11.12.1945
Neðri deild: 51. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. 2. minni hl. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég vil byrja á því að mótmæla því algerlega, sem hv. frsm. 1. minni hl. landbn. (JPálm) hélt hér uppi og hann raunar hefur gert áður, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé á nokkurn hátt vantraust á hæstv. landbrh. (PM). Það er langur vegur frá því, að mér og meðflm. mínum hafi komið til hugar að bera fram neitt slíkt vantraust, hvað þetta mál snertir. Málið er flutt vegna þess, að við teljum, að þó að góður maður fari nú með þessi mál, maður, sem treysta má fullkomlega til að fara réttlátlega með þau, og ég efast ekki um, að hæstv. núv. landbrh. mundi fyrst og fremst aldrei breyta samþykktum, sem búnaðarþing hefur gert, — þá er hitt annað mál, að það geta komið aðrir menn hans í stað, og þessi l., sem þarna eru sett, voru ekki sniðin fyrir þann eina mann, sem nú situr að völdum, en við bændur höfum enga íhlutun um það, hver sá maður verður, sem tekur við embætti landbrh. síðar meir. Þessu viljum við mótmæla, en með því er ekki verið að lýsa vantrausti á núv. landbrh. Eins og hv. frsm. gat um, þá gat n. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Og tveir nm., þeir hv. þm. A. Húnv. (JPálm) og hv. 1. landsk. (SG), leggja til, að gengið verði inn á að breyta frv., sem við höfum borið fram á þskj. 32, í stórvægilegum atriðum. Aðalefni þeirra breytinga er, að Búnaðarfélag Íslands verði svipt öllum yfirráðum yfir búnaðarmálasjóði, en Búnaðarbanka Íslands fengin í hendur stjórn hans. Enn fremur að sjóðnum verði skipt upp á milli búnaðarsambanda landsins, þannig að hvert búnaðarsamband fái það endurgreitt úr búnaðarmálasjóði, sem kemur af því sambandssvæði í sjóðinn. Ákvæði brtt. um þetta er loðið, en flm. till. hafa tjáð okkur, að það beri að skilja hana þannig. Í þriðja lagi er það ákvæði sett inn, að úr sjóðnum, sem er séreign bændastéttarinnar og eini sameiginlegi sjóðurinn, sem hún á, renni enginn eyrir til sameiginlegrar félagsmálastarfsemi bændastéttarinnar. Áður en lengra er farið út í þetta, langar mig til að víkja athyglinni að því, hvernig þetta mál hefur orðið til.

Áður en þessi 1. voru samþ. á Alþ., sem nú er talað um að breyta, var frv. að þeim sent öllum búnaðarsamböndum landsins til álits og umsagnar. Var það rætt á sambandsfundum, og held ég að óhætt sé að segja, að það hafi fengið góðar undirtektir og að það hafi verið einstakt, ef nokkur ræða gekk á móti því. Mátti heita svo, að það væri samþ. með shlj. atkv. Að því búnu var frv. lagt fyrir Alþ. og samþ. þar með þeirri breyt., sem nú er óskað eftir, að verði felld niður. Þar næst gerist það í málinu, að búnaðarþing gerir fjárhagsáætlun fyrir sjóðinn, eins og því bar skylda til skv. l., fyrir árin 1945 og 1946. Þessi áætlun var því næst lögð fyrir hæstv. landbrh., sem staðfesti hana, og síðan hefur verið starfað eftir þessum l., og er nú fullt ár senn á enda síðan, og undirbúnar eru framkvæmdir hvað næsta ár snertir. Þetta er saga málsins í fáum orðum, og nú, þegar ekki er liðið heilt ár frá því að l. voru staðfest og farið var að vinna eftir þeim, þá er rokið til að gera á þeim gagngerðar breyt., eins og ég hef getið um áður. Þetta er óneitanlega óvenjuleg aðferð og á sér fá dæmi. Og ég fyrir mitt leyti get ekki skoðað það annað en beina árás á Búnaðarfélag Íslands og búnaðarþing. Það, sem helzt er þá talið til stuðnings þessari árás, eða hvað maður vill nú kalla það, er það, sem hv. frsm. gat um, að fjárhagsáætlun búnaðarmálasjóðs fyrir árin 1945 og 1946 væri svo athugaverð, að Alþ. yrði að grípa í taumana til að forða bændastéttinni frá þessum ósköpum, sem yfir henni vofa. Af hálfu minni hl. n. eru færðar fram tvær ástæður. Fyrri ástæðan er sú, að Búnaðarfélag Íslands hafi áætlað mikið fé, rúmar 200 þús. kr. hvort árið, til húsbyggingar Búnaðarfél. Íslands, eða eins, og