29.11.1945
Efri deild: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

22. mál, sýsluvegasjóðir

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð seint að ræða þetta mál við 3. umr. Ég vildi þó gera nokkrar aths., sem ég hef ekki getað komið fram með fyrr, þar sem ég hef ekki átt kost á að vera við umr. Vil ég biðja þm. afsökunar, ef ég skyldi koma með eitthvað, sem áður hefur verið sagt.

Ef frv. það, sem hér liggur fyrir, verður samþ., þyrfti að minni hyggju að áætla mun hærri upphæð í fjárl. til vegamála en nú er gert. Undanfarið hafa borizt beiðnir frá ýmsum sýslufélögum um að hækka framlög til sýsluvega. Þetta hefur verið gert, en þó þannig, að hlutföll hafa ekki raskazt. Ef að því ráði væri horfið, sem hér er lagt til, sem ég tel ekki óeðlilegt, þá vildi ég mega vænta þess, að ekki yrði tekið svo og svo mikið af vegum af sýslusjóðunum yfir í þjóðvegatölu. Hér hefur komið fram frv. um að taka allmarga vegi í þjóðvegatölu. Það er eðlilegt, að kröfur manna um vegi vaxi, en útgjöld ríkisins til vegamála eru að verða það há, að vafasamt er, hvort hægt er að gera hvort tveggja í senn, að hækka framlög til sýsluvega og taka marga nýja vegi í þjóðvegatölu. Ég er ekki með þessu að mæla gegn þessu frv., en vil að hv. þdm. geri sér þetta ljóst.