22.11.1944
Neðri deild: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

120. mál, fólksflutningur með bifreiðum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. — Við umr. síðast, sem ekki varð lokið, komu fram frá hæstv. samgmrh. nokkrar athugasemdir við frv. og niðurstöðu n., eða sem þó öllu heldur mætti telja fyrirspurnir um skilning n. á ýmsum atriðum. Það var í þrennu lagi, sem hæstv. ráðh. gerði sínar aths. eða óskaði frekari skýringa. Í fyrsta lagi um það, hvort í frv. væri beinlínis ætlazt til eða lagt fyrir, að hið opinbera skyldi, ef fullnægt yrði 4. gr. frv., með einum eða öðrum hætti, standa fyrir eða leggja út í að byggja afgreiðslustöðvar fyrir sérleyfisbifreiðir. — Því er nú til að svara, að frv. þetta ber það ekki með sér, og mun hvorki hafa verið tilgangur ríkisstj., sem lagði þetta frv. fyrir, né heldur þeirra, sem upptök áttu að þessari breyt. á l., og í þriðja lagi heldur ekki ætlun samgmn:, sem fjallaði um málið.

Í 4. gr. frv. er ráðuneytinu heimilað að taka í sínar hendur afgreiðslu sérleyfisbifreiða o.s.frv: Þetta er heimild, en engan veginn hefur frv. farið inn á að leggja fyrir með lagaákvæði, að ráðuneytið skuli taka í sínar hendur þessa afgreiðslu, né heldur, að það skuli ráðast í að byggja eða standa fyrir byggingu afgreiðslustöðva, eins og 6. gr. tekur nú til í öðrum skilningi. En 6. gr. segir til um það, hvernig verja skuli sérleyfisgjaldinu, sem nú er kallað. Og þetta gjald, sem í upphafi var ákveðið í frv. 10% af andvirði afhentra farmiða, það verður eftir till. n. 7%. Og það hefur hæstv. ráðh. fallizt á. En upphaflega var gjaldið 5%, sem teknir voru til sérstakra nota eftir sérstökum l. um ferðamannaskrifstofu til viðhalds þeirrar stofnunar. En eftir að hún lagðist niður, var með ályktun gerð sú breyt., að þetta gjald héldi sér og af því mætti greiða til þess að styrkja þá, sem byggðu eða gerðu upp eða héldu uppi gististöðum fyrir ferðamenn. Af þessu fé, sem safnazt hefur og hefur nú á ári verið yfir 100 þús. kr., nærri 150 þús. kr., hefur verið notuð fúlga árlega til þessa. Og það taldi hæstv. ráðh., að væri æskilegast að héldi sér, heimildin væri áfram til, en honum fannst hún ekki nógu glöggt fram tekin í 6. gr., þar sem segir, að sérleyfisjaldinu skuli varið til að greiða kostnað við eftirlit og stjórn fólksflutninga með bifreiðum, samkv. lögum þessum svo og til bygginga afgreiðslustöðva fyrir sérleyfisbifreiðar, enda komi ríkisstjórn og sveitarstjórnir sér saman um fjárframlög í þessu skyni. — Hér er aftur vikið að þessu á þann veg, að ef til þess komi, að byggðar verði afgreiðslustöðvar meira eða minna á vegum þess opinbera, þá sé það nú fyrst og fremst í samráði eða samlögum fleiri aðila, sem sé ríkisvaldsins og þá hlutaðeigandi bæjaryfirvalda. Og má segja, að það sé eðlilegt, því að þar hafa nú allar þessar bifreiðar sínar stöðvar, og hvert bæjarfélag hefur þar mikið með að gera. En með þessu ákvæði er engin skylda heldur lögð á herðar ríkisvaldinu um að ráðast í þetta. Aðeins skal gjaldinu að einhverju leyti ætlað að verða til þessa, safnast til þessa til nota á sínum tíma. Eftir samtali við hæstv. ráðh. býst ég við, að þetta sé fullnægjandi. Því að ef 4. gr. frv. verður framkvæmd á þann veg, að ráðuneytið taki í sínar hendur afgreiðslu sérleyfisbifreiða, þá ræki að því, að ríkið yrði að sjá fyrir afgreiðslustöðvum. Og þá vaknar spurningin um að reisa þær. En þá yrði um svo mikinn kostnað að ræða, að þetta mundi hrökkva lítt, nema fleiri ára söfnun kæmi til, eins og hæstv. ráðh. tók fram, og yrði þá ríkisstjórnin að afla sér heimildar hjá Alþ. til þess að ráðast í þetta og til þess að fá fullnægjandi fjárfúlgur til þessa. Þetta er allt óundirbúið — og má segja, að fyrstu drög að þessum undirbúningi séu þessar heimildir, sem frv. veitir, og ekki heldur meira. Og hygg ég, að það megi nægja um sinn, með því að þetta frv. hefur með höndum svo margvíslegt annað efni, sem nauðsynlegt er, að löggjöf sé skýr um. Og meira að segja er nauðsynlegt að hraða afgreiðslu málsins. En hitt mundi nokkuð orka tvímælis og yrði þá kannske að hafa meiri háttar undirbúning, ef ætti að fyrirskipa slíkar framkvæmdir eins og hér koma til orða.

