05.10.1945
Sameinað þing: 2. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

Kveðjur til Norðurlandaþinga o. fl.

forseti (JPálm) :

Í tilefni þess, að Ríkisþing Danmerkur kom saman 10. maí s. l., sendi þáv. forseti sameinaðs Alþingis, Gísli Sveinsson, forsetum þingsins (þjóðþings og landsþings) svo hljóðandi heillaskeyti:

„Fyrir hönd Alþingis Íslendinga sendi ég Ríkisþingi Danmerkur beztu heillaóskir vegna hins endurheimta frelsis og læt jafnframt í ljós hlýja von og ósk um gifturíka framtíð hinni dönsku þjóð til handa og gott samstarf milli bræðraþjóðanna.“

Svo hljóðandi svarskeyti barst frá forsetum Ríkisþingsins þ. 18. s. m.:

„Ríkisþing Danmerkur vottar Alþingi alúðarþakkir fyrir kveðju þess og góðar óskir í garð dönsku þjóðarinnar í tilefni af því, að Danmörk hefur endurheimt frelsi sitt, og tekur Ríkisþingið undir hinar einlægu óskir Alþingis um farsæla samvinnu milli bræðraþjóðanna.“

Enn fremur sendi forseti (GSv) Stórþingi Noregs, þegar það kom saman 14. júní s.l., svo látandi kveðjuskeyti: .

„Ég óska hinu frjálsa norska Stórþingi heilla og blessunar. Íslendingar fagna því, að samvinna geti aftur hafizt milli frændþjóðanna beggja, sem nú njóta fulls frelsis.“

Þessu skeyti svöruðu forsetar Stórþingsins þ. 17. júní á þessa leið :

„Stórþing Noregs sendir Alþingi kveðju á frelsisdegi Íslands, með þökk fyrir ógleymanlega hjálpsemi og örlæti, og fagnar hinni bróðurlegu samvinnu, sem fram undan er, í fullu trausti þess, að aldrei týnist vegur milli vina.“

Þá hefur sama forseta borizt bréf frá O. Jul. Frodesen, presti í Farsund í Noregi, ásamt nokkrum ljóðum og lagi, er hann hefur gert í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga, og hefur forseti þakkað bréfið.