18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

143. mál, fjárlög 1945

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég skal fyrst víkja með örfáum orðum að þeirri tilhögun, sem ætlazt er til, að verði á fjárl. í þetta sinn, og hv. 2. þm. S.-M. gerði að umtalsefni. — Það er rétt, sem hann sagði, að það er til þess ætlazt, að fjárlfrv. verði afgreitt nú fyrir jól, enda þótt ákveðið sé, að þing komi aftur saman skömmu eftir nýár, og mætti því segja, að tími væri til frekari athugunar. Það var af tveim ástæðum fullt samkomulag um, bæði milli ríkisstj. og hv. fjvn., að hafa þessa tilhögun. — Önnur ástæðan er sú, að við teljum, að strax eftir nýár verði að liggja fyrir einhver heimild til útborgunar úr ríkissjóði, og ef fjárlfrv. verður ekki tilbúið, verður ríkisstj. að útvega sér heimild á annan hátt. Það er eitt fordæmi fyrir, að þetta hafi verið gert, en aðeins eitt. Ríkisstj. þótti heldur óviðfelldið, þar sem þingið er bráðum búið að sitja í fjóra mánuði, að skaffa sér slíka óvenjulega heimild til að greiða fé úr ríkissjóði, eftir að áramótin væru komin.

Þá var það, held ég, nokkurn veginn einróma álit ríkisstj. og fjvn., að heppilegra væri af öðrum ástæðum að ljúka nú afgreiðslu fjárl. Það er sem sé hætta á því, eftir því sem lengra líður, að útgjaldaliðir fjárl. hækki. Það heldur áfram áróður fyrir hinar og þessar till., og því lengra sem líður á milli umr., þeim mun meiri hætta er á, að látið sé undan þeim áróðri. Og það munu allir hv. þm. vera sammála um, að illa sé bætandi á útgjöld fjárl. Þetta eru sem sagt þær ástæður, sem réðu því, að samkomulag varð um þetta milli ríkisstj. og fjvn. Það varð og samkomulag um það, að inn í fjárl. væru tekin öll þau gjöld, sem nú er kunnugt um, önnur en þau útgjöld við dýrtíðarráðstafanirnar, sem nú liggja fyrir hv. Ed.

Inn í brtt. hv. fjvn. eru nú teknar 41/2 millj. kr. við væntanlega samþykkt launal., þótt það frv. sé, eins og kunnugt er, aðeins komið skammt á veg, því að það er nýlega komið úr n. hjá hv. Ed. Það er gert ráð fyrir, að hækkun útgjalda, ef l. þessi verða samþ., nemi allt að 6 millj. kr. Hins vegar er ætlazt til, að l. gangi ekki í gildi fyrr en 1. apríl, og má því draga frá fjórða hluta ársins. Og ef reiknað er með 6 millj. kr., ættu útgjöldin við samþykkt launal. á næsta ári að verða 41/2 millj. kr. Ríkisstj. þótti sjálfsagt, að þessi útgjöld yrðu tekin inn á fjárlfrv., þrátt fyrir það að frv. sé ekki samþ. enn þá, þar sem gera verður ráð fyrir því samkv. málefnasamningnum milli stjórnarflokkanna, að þetta frv. nái samþykkt í einhverri mynd, þótt ekki sé hægt að segja, hvort það verði samþ. nákvæmlega eins og það liggur fyrir nú.

Ég skal fúslega játa, að hv. 2. þm. S.-M. hefur mikið til síns máls, þegar hann talar um, að eðlilegast hefði verið að taka dýrtíðarráðstafanirnar inn á frv. á sama hátt og útgjöldin við launal. eru tekin. Það er vitanlega æskilegt, að fjárl. sýni sem allra réttasta mynd bæði af tekjum og útgjöldum ríkisins, eftir því sem hægt er að sjá það fyrir. Á þessu hefur oft orðið allmikill misbrestur. Það er ekki fátítt, að mörg l., sem hafa haft allmikil útgjöld í för með sér, hafi ekki verið tekin inn á fjárlfrv. Þess er skemmst að minnast, að í fyrra voru niðurgreiðslur vegna dýrtíðarinnar á innanlandssölu landbúnaðarafurða ekki teknar inn á fjárl., og námu þó, að ég held, 10 millj. kr. Hins vegar voru útflutningsuppbætur, sem námu álíka upphæð, teknar inn á fjárl. En ástæðan til þess, að útgjöldin samkv. dýrtíðarfrv. eru ekki tekin upp í fjárl., er í sjálfu sér ekki sú, að nokkur efi liggi á um samþykkt þess frv. Því hefur verið lýst yfir, enda bundið í málefnasamningi stj., að þetta frv. ætti að ná fram að ganga. Ástæðan er aftur á móti sú, að úr því að þ. á annað borð þurfi að dragast fram yfir áramót, taldi stj, gott að hafa nokkru rýmri tíma til að athuga skatta o.fl., og eftir að ákveðið var að fresta þinginu fram yfir áramót, hætti stj. við að leggja þessi frv. fyrir. Ég þykist vita, að hv. þm. skilji þetta, enda kom fram i ræðum margra hv. þm., að auðvelt mundi vera að afla svo mikilla tekna sem nauðsyn er á til að standast aukin útgjöld, og ætla ég því, að ekki verði heldur kastað þungum steini á stj., þó að hún vildi nota þann tíma, sem auðið er, til þess að ganga frá þessum skattal.

