07.12.1944
Efri deild: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég stóð upp, því að mér skilst við frekari umr. málsins, að ætlunin sé sú, að þessari stofnun sé haldið uppi hvort sem er. Eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði, eru þessi tvö mál þannig byggð upp, að meiningin er sú, að háskólinn á að standa undir kostnaðinum af þessum sérfræðingi við manneldisráð. Það er raunar ráðgert, að kostnaður við þetta manneldisráð verði greiddur af ríkissjóði, en þar er ekki gert ráð fyrir föstum launuðum sérfræðingi. Fastur starfsmaður er fyrst ráðinn með þessari löggjöf um kennara í manneldisfræði við háskólann, og mér finnst alveg auðsætt, að launakostnaður hans verði felldur inn í venjulegan kostnað af háskólanum og háskólinn eigi, eftir því sem þessi löggjöf stendur til, ekki neina kröfu á endurgjaldi frá manneldisráði. — Þetta getur svo ekki breytt því, hvort menn telja þörf á að efna til þessa starfs eða ekki. En það er alveg rangt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að þetta mál væri að þessu leyti háskólanum óviðkomandi. Það er einmitt til þess ætlazt, að launin verði talin háskólanum til kostnaðar.

Annað mál er svo það, hvort háskólinn telur þetta æskilegt eða ekki. En við skulum gera okkur ljóst, að hér er um vöxt háskólans að ræða, og það er eitt við þetta, sem ekki hefur verið drepið á áður. Það er, að venjan er sú um háskólakennara, að ekki er tekið fram, hvað þeir eigi að kenna hver um sig, heldur eru í hverri deild svo og svo margir prófessorar og skipta þeir svo störfum milli sín. Undantekning frá þessu er norrænudeild háskólans, en þar fyrir utan er það látið alveg opið, hvernig kennslukraftarnir í einstökum deildum háskólans eru nýttir. Það er undantekning, ef stofna á kennsluembætti í ákveðinni grein, og háskólinn hefur í raun og veru heldur leiðinlega reynslu einmitt af þessu fyrirkomulagi. — Við munum allir eftir deilum þeim, sem urðu í sambandi við dósentsembætti í grísku og kennslu í vinnuvísindum, sem voru stofnuð með ekki ósvipuðum hætti, annað beinlínis bundið við mann persónulega. Þetta varð að eilífum ásteytingarsteini.

Mér finnst út af fyrir sig, ef háskólinn á að hafa fullt gagn af þessu, þá sé miklu skynsamlegra að fjölga bara kennurum í læknadeild um einn mann, og þá hefur læknadeild háskólans kennslukrafta þess manns til ráðstöfunar. Það væri svo hægt að leggja á deildina þá kvöð, að einn hennar maður væri ráðunautur ríkisstj. í þessum sérstöku efnum, án nokkurrar sérstakrar borgunar. Það skilst mér, að mundi vera skynsamlegur háttur. Og ég vildi nú beina því til hv. menntmn., að hún taki til athugunar, hvort ekki er rétt að bæta inn í háskólafrv. á þskj. nr. 308 ákvæði um þetta. — Annars virðist mér það frv. ákaflega einkennilega úr garði gert og að það þurfi frekari undirbúnings við. Því að 1. gr. þess byrjar svona, með leyfi hæstv. forseta: „1. málsgr. 1. gr. l. 36/1909 og 1. gr. l. 21/1936, sbr. 1. gr. l. 78/1941, orðist svo.“ Ég minnist þess ekki, að ég hafi séð með einu frv. jafnmarga dólga að velli lagða eins og hér á að gera, þar sem með einni lítilli gr. eru orðaðar um, að því er virðist, þrjár gr. í mikilsverðum l. Mér virðist, úr því að verið er með breyt. á háskólal. á annað borð, rétt að fella þá breyt. inn í l. í einu lagi og koma þessu í skaplegt horf. Og ég treysti því, að hv. menntmn. taki þetta til athugunar og felli þá þetta inn, sem um er að ræða í frv. því, sem hér liggur fyrir. Og ég tel, úr því sem komið er, rétt og sanngjarnt að verða við óskum um að stofna þetta embætti. Það er til ágætur og hæfur maður í það, og það er þörf á þessu. En ég tel ástæðulaust að binda það í l., að kennslukrafta hans við háskólann skuli ekki nýta nema að þessu örlitla leyti, til þess að kenna heilbrigðisfræði, sem mér er sagt, að sé örlítil kennslugrein. Mér virðist, að það eigi að vera með hann eins og aðra prófessora, að hann verði að kenna þau fög, sem deildinni kemur saman um að láta hann kenna. Hitt sýnist mér ekki koma til greina, að þessi maður fái hærri laun en venjulegir prófessorar, og ekki, að hann fái sams konar laun eins og forstöðumaður Landsspítalans. En ef menn álíta, að slíkt komi til greina, þá því frekar er ástæða til þess að leggja fullan kennslustundafjölda á manninn.