hv. frsm. kallar það, til gistihúss. Það er rétt að athuga þetta nánar. Ég hefði gjarnan viljað, að ýmsir þeir, sem hér eru staddir og ekki eru kunnugir í Búnaðarfél. Íslands, hefðu áður haft tækifæri til þess að koma í hús þess og kynnast þeirri aðstöðu, sem félagið hefur og starfslið þess. Þeir hefðu gott af að ganga úr skugga um það, hvort vanþörf væri á að byggja yfir félagið. Þetta gamla timburhús mun vera byggt um eða eftir aldamótin síðustu. Vegna skipulags bæjarins er ekki nokkur leið til þess, að það fái að standa. Það mun eiga að rífa á sínum tíma og fæst ekki endurbyggt. Það er því útilokað, að félagið geti hugsað sér að vera þarna til frambúðar. Því hefur ekki dottið í hug að leggja stórfé í að dubba upp þetta gamla hús, enda er sannleikurinn sá, að félagið hefur haft svo þröngt um hendur, að það hefur ekki haft ráð á að leggja fram stórfé til aðgerða á húsinu. Það hefur verið reynt að halda húsinu við, eftir því sem hægt hefur verið, en það er orðið hrörlegt, eins og önnur gömul timburhús. Ég hygg, að engin hálfopinber stofnun bjóði mönnum sínum önnur eins starfsskilyrði og menn eiga við að búa þar. Finnst mönnum þá nokkuð undarlegt, þó að búnaðarþing láti það verða eitt af sínum fyrstu verkum, þegar aðstæður eru fyrir hendi, að reyna að bæta úr þessu vandræðamáli? Og ég hef ekki talað svo við einn einasta bónda, sem komið hefur í Búnaðarfélagshúsið, að hann hafi ekki talið það alveg sjálfsagðan hlut, nema það væri hv. þm. A.-Húnv. Hvað húsbyggingu félagsins snertir er — það að segja, að þegar miðað er við þann húsakost, sem Fiskifélag Íslands, sem er hálfopinber stofnun, á við að búa, þá ættu menn að geta skilið aðgerðir búnaðarþings í þessu máli.

Þá er hitt atriði þessa máls, að í sambandi við þessa húsbyggingu hefur oft verið um það rætt, bæði fyrr og síðar, að full þörf væri á, að Búnaðarfélag Íslands stuðlaði að því að koma upp gistiheimili fyrir bændur, eins og tíðkast í flestum bæjum Noregs, sem ganga undir nafninu Bondegaard. Þetta heimili ætti þannig að vera sem líkast norsku bændaheimili, óbreytt, en þokkalegt og hreinlegt, allur aðbúnaður óbreyttur og fæði kjarnmikið. Það var eitthvað svipað þessu, sem vakti fyrir mönnum á búnaðarþingi, að þeir bændur utan af landi, sem erindi eiga til Reykjavíkur, þurfi ekki að gista götuna næturlangt, ef þeir eiga ekki nákomna vini, sem geta skotið yfir þá skjólshúsi. Þetta er þá sú hugsun, sem á bak við liggur. Í sambandi við þetta kom einnig til mála, að æskilegt væri, að húsið væri þannig, að hægt væri, þegar bændur væru í kynnisferðum, að skjóta skjólshúsi yfir allstóran hóp, allt að 100 manns, þegar staðnæmzt er hér, og ættu menn þá með þeim hætti víst athvarf, en um það var rætt í n., að til væru hermannabyggingar, þar sem setja mætti upp hús, svo að þeir gætu fengið að gista þar og fengið þar sæmilegan aðbúnað. En þegar talað er um þetta gistihús, leyfir hv. þm. A.-Húnv., frsm. 1. minni hl., sér að ganga fram hjá því atriði, að búnaðarþing samþykkti, að því aðeins skyldi þetta gert, að nægileg þátttaka fengist annars staðar að. Hver er svo þessi nægilega þátttaka? Það er talað um, að ekki verði ráðizt í byggingu, nema fram kæmi að minnsta kosti 3/4 hlutar kostnaðar annars staðar að. Þyrfti Búnaðarfélag Íslands eða búnaðarmálasjóður þá ekki að leggja fram af sínu fé nema 1/4 kostnaðar. Þetta eru þá orðin öll ósköpin af þessu lúxushóteli, sem búnaðarþing ræddi um. Verð ég að segja það, að mér þykir leitt, þegar stéttarbræður mínir vitandi vits reyna að rægja sína eigin stofnun, því að með því að ganga fram hjá þessu atriði er raunverulega ekkert annað verið að gera en ófrægja búnaðarþing í augum bænda, Alþ. og annarra. Ég segi ófrægja, vegna þess að málefnið hefur verið tekið þeim tökum, að allt, sem um búnaðarmálasjóðinn hefur verið sagt, er rangt, og skal ég fúslega játa, að mér er ekki kært að standa undir lygi á stéttarbræður mína.