Eins og ég gat um, hefur aðeins eitt frv., sem miðar að tekjuhækkun fyrir ríkissjóð, verið lagt fram, enn sem komið er. Þetta er frv. um tekjuskattsauka á árinu 1945. Þar sem fullt samkomulag varð innan stj. um að bera þetta frv. fram og stjórnarflokkarnir munu því allir standa að því, — og ég hygg, að a.m.k. sumir hv. þm. úr andstöðuflokki stj. muni einnig fylgja því, — þá má telja samþykkt þess alveg efalausa. Virtist mér því ekki, að verið gæti nokkuð athugavert við það, þótt þær tekjur, sem áætlaðar eru samkv. þessu frv., væru teknar inn á fjárl. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. við það, sem ég mun nánar víkja að seinna. En þessi tekjuauki, sem er áætlaður 6 millj. kr., er í sambandi við fleiri brtt., sem stj. stendur að, því að ætlunin er að jafna þann greiðsluhalla, sem á fjárlfrv. er, eins og það liggur fyrir. En eins og ég hef þegar getið um, er tilætlunin sú, að haldið sé utan fjárl. bæði þeim kostnaði, sem leiðir af dýrtíðarráðstöfunum, og þeim tekjum, sem gert er ráð fyrir, að aflað verði með því frv., sem stj. leggur fram.

Hv. 2. þm. S.-M. drap á það í þessu sambandi, að erfitt væri að samþ. fjárlfrv., ef ekki væri tilkynnt, hvernig tekna ætti að afla, þannig að fyrir lægi, að hægt væri að afgreiða það tekjuhallalaust. Ég hef áður lýst yfir, að stj. mun standa að því, að aflað verði tekna til að standa undir dýrtíðarráðstöfunum, og færi svo að ekki yrði unnt að afla nægilegra tekna, til að þær yrðu fullgreiddar á næsta ári, þá mundi stj. heldur útbúa lántökuheimild en eiga nokkuð á hættu um, að ekki yrði staðið við þær skuldbindingar, sem segja má, að ríkið hafi tekið á sig.

Um afgr. fjárl. að öðru leyti vildi ég aðeins segja, að milli mín og hv. fjvn. hefur yfirleitt verið mjög gott samkomulag. Bæði ég og hv. fjvn. höfum reynt að standa á móti hækkunum, eftir því sem auðið hefur verið, enda mega flestar þær hækkanir, sem hv. fjvn. hefur borið fram, heita óhjákvæmilegar, enda þótt einstaka smátill. geti orkað tvímælis. — Aðrar hækkanir en þær, sem standa í sambandi við launal., nema rúmlega 400 þús. kr., og má það ekki hátt teljast, þegar þess er gætt, hvað útgjaldaliðirnir í heild sinni eru háir, og hygg ég, að sjaldan hafi verið bornar fram af fjvn. hlutfallslega lægri till.

Við þessa umr. liggur einnig fyrir mikið af brtt. frá einstökum hv. þm., og skal ég yfirleitt ekki gera þær að neinu umræðuefni. Ég efast ekki um, að sumar þeirra eiga mikinn rétt á sér. Sérstaklega á ég þar við vegatill. ýmsar, sem fram hafa komið. Mér er fullljóst, um sumar þeirra a.m.k., að það væri mesta nauðsyn að bæta úr samgönguerfiðleikunum, en öllum má vera ljóst, að það eru takmörk fyrir því, hve miklu fé er varið til vegagerðar, og ef ég á að láta í ljós skoðun mína, þá hefur verið teflt á tæpasta vað í því efni. Ég hef sagt ýmsum hv. þm., sem hafa talað um þetta við mig, að ef þeir treystu sér til að koma fram með lækkunartill. á móti hækkunartill., þá vildi ég taka það til velviljaðrar athugunar. Hins vegar mun enginn hv. þm. hafa treyst sér til að bera fram slíkar till.

