11.03.1946
Efri deild: 81. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

60. mál, raforkulög

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur athugað þetta mál og rætt það við samgmrh. N. varð sammála um, að óumflýjanlegt væri að breyta 22. gr. frv. þannig, að í stað orðsins „héraðsrafveiturnar“ komi: raforkuver sveitarfélaga og héraðsrafveitur. N. var ljóst, að yrði þessi breyting ekki gerð, yrði ekki hjá því komizt, að samþykktar yrðu margar þær þáltill., sem nú liggja fyrir Alþ. varðandi þessi mál, en það mundi ekki verða heppilegt. En úr því nauðsynlegt reyndist að breyta frv. svo, að ekki verður hjá því komizt að endursenda það neðri deild, þótti n. rétt að breyta orðalagi í 18. gr. þannig, að í stað orðsins „takmarki“ í 2. málsgr. komi: svæði. Í rauninni hefði verið þörf á að breyta víðar orðalagi frv., en það þótti ekki framkvæmanlegt, þar sem þá hefði orðið að semja frv. að miklu leyti um. Þá var rætt um að gera breyt. á 50. gr. um skipun raforkuráðs, en nú liggur fyrir till. frá 6. þm. Reykv., þar sem farið er fram á aðra skipan, en n. hefur ekki unnizt tími til að ræða þær till. Vil ég því mælast til þess við hæstv. forseta, að umr. verði frestað um sinn. Fundur hefur verið ákveðinn í n. í fyrramálið og verða þessar till. þá athugaðar.