En nú vill n. verða við því — og það var annað atriðið — sem hæstv. ráðh. gat um, að rýmka heimild 6. gr. um það, hvernig verja megi sérleyfisgjaldinu. Ég tel, að það mundi vera kleift fyrir ríkisstjórnina með þeirri ályktun, sem er í gildi, að halda þessu eitthvað áfram, a.m.k. næsta ár, að greiða til gistihúsanna. En vafasamt getur það verið, og þess vegna rétt, úr því að óskir koma fram um það af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, og getur verið nauðsynlegt, ef ekki er veitt sérstakt fé úr ríkissjóði, að af þessum fjármunum megi ætla eitthvað til gistihúsastyrkja. Og mun ég fyrir hönd samgmn. flytja skrifl. brtt. um það, að í 6. gr. á eftir orðunum: „sérleyfisgjaldinu skal“ í 3. málslið komi: aðallega. Sem sé fénu skal verja aðallega til þess, sem hér er á minnzt í greininni. En með þessari breyt. er sagt, að það megi verja því einnig til einhvers annars, og sérstaklega hef ég þá í huga einmitt styrki til gistihúsanna í landinu.

Hið þriðja, sem hæstv. samgmrh. gerði aths. eða fyrirspurn um, var brtt. n., eins og hún kemur fram í nál. á þskj. 458 undir IV. lið, sem er brtt. við 7. gr. frv., sem sé að eins og 7. gr. er, þar sem er algert nýmæli, að ráðuneytið geti falið ákveðinni stofnun að hafa með höndum yfirumsjón o.s.frv. eins og þar greinir, þá vildi meiri hl. n. ekki fallast á það, með því að n. hefur verið þeirrar skoðunar, að það sé bezt nú um sinn að raska ekki mikið því, sem verið hefur í þessu efni. Hún telur nóg, að póststjórnin, sem hefur haft þetta með höndum og hefur haft sinn fulltrúa í þessum málum, muni bezt orka því að fara með þau fyrst um sinn. Og mér skilst, að hæstv. ráðh. hafi ekkert við þessa brtt. n. að athuga nema það, að með brtt. n. sé þetta of einstrengingslega bundið, og hann óskar ekki, að brtt. sé sjálfri breytt, heldur að inn í hana komi viðari heimild. Hefur n. fallizt á þetta, og mun ég fyrir hönd n. bera fram skrifl. brtt. við IV. liðinn, þannig, að á eftir orðunum: „Ráðuneytið getur falið póststjórninni“ komi: eða annarri stofnun. Og þá er heimildin orðin það víð, að það má samkv. þessari lagagr. hugsa til að fela þetta öðrum aðila. En með stofnun er þá átt við, að það sé ekki einstaklingur, heldur eitthvað, sem hefur meira um sig en það, — sem sé stofnun, sem í almenningsþarfir ætti að gæta þessara mála. En ég vil vænta þess og veit, að hæstv. samgmrh. verður á sömu skoðun, að ekki verði ráðizt í það að finna til þess aðra stofnun, fyrr en samráð gæti orðið um það milli póststjórnarinnar og hæstv. ráðh. Og póststjórnin hefur bezt tök á því, enda mun það kostnaðarminnst að öllu leyti að fela henni framkvæmd þessa. Með þessari breyt. vænti ég, að fullnægt sé ágreiningi, sem varð innan n., þar sem einn hv. þm., hv. þm. V.-Sk., hafði fyrirvara. Og ég vænti, að með því, sem hér er til stofnað og hann hefur fallizt á, sé hann þá ánægður eftir atvikum.

Að öðru leyti tel ég ekki þörf á að fara út í mál hv. þm. V.-Sk. Hann taldi ekki rétt að fela póststjórninni þetta eins og gert var, eða þá a.m.k. ekki alls kostar, heldur ætti að stofna til annars aðila, sem yrði þá settur á laggirnar, svo sem skrifstofa eða fulltrúastofnun fyrir ríkisvaldið til þess að fara með málið. En mér skilst, að með þessari tilhliðran sé fenginn æskilegur jöfnuður á málin og allir verði nú sammála. — Vænti ég svo, að málið þurfi ekki að tefjast frekar af þessum sökum, og mun ég nú afhenda hæstv. forseta hinar skrifl. brtt. mínar.