29.11.1945
Neðri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Skúli Guðmundsson:

Út af þeirri brtt., sem fyrir liggur á þskj. 230, frá hv. þm. A.-Sk., hafa tveir aðrir nm. í menntmn., hv. þm. Snæf. og hv. 8. þm. Reykv., látið orð falla um það í ræðum sínum, að ákvæði frv. um fræðsluskyldu væru sett, að því er mér skildist, m. a. eftir till. frá miklum meiri hl. skólan. í landinu, þeirra er svöruðu fyrirspurnum um málið. Það kom hins vegar ekki fram, hvað margar skólan. hefðu svarað spurningunni um þetta og hvað margar hefðu látið málið afskiptalaust. En ég sé ekki, að það út af fyrir sig séu nein rök á móti því, að samþ.brtt. á þskj. 230, því að ef þetta er þannig, að fleiri skólan. í landinu vilji heldur hafa ákvæðin eins og þau eru í frv., þá má gera ráð fyrir því, að það yrði ekki mikið um þessar undanþágur eða takmarkanir á fræðsluskyldu, sem gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 230. En þrátt fyrir það, þó að þetta sé þannig, að það yrði ekki eftir þessu farið nema á nokkrum stöðum, þá finnst mér öll sanngirni mæla með því, að það sé hægt fyrir þau fræðsluráð, sem það vilja, að haga þessu svo sem lagt er til í þessari brtt. Það er nú ýmislegt fleira í sambandi við þetta frv., sem ástæða væri til að víkja að, en eitt atriði er það þó einkum, sem ég vildi minnast á. Í 4. gr. frv. er talað um unglingaskóla, miðskóla og gagnfræðaskóla, og þar er fram tekið að því er miðskólana snertir, að aðeins próf úr bóknámsdeild þeirra veiti rétt til inngöngu í menntaskóla og aðra sambærilega skóla. Það er gert ráð fyrir, að þessum skólum sé skipt í tvær deildir, bóknámsdeild og verknámsdeild, eftir því á hvort námið er lögð meiri áherzla. Út af fyrir sig er ekkert um það að segja, þó að það sé fram tekið um þann rétt, sem próf úr þessum skólum veitir. En ekkert ákvæði er hér um þau réttindi, sem próf úr verknámsdeild veita. Hér er aðeins minnzt á þau réttindi, sem próf úr bóknámsdeild veita til framhaldsnáms, en hvergi getið um réttindi þeirra, sem taka próf í verknámsdeild, eða a. m. k. hef ég ekki komið auga á það, en sé svo, þá vildi ég óska upplýsinga um það frá hv. frsm.