frá sjálfstæðismáli Íslendinga á þessu ári. Í annan stað varð þetta stórveldi til þess að senda hingað með hæstan veg sérstakan fulltrúa forsetans og Bandaríkjastjórnar, til þess að vera viðstaddan og flytja sínar árnaðaróskir á hátíðardegi Íslendinga við gildistöku lýðveldisstjórnarskrárinnar 17. júní s.l. Og nú loks bætast við kveðjur, árnaðaróskir og blessun, sem systurþing Alþingis, Bandaríkjaþing, sendir því viðvíkjandi þessum atburði, sem berst oss að honum afstöðnum og hátíðahöldum, sem vér höfum haft um hönd. Þetta er oss öllum ósegjanlegt fagnaðarefni. Og íslenzka þjóðin mun verða þess minnug; eins og um framkomu þessa stórveldis fyrr og síðar nú þessi ár, sem vér höfum haft saman við það að sælda meir en nokkurt annað ríki.

Ég mun í nafni Alþingis leyfa mér að flytja á tilhlýðilegan hátt kveðju Alþingis til Bandaríkjaþings, árnaðaróskir og sérstakt þakklæti. Því til samþykkis óska ég, að hv. alþingismenn risi úr sætum.

[Allur þorri alþingismanna reis úr sætum.]