Þetta er þá það ægilega annað atriði, sem búnaðarþing á að hafa gert og á að vera orsök til þess að svipta það fjárráðum yfir sjóðnum. Hitt atriðið er, að búnaðarþing hafi ætlað 30 þús. kr. til að standast kostnað við búnaðarþing. Það hefur verið talað um þetta oftar en einu sinni á Alþ., og það er ekki alls kostar ástæðulaust eða óeðlilegt, að ríkið leggi fram fé til Búnaðarfélags Íslands til að standa undir kostnaði við sitt búnaðarþing, þegar það væri að ræða um sín sérstöku stéttarmálefni, eins og það hefur orðið að gera og því hefur oft verið falið af Alþingi. En bæði ég og aðrir höfum haft tilfinningu fyrir því, að það væri ekki óeðlilegt, þegar komið er út frá því faglega sviði og inn á svið stéttarhagsmuna, að bændur sjálfir stæðu undir þeim kostnaði, sem af þessu leiddi, og beinlínis þessi upphæð, sem tiltekin er, er miðuð við það að standa undir þeim hluta kostnaðarins við búnaðarþing. Ef þetta er fjarstæða, þá er annað hljóð komið í strokkinn en hefur verið undanfarið. Þegar á þetta hefur verið minnzt, hefur yfirleitt hljóðið verið þannig hjá ýmsum þessara manna, sem átelja þetta, að þessi tilhögun málsins sé algerlega óeðlileg, og ætti því sízt að vera ástæða til þess að gera það að árásarefni á búnaðarþing, að það vilji nú taka af bændanna einkafé til þess að annast um þeirra sérhagsmunamál, og að þeim sé ekki blandað saman við þau faglegu viðfangsefni, sem búnaðarþing hefur aðallega með að gera. Um fjárhagsáætlunina er það skemmst að segja, að hún er í öllum atriðum í samræmi við grg., sem Búnaðarfélag Íslands sendi með frv. til búnaðarsambandanna. Það er áreiðanlega hvert atriði tekið fram í grg. sem verkefni fyrir sjóðinn, sem kemur aftur fram í fjárhagsáætlun búnaðarmálasjóðs. Eins og ég sagði áðan, var það af óumflýjanlegri nauðsyn, að búnaðarþing varð að þessu sinni að leggja höfuðáherzlu á húsbygginguna, enda ekki farið dult með það í grg., hver nauðsyn bændastéttinni er að því að koma húsbyggingunni áfram. Litu þeir svo á, að allt eins æskilegt væri fyrir bændastéttina að taka þetta fé núna á þessum 2 árum til húsbyggingarinnar, á meðan bændur hafa yfirleitt sæmileg fjárráð, en þegar frekar væri þröngt fyrir hendi hjá bændum, þá ætti að beina sjóðnum aðallega að því að styrkja mikilvæg málefni sambandanna heima fyrir. Ég stend enn á því, að þetta sé rétt stefna og að það sé öllu hyggilegra að taka núna fé vegna húsbyggingarinnar, enda á ég ekki von á því, að það verði átalið af bændum. Ég skal enn fremur geta þess um gistihúsbygginguna, að allt er í óvissu enn þá um það, hvort sú þátttaka fæst, sem óskað er eftir, og þar af leiðandi, hvort þetta nauðsynjamál kemur til framkvæmda, og er líklegt, að það verði jafnvel ekki að þessu sinni. Ég held, að það sé hæpið að segja, þó að við teldum, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarmeirihluti hafi verið með þessu frv., eins og ég hef sýnt fram á, að það sé verið að beina því að hæstv. núv. landbrh., að það var gert, en hæpið er að gera þessar hefndarráðstafanir, sem hér um ræðir, því að allajafna verka þær öfugt við það, sem til er ætlazt, og hygg ég, að svo gæti einnig farið í þetta skipti.