Um brúartill., sem eru allmargar, er það að segja, að eins og hv. samgmrh. hefur upplýst, eru ekki líkur til, að unnt verði að smíða einu sinni allar þær brýr, sem gert er ráð fyrir, að veitt sé fé til í fjárlfrv. Það er hins vegar tilgangslaust og miður heppilegt, eftir því sem á stendur núna, að veita miklu meira fé en gert er nú, aðeins til að auka erfiðleikana með afgreiðslu fjárl. Og þrátt fyrir mikla nauðsyn á fjöldamörgum brúm, er ekki hægt að taka það inn í samþykktina.

Það eru náttúrlega miklu fleiri till., sem bornar hafa verið fram af einstökum þm. og ánægjulegt hefði verið að geta léð fylgi sitt, en hvað sem um frv. annars má segja, eru allir sammála um, að fjárl. séu of há, — og einhvers staðar verður auðvitað að nema staðar. Ég hlýt því að halda mér að því að standa yfirleitt móti frekari breyt. á frv. en þeim, sem felast í áliti n. og brtt., sem ég hef leyft mér að bera fram við frv., og skal ég víkja að þeim örfáum orðum.

1. brtt., sem ég stend að, er á þskj. 743 og er við tekjuliðina. Er þar gert ráð fyrir, að tekjuaukaskatturinn verði hækkaður úr 22500000 kr. upp í 28500000 kr., og er þá meðtalinn sá skattauki, sem flm. frv. þessa gera ráð fyrir, að verði. En hann er áætlaður 6 millj. kr. Nú skal ég þegar, geta þess, að það er ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir, hve miklar tekjur leiði af samþykkt þessa frv. Það liggur auðvitað ekki neitt fyrir um það enn sem komið er, hverjar tekjur manna verði á þessu ári. Eins og hv. þm. hafa séð, þá er þetta frv. að forminu til alveg sama og verðlækkunarskatturinn, sem lagður var á 1942, en skatturinn er aðeins allmiklu lægri en hann var þá. Mun það einnig svolítið mismunandi eftir því, hvar í stiga menn eru, en ég hygg, að lækkunin sé eitthvað nálægt 30 prósent. Sá skattur nam 61/2 , millj. kr., og þar sem gert er ráð fyrir, að tekjur manna verði allmiklu hærri 1944 en 1942, þó að dýrtíðin hafi að vísu líka hækkað nokkuð síðan, þá verkar umreikningurinn til meiri lækkunar nú en áður. Það er sem sagt gert ráð fyrir, að þessi skattur nemi 6 millj. kr., og er sú fjárhæð lögð til grundvallar í brtt. Það er náttúrlega erfitt að segja, hvernig þessi áætlun stenzt, en ég vil þó vona, að tekjuskatturinn sé ekki svo hátt áætlaður, að svo framarlega sem innheimta hans tekst á næsta ári, — en það auðvitað veltur á afkomu atvinnuveganna, — sé hægt að segja, að heildarupphæðin sé óþarflega há.

Þá hefur hæstv. samgmrh. borið fram brtt. um, að símatekjurnar verði hækkaðar um 3 millj. kr., og hefur hann sjálfur gert grein fyrir till. sinni. Skal ég því ekki gera hana að frekara umræðuefni.

3. brtt., sem stj. stendur að og flutt er af mér, er á þskj. 741 og er við 16. gr., C 8. um að tveggja millj. kr. fjárveiting til áburðaverksmiðjunnar falli þar niður, en sama fjárhæð verði aftur tekin sem nýr liður við 22. gr., , XIX. — Ég hef áður gert grein fyrir því máli. Ég tel það ekki svo vel undirbúið, að hægt sé að hefjast handa um að reisa áburðarverksmiðju þegar á næsta ári, og get ég vísað til þess, sem ég hef áður sagt í því efni. En úr því að svo er, að ekki er hægt að sjá beina nauðsyn á því að veita fé skilyrðislaust til byggingar áburðarverksmiðju, nægir að hafa heimild til þess að verja fé í þessu skyni. Það fer auðvitað eftir fjárráðum ríkissjóðs, hvort heimildin verður notuð eða ekki og hvað fram kemur við nánari rannsókn á þessu máli. Ríkisstj. þarf ekki að nota heimildina, nema miklar líkur verði fyrir því, að hér sé um fyrirtæki að ræða, sem gæti orðið til hagnaðar, ekki aðeins fyrir ríkið, heldur einnig fyrir atvinnuveginn, sem ætlazt er til, að það verði einkum að gagni.

