02.02.1945
Sameinað þing: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

251. mál, fjáraukalög

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Nál. á þskj. 1005 er stutt. Þar segir aðeins, að fjvn. hafi borið frv. saman við fjárl. ársins 1941 og hafi ekki fundið neitt við það að athuga og leggi því til, að frv. verði samþ. Þrátt fyrir það að n. hafi ekki gefið út nema stutt álit, hefur þó n. í heild, og þó einkanlega ég, ýmislegt um form þessa frv. að segja. Ég býst við, að hv. þm. undrist ekki, þó að þessi fjáraukal. séu nokkuð há, eða nærri 20 millj. kr., því að þetta var annað stríðsárið, og urðu mörg óvænt útgjöld á því ári. Þó er að minni hyggju og allra nm. ýmislegt í frv., sem allmikið orkar tvímælis um, að stj. sé skyldug til þess að leita samþykkis á. Það hefur verið litið ,svo á af mér og mörgum fleiri þm., að ríkisstj. beri ekki skylda til að leita samþykkis þingsins á öðrum fjárhæðum en þeim, sem ekki hafa áður fengizt samþ. Þar af leiðandi mundi ekki eiga að taka inn á fjáraukalög fjárhæðir, sem beinlínis eru veittar sem heimildir í sérstökum l., sem eru ákveðnar, án þess að gerð sé nokkur áætlun um fjárhæðina, og liggur þess vegna fyrir lögleg samþykkt fyrir greiðslum vegna slíkra heimilda. Mjög stórar fjárhæðir á þessum fjáraukal. eru einmitt þannig til komnar, að þær eru samkvæmt l., sem samþ. hafa verið eftir að frá fjárl. hefur verið gengið. Ég tek þetta fram sem bendingu til hæstv. stj. og þings til að fara eftir framvegis. Yfirskoðunarmenn gera venjulega till. um, hvað taka skuli á fjáraukal., að sönnu fylgir ekki ríkisreikningnum 1941 sú till., en ég hef fengið hana til athugunar hjá fjmrn. og borið tölurnar þar saman við frv., og það er í góðu samræmi. Ég vildi þess vegna beina því sem aths. til yfirskoðunarmanna, hvort það sé ekki réttur skilningur, að stj. beri skylda til að taka inn á fjáraukalög aðrar fjárhæðir en þær, sem til eru löglegar heimildir fyrir áður. Það hafa iðulega komið fyrir nú á þessum tímum margs konar fjárgreiðslur, sem ekki hefur verið vitað um, þegar fjárl. voru samþ. fyrir það ár, og þar af leiðandi verið leitað samþ. um þær síðar. En það er þó ekki hægt að neita því, að það er orðið algengt að greiða fé úr ríkissjóði upp á þessar heimildir, án þess að það sé brýn nauðsyn. Ég vil taka það til dæmis, að ég hygg, að það komi fyrir, við skulum segja, að flokksstjórnum kæmi saman um einhverjar fjárgreiðslur, þá mundi ríkisstj. vitanlega greiða slíka fjárhæð, en það þýðir vitanlega ekki að koma með fjáraukal. eftir að greiðslan hefði farið fram, því að vitanlega mundi Alþ. ekki fara að gera ríkisstj. ábyrga fyrir slíkum greiðslum. Bezt væri því að láta slíkar greiðslur bíða, og greiðsla færi fram eftir á, en það yrði vitanlega langt að bíða, ef það ætti að bíða eins lengi og hér er gert. Ég vil taka það fram, að þó að þetta frv. sé í alla staði frambærilegt frá stj. hálfu, er það ótækt í framtíðinni að fá fjáraukal. 4 árum eftir á. Þetta má ekki skoða sem neina sérstaka aths. við frv., en að sjálfsögðu er þetta gagnrýni á stj., enda er önnur stj. nú en þá var. Þetta er einungis sagt upp á framtíðina, og í sambandi við það vildi ég taka það fram, að það horfir ískyggilega um vöxt fjárl., hversu títt það er orðið að gera ríkisstj. að greiða stórar fjárhæðir og ganga í gífurlegar ábyrgðir með einföldum þál. Það er náttúrlega form, sem ekki samrýmist stjórni. og er gersamlega óviðunandi. En eins og ég tók fram, er þetta ekki sagt sem gagnrýni á frv. eða stj., sem lagði það fyrir, því að út á það hefur n. ekkert að setja eins og fram er tekið á þskj. 1005.