15.11.1945
Neðri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

6. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Við 2. umr. þessa frv. bar ég fram fyrirspurn í tilefni af samþykktum, sem gerðar voru í bæjarstj. Reykjavíkur, um togarakaup. Ég fékk ekkert svar við þeirri fyrirspurn í það sinn. En í upphafi þessarar 3. umr. kom svar við fyrirspurn minni í ræðu hv. 8. þm. Reykv. (SigfS). Hann upplýsti sem sagt, að enn þá hafi bæjarstj. Reykjavíkur ekki óskað eftir að kaupa neitt af þeim togurum, sem ríkisstj. er búin að festa kaup á, þrátt fyrir þær samþykktir, sem ég gat um, að gerðar hafa verið í bæjarstj. Reykjavíkur um togarakaup. Að vísu sagði hv. 8. þm. Reykv., að 7 af 15 bæjarfulltrúunum mundu vilja kaupa togara, en ekkert er um það ákveðið, enda skilst mér, að fleiri en 7 af 15 þurfi að óska þess, svo að af framkvæmd verði. Engin skýring kom fram á því hjá hv. þm., hvernig á því stendur, að bæjarstj. hefur ekki, í framhaldi af samþykktinni í sumar, óskað eftir að fá neitt af þessum nýju skipum, og skal ég ekki segja neitt um það, hvernig í því máli liggur. E. t. v. er það svo, að áhugi fyrir kaupunum hafi ekki verið eins mikill og þessi samþykkt bæjarstj. gaf til kynna, og e. t. v. stafar það af því, að forráðamenn bæjarins hafa komizt að þeirri niðurstöðu, eftir nánari athugun, að það mundu ekki vera hagkvæm kaup á þessum togurum, sem hæstv. ríkisstj. hefur samið um. Fleiri ástæður geta komið til greina. Ég skal ekkert um það segja, hvernig þessu er raunverulega varið.

Hv. 8. þm. Reykv. sagði, að ríkisstj. yrði að teljast réttur aðili, til að annast slík skipakaup fyrir landsmenn. Það skal ekki lastað, að hæstv. ríkisstj. greiði fyrir slíkum skipakaupum og útvegi skip og önnur framleiðslutæki fyrir landsmenn eða hafi milligöngu um útvegun þeirra, ef líkur eru fyrir því, að með því móti fáist hagkvæmari kaup en ella. En mér virðist fengin reynsla benda til þess, að hæstv. núv. ríkisstj. takist ekki betur útvegun nýrra skipa en öðrum. Það er t. d. kunnugt, að einstaklingar eiga kost á að fá báta fyrir miklu hagstæðara verð en er á þeim bátum, sem ríkisstj. fær smíðaða hér innanlands. Hvort hæstv. ríkisstj. kunni að takast betur að útvega stærri en smærri skip, skal ég ekkert fullyrða. En meðferð þessa máls, er við kemur togarakaupunum, hefur á ýmsan hátt verið öðruvísi en átt hefði að vera, og þætti mér ekki ósennilega til getið, að kæmi í ljós á næstu árum, að einstaklingar ættu kost á að gera hagkvæmari kaup en ríkisstj. hefur ráðizt í.

Það er fyrst nú þessa dagana, sem nýbyggingarráð auglýsir eftir kaupendum að þessum skipum, og það er engin vissa fyrir því enn sem komið er, að kaupendur fáist að þeim öllum, hvað þá fleirum. Það var að vísu talið í sumar og haust, að einstakir menn og félög hafi óskað eftir að kaupa yfir 40 togara, en ekkert liggur fyrir um það, svo vitað sé, að þeir vilji kaupa þessi skip. Einnig mun vera mjög vafasamt um kaupgetu margra þeirra, sem þar eiga hlut að máli. Það, sem ég tel nú að eigi að gera, er að reyna að selja þá togara, sem keyptir eru, eins og ég hélt fram við 2. umr. þessa máls og flutti till. um. Ég tel fráleitt að veita stj. frekari heimild til togarakaupa að svo stöddu.

Hæstv. ráðh. var aðan í ræðu sinni að tala um þá brtt. sem 8. þm. Reykv. hefur lagt fram, og í sambandi við það að minnast á leiktjöld. Ég held, að það sé vel til fundið hjá hæstv. ráðh. að minnast á sjónleik í þessu sambandi. Það hljóta allir að geta skilið, að það geti verið óþægilegt fyrir leikstjórann, ef einhver af leikendunum fer að koma með breytingu á leikritinu inn á leiksviðið, þegar sýning stendur sem hæst, án þess að ráðfæra sig við leikstjórann. Mér finnst því mjög eðlilegt, að hæstv. ráðh. setji ofan í við þennan stuðningsmann sinn, hv. 8. þm. Reykv., fyrir þá brtt., sem hann hefur flutt án þess að ráðgast um það við yfirmann sinn.