Síðasta brtt., sem ég hef gert við fjárl., er svo eiginlega formsatriði. Það er brtt. XXI. á þskj. 743, um að fella niður allar ráðgerðar fyrningar á fasteignum ríkissjóðs við samningu ríkisreiknings fyrir árið 1945. Ég skal taka það fram, að till. er flutt eftir ósk ríkisbókhaldsins, og fylgir henni grg. frá endurskoðendum, svo hljóðandi:

„Þessi till. kemur fram vegna þess, að ákveðið hefur verið að bókfæra allar fasteignir ríkissjóðs á ríkisreikningi 1944 með hinu nýja fasteignamati, en ástæðulaust að færa þær með lægra verði. Svo mundi verða, ef afskriftum yrði haldið áfram, en ekki tími nú til að breyta fjárlfrv. að þessu leyti.“

Ég vildi þá næst gera stutta grein fyrir því, hvernig mér virðist fjárlfrv. horfa við, ef brtt. fjvn. og þær brtt., sem stj. stendur að, verða samþ., en aðrar brtt. ekki. Nú er ég ekki svo bjartsýnn að gera ráð fyrir því, að engin brtt., sem þm. bera fram, verði samþ. En meðan maður veit ekki um, hvað verður samþ., er ekki hægt að fara mjög ýtarlega út í það yfirlit. Þess er að vænta, að þær brtt. aðrar en brtt. n., sem nái samþykkt, verði ekki svo miklar, á,ð það skipti verulegu máli fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu. Um rekstraryfirlitið er það að segja, að samkv. fjárlfrv., eins og það liggur nú fyrir eftir 2. umr., eru tekjur á rekstrarreikningi 99,2 millj. kr. Breyt., sem leiðir af hækkun tekjuskattsins, nemur 6 millj. kr., og hækkun á símagjöldum 3 millj. kr., samtals 108,2 millj. kr. Ríkisútgjöldin eru aftur, eins og frv. liggur nú fyrir, 96,6 millj. kr., hækkun vegna launalaga og vegna brtt. fjvn. 4,7 millj., samtals 101,3 millj. kr. En frá dragast, ef till. mín um tilfærslu á áburðarverksmiðjunni verður samþ., 2 millj. kr., þannig að ríkisútgjöldin verða samtals 99,3 millj. eða rekstrarafgangur tæpar 9 millj. kr. — Um sjóðsyfirlitið er það að segja, að innborganir eru samkv. frv. 100,9 millj., auknar tekjur 9 millj., samtals 109,9 millj. kr. Útborganir eru samkv. frv. 106,6 millj., aukin útgjöld samkv. till. fjvn. 4,7 millj. kr., samtals 111,3 millj. kr. Frá dragast 2 millj. kr. vegna áburðarverksmiðjunnar, og verður þá útkoman 109,3 millj. kr. Rekstrarafgangur samkv. þessu ætti því að verða um 600 þús. kr. En þess er að gæta, að auk till. fjvn. má telja víst, að samþ. verði brtt. samgmn. á þskj. 701, sem nemur um 200 þús. kr., og eru þá sjóðsútgjöldin 109,5 millj. kr. og afgangur 400 þús. kr. Þá sé ég, að fram er komin till., sem form. allra þingflokka standa að, um það að leggja 350 þús. kr. til dönsku samskotanna, og má gera ráð fyrir, að sú till. verði samþ. Eru þá innborganir og útborganir á sjóðsyfirliti orðnar nokkurn veginn jafnháar. Þetta er gott, að hv. þm. hafi hugfast, þegar brtt. eru bornar fram við 3. umr. og koma til atkv. Eins og ég hef tekið fram, eru útgjöld vegna dýrtíðarráðstafana ekki talin með í frv. En það er vitanlega ástæða til þess, þó að ekki sé hægt að gera út um það mál nú, að gera sér grein fyrir því, hve miklu þau útgjöld mundu nema. Því miður er það svo, að það er mjög erfitt að áætla, hve miklu þessi útgjöld muni nema á næsta ári. En eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, er kjötframleiðslan sem næst 5 þús. smálestir. Það er sennilegt, að neyzla innanlands verði mikil á þessu ári og framan af næsta ári, og stafar það af því, hvað lítið hefur verið um nýjan fisk í Reykjavík í haust. Það hefur því þótt nægilegt að áætla, að 1000 smál. kjöts yrðu fluttar út. Það er ekki með öruggri vissu hægt að segja um það, hve miklar uppbætur þarf að greiða á kjöt, sem neytt er innan lands, en það er almennt reiknað með 3 kr. á kg. Um mjólkina er það að segja, að áætlað hefur verið, að 22 millj. lítra þyrfti að verðbæta, og eru uppbæturnar áætlaðar 20 aurar á lítra. Það lætur því nærri, að uppbæturnar innan lands á kjöt og mjólk verði í kringum 17 millj. kr., eins og hv. 2. þm. S.–M. gat til, og með uppbótum á útflutt kjöt verði þetta því samtals rúmlega 20 millj. kr. Hins vegar má geta þess, að það er ekki vonlaust, að upp í þessi útgjöld komi nokkrar tekjur vegna innflutnings á smjöri, en á þessu stigi málsins er ekki unnt að geta sér neitt til um, hvað miklar þær tekjur kunni að verða. Það hefur þegar verið greitt lítils háttar í þessu skyni, og stj. vinnur að því að fá meira smjör frá Ameríku. Það er því samkv. þessu ekki svo mjög mikill vafi á því, hve miklu uppbæturnar á kjöt og mjólk muni nema, þær munu verða einhvers staðar á milli 17–21 millj. kr., þegar frá er dreginn hugsanlegur hagnaður af innflutningi smjörs.

