08.02.1946
Efri deild: 62. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

62. mál, þjóðjarðasala og kirkjujarða

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gat ekki orðið samferða hv. meðnm. mínum í því að mæla með, að þetta frv. verði að l. Í fyrsta lagi af þeirri ástæðu, að ég álít, að það sé alveg röng og óheppileg braut, sem haldið er inn á með því að selja þær jarðeignir, sem enn eru í eigu hins opinbera. Það er meginástæðan til þess, að ég get ekki greitt þessu frv. atkv. mitt. Þau ákvæði, sem í þessu frv. er vísað til í l. um ættaróðal og erfðaábúð, að þeim ábúendum þjóð- og kirkjujarða, sem hafa erfðaábúð á ábýlisjörðum sínum, er veittur réttur til að fá þær keyptar með sérstökum skilyrðum, voru sett í lög án þess að ég væri samþykkur því, svo að ég get ekki í afstöðu minni tekið tillit til þess ákvæðis. En það er svo skammt síðan þau lög voru sett, að ég álít, að vafi sé á því, að þeim beri að fulltreysta sem heppilegum ákvæðum. Ég álít, að það þurfi að taka þá löggjöf til athugunar fljótlega.

Ég skal ekki hafa langa ræðu um þetta frv. Þetta mál er margrætt og afstaða mín til þess, þ. e. jarðasölumálsins, er hv. þdm. kunn. Þó get ég ekki stillt mig um að benda á eitt ákvæði í frv., sem berlega sýnir, að minni hyggju, að hér er stefnt að óheppilegu ráði. Það er ákvæði 2. gr. um, að jarðir, sem seldar eru samkv. 1. gr. frv., skuli vera seldar fyrir fasteignamatsverð, að viðbættu álagi, sem kann að fylgja jörð, o. s. frv. Nú er vitað, að fasteignamatsverð á jörðum er svo langt undir sannvirði, að það er bókstaflega að gefa jarðir að selja þær fyrir fasteignamatsverð. Og að bæta því að selja þær þannig ofan á það að gefa það, sem lagt er fram af ríkisfé til jarða sem styrkur, gefa fyrst styrkinn og bæta því svo ofan á að gefa jarðirnar á eftir, það er gersamlega óafsakanleg ráðstöfun, þegar þess er líka gætt, hvað styrkina snertir, hvað verðlag hefur breytzt stórkostlega síðan þessir styrkir voru veittir. Sú kvöð væri alveg hverfandi fyrir ábúendur jarða að standa undir, þó að styrkirnir væru ekki gefnir þeim, en hins vegar dregur það nokkuð fyrir ríkissjóð að gefa þá eftir. — Þess vegna greiði ég atkv. á móti þessu frv., af því að ég álít, að það stefni inn á ranga braut.