Ég skal þar næst athuga sjálfa till. eins og hún liggur fyrir. Samkv. henni á að skipta búnaðarmálasjóðnum milli sambandanna. Eins og nú er leggja allir bændur í búnaðarmálasjóðinn, og er sjóðurinn þess vegna sameiginlegur sjóður allrar bændastéttarinnar, og eins og ég tók fram áðan, þá er hann nálega eini sameiginlegi sjóðurinn, sem er hennar einkaeign, eins og ríkissjóðurinn er sameignarsjóður allrar þjóðarinnar. Hvernig mundi verða litið á það, ef á Alþ. kæmi fram frv. um að skipta upp ríkissjóðnum, þannig að hver sýsla og hver kaupstaður fengi sinn hluta úr sjóðnum, nákvæmlega það, sem íbúar þeirra hefðu borgað inn í hann, og að því fylgdi það skilyrði, að ekki mætti taka einn eyri til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins? Mundi þá mörgum finnast það einkennileg aðferð, og betra ráð mundi vart fundið til að leysa upp þjóðfélagið og sundra því. Mér skilst, að þannig mundi þetta verka innan þjóðfélagsins og að þessari till. sé ætlað að verka á svipaða lund innan bændafélagsskaparins. Ég sagði ætlað, því að ég hef þá trú á félagsþroska yfirgnæfandi meiri hluta ísl. bænda, að þetta mundi ekki koma að sök, jafnvel þó að svo ólíklega tækist til, að slík tilhögun yrði samþ.

Þá skal næst athugað, hvernig skiptingin mundi fara fram, og til þess að ganga úr skugga um þetta, hef ég látið gera yfirlit yfir það, hvernig hún mundi taka sig út. Í þeirri skrá er ekki talið með grænmeti gróðurhúsanna og sala þeirra. Samkv. þessu og eftir athugun hefur mér talizt til, að bæta þyrfti við Búnaðarsamband Suðurlands 13 þús., við Búnaðarsamband Kjalarness 5 þús. og við Búnaðarsamband Borgarfjarðar 3 þús. Við þessa athugun kemur í ljós, að Búnaðarsamband Suðurlands, sem nær yfir Árnessýslu, Rangárvallasýslu, V.-Skaftafellssýslu og Vestmannaeyjar og hefur 1521 meðlim, mundi fá 101 þús. kr. og auk þess tekjur af seldu grænmeti, 13 þús., eða samtals 114 þús. En Búnaðarsamband Vestfjarða, sem nær yfir 5 sýslur og 1 kaupstað, það mundi fá tæpl. 30 þús., en ætti borið saman við búendatölu að fá 72 þús. Búnaðarsamband Vestfjarða hefur mjög örðugar aðstæður, og er þó ekkert tillit tekið til þess. Búnaðarsamband Kjalarness, sem hefur 405 meðlimi, mundi fá 25 þús. og 5 þús. af gróðurhúsasölu, eða 30 þús. kr. Búnaðarsamband V.-Húnavatnssýslu mundi fá 7 þús., en bæri 20 þús. kr. Svona mætti halda áfram til þess að sýna, hversu óréttlátt fyrirkomulag þetta yrði. Því miður hafa komið fram einhverjar áskoranir frá búnaðarsamböndum um að samþ. brtt. á þskj. 197. Ég segi því miður, því að slíkt sem þetta virðist bera vott um of lítinn félagslegan þroska hjá þessum félögum. Þessir menn eru að vísu fúsir á að hirða peningana, en líta ekki á, hvaða rétt þeir eiga til þeirra. Þeir vilja smeygja sér undan sameiginlegu samstarfi sambandanna. Ef þau sambönd, sem bezt eru stæð, leggja kapp á að losna úr tengslum við hin minni máttar og rétta ekki hjálparhönd til þeirra, sem lakast eru stæð, þá er illa farið. Það var aldrei meining okkar flm. að ganga á rétt neins, heldur að heimta rétt þeim til handa. Búnaðarsamböndin verða að bera byrðarnar hvert með öðru, alveg eins og sýslurnar gera innan ríkisheildarinnar. Þess vegna virðist mér þessi brtt. eins og frá henni er gengið miða að því að veita þeim ríkustu bezta aðstöðu, — að gera þá ríkari enn þá ríkari, en þá fátækari enn þá fátækari. Og í raun og veru er þetta ekkert undarlegt, eins og till. liggur nú fyrir, þar sem þau héruð, er hafa bezta markaði og fjölbreyttasta framleiðslu, eiga að sitja fyrir, en hin, sem verr eru sett, eiga að sitja á hakanum