En þegar að því kemur að áætla uppbætur á ull og gærur, er óvissan langtum meiri. Eins og kunnugt er, hefur ull ekki verið flutt út í tvö ár, og er það af þeim ástæðum, að talið hefur verið, að hægt mundi að ná hagkvæmari mörkuðum en þeim, sem nú standa opnir, þegar markaðir opnast að nýju. Að svo stöddu hefur stj. engar ákvarðanir tekið um það, hvort ull verði flutt út á næsta ári, en hún mun þó ekki verða flutt út, fyrr en frekari rannsókn hefur farið fram á því, hvort einhverjar vonir standa til þess, að unnt yrði að fá fyrir hana betra verð, þegar markaðir opnast, en hægt er að fá fyrir hana nú. — Um gærur er það að segja, að tilraunir standa yfir um sölu þeim, en þeim samningum er ekki svo langt komið, að með nokkurri vissu sé hægt að vita, hvaða verð muni vera hægt að fá fyrir þær. Það verður sjálfsagt keppt að því af hálfu stj. og þeim n., sem með þessi mál fara, að ná sem hæstu verði fyrir þessar afurðir, en hvernig þær tilraunir takast, er ekki hægt að segja um að svo stöddu. En á því, hvernig þær tilraunir takast, veltur það, með hve miklum fjárhæðum þarf að reikna til uppbótar á þessar vörur, og það getur sannast að segja oltið á mörgum millj. kr. Hv. 2. þm. S.-M. talaði um, að 25 millj. væri lægsta fjárhæð, sem reikna mætti með til verðuppbóta. Það má vel vera, að það sé rétt, um það er á þessu stigi ekkert hægt að fullyrða, en það er óhætt að fullyrða„ að uppbæturnar fari yfir 20 millj. kr., en það er ekki hægt að segja um, hvað mikið þær fari fram yfir. En Alþ. verður svo að taka ákvörðun um það, hve mikið fé það ætlar til uppbótanna og hvort það vill láta afla þess með sköttum eða vill heldur veita stj. heimild til lántöku í því skyni. Ef reiknað væri með því, að dýrtíðarráðstafanirnar kostuðu 25 millj., eins og hv. 2. þm. S.-M. reiknar með, þá væru rekstrarútgjöldin komin upp í 124 millj. kr., eftir því sem ég sagði áðan, og greiðslurnar upp í 135 millj. kr. Þó að þetta séu nokkru lægri fjárhæðir en hv. 2. þm. S.-M. reiknar með, þá kemur mér ekki til hugar að neita því, að þessar fjárhæðir eru allt of háar, og það er náttúrlega hæpið, hvað lengi verður staðið undir slíkum byrðum. Það er alveg augljóst mál, að ef einhver breyt. yrði á verðlagi útflutningsafurðanna, þá er ekki hugsanlegt að ná svo miklu fé í ríkissjóð sem þyrfti til þess að standast áætluð útgjöld. Ef maður miðar þessa útgjaldaaukningu við síðasta normalár, 1939, þá kemur það í ljós, að útgjöldin eru nú fullkomlega sexföld á við það, sem þau voru þá. Að sjálfsögðu liggja engar upplýsingar fyrir um það enn þá, hverjar þjóðartekjurnar eru á þessu ári, en ég fyrir mitt leyti er í nokkrum vafa um, hvort aukning þeirra hefur ekki orðið hlutfallslega meiri en útgjaldaaukning ríkissjóðs. Það má því kannske segja, — þó að hækkunin sé mikil, — að þetta sé ekki eins illt og fljótt á litið kynni að virðast.

