20.12.1945
Neðri deild: 58. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1946

Jörundur Brynjólfsson:

Í sjálfu sér er ekki ástæða til að fjölyrða svo mjög um þetta mál, ef ekki hefði gefizt tilefni til hjá hv. síðasta ræðumanni. Hafi hæstv. forsrh. fundizt ég segja fullmikið í ræðu minni, þá held ég, að hann hafi ekki síður sagt fullmikið. — Hafi það dæmi, sem hæstv. forsrh. nefndi, verið svona, eins og hann lýsir því, þá held ég, að það sé ekki eftirbreytnisvert. Sé um einhverja skuld að ræða, þá heldur forsrh., að það hljóti að vera á mína ábyrgð. Enda þótt ég stjórnaði fundum hér í hv. deild þá, skiptir það ekki miklu máli, en auðvitað hafði ég mínar þingmannsskyldur eins og aðrir hv. þm. En það er annar maður, sem hefur hér ríkari skyldur, og það er hæstv. forsrh. Þetta mál heyrir fyrst og fremst undir hann, og það er hans sómi, að því sé vel skipað. — Ég vil ekki fullyrða, hvort það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan um þingfrestunina 1933, því að langt er um liðið, og maður má ekki treysta um of á sjálfan sig. En sé þetta rétt, veit ég ekki, hvort æskilegt sé að styðja mál sitt með slíku dæmi. Ekki dregur það úr furðu, er hæstv. forsrh. viðurkennir rök hv. 10. landsk., að störfum þingsins væri betur farið, ef þing kæmi fyrr saman, og þarf ég ekki að endurtaka það. Hæstv. forsrh. var að tala um það, að ég hefði verið stórorður. Um þetta atriði vil ég ekki mikið segja, en ég býst við, að ef aðrar stéttir hefðu verið teknar svipuðum tökum og bændastéttin, mundu fulltrúar þeirra ekki hafa viðhaft vægari orð en við fulltrúar bænda.