Að öðru leyti vil ég segja það um ræðu hv. 2. þm. S.-M., að þó að margt af því, sem hann sagði, væri rétt og ómótmælanlegt, þá hefði hann eins getað haldið þá ræðu sína við 1. umr. eins og við 3. umr. Eins og ég hef áður bent á, er þetta frv., sem nú liggur fyrir hæstv. Alþ., ekkert annað en rökrétt afleiðing af því, sem hér hefur gerzt á síðustu árum. Það er þess vegna ekki rétt að ásaka núv. stj. fyrir það, hvernig komið er í þessum efnum. Hins vegar er mér ljóst, að stj. hlýtur að beina athygli sinni fyrst og fremst að því að reyna að koma fjárhag ríkisins aftur á réttan kjöl, og ég hygg, að eina vonin til þess, að svo megi takast, sé sú, að áform stj. um aukningu atvinnutækjanna í landinu og um aukningu framleiðslu landsmanna megi takast. Í þeim efnum geta margar leiðir komið til greina, m.a. kannske sú, sem hv. 2. þm. S.-M. benti á, en ég er þess fullviss, að engin ein leið er einhlít, ef við eigum að sleppa klakklaust út úr því fjármálaástandi, sem við erum í nú. Við verðum umfram allt að beina athyglinni að því að auka framleiðsluna í landinu.

Ég skal svo að endingu aðeins minnast á brtt., sem sami hv. þm. flytur ásamt fleirum um það að taka inn á heimildagrein, 22. gr., fjárveitingu til að kaupa land á Egilsstöðum og til að kaupa nýtt strandferðaskip. Ég minnist á þessar till. einar, af því að það hefur sætt gagnrýni, að svipaðar till. voru felldar við 2. umr. fjárl. — Um fyrri till. er það að segja, að ástæðan til þess, að ég a.m.k. gat ekki léð henni fylgi, var sú, að eins og hún liggur fyrir, tel ég engar líkur til þess, að þessi heimild yrði notuð, og það er af þeim ástæðum, að ekki er líklegt, að samkomulag næðist um kaup á þessum landshluta. Það er kunnugt, að á s.l. ári var tekin úr þessari jörð landspilda undir flugvöll. Hún var, að ég held, metin á 90 þús. kr., og hygg ég, að eigandi Egilsstaða hafi verið óánægður með þau kaup. Það er því ekki sennilegt, að samkomulag næðist um kaup á öðrum landshluta úr jörðinni. Ég held því, að það þyrfti miklu ríkari heimild til, ef þetta ákvæði ætti að verða annað en pappírsákvæði.

Um hina till., 30. till., um heimild til kaupa á strandferðaskipi, er það að segja, að ekki eru minnstu líkur til, að stj. ætti á næsta ári kost á því að kaupa strandferðaskip, sem hæfilegt þætti til þess að annast strandferðaflutninga. Það sýnist þess vegna tilgangslaust að fela stj. slíka heimild, og verður ekki séð, að slíkt sé gert í öðru skyni en áróðursskyni. Ég sé ekki, að það sé nein ástæða til þess fyrir stj. að stuðla að framgangi slíkrar till. En kæmi það hins vegar fram, að stj. ætti kost á að kaupa slíkt skip, sem að dómi sérfróðra manna væri heppilegt til strandferða, þá mundi stj. hafa einhver ráð með að fá heimild til slíkra kaupa, þó að þessi till. næði ekki fram að ganga.

Ég vildi aðeins gera grein fyrir því, að ég greiði ekki atkv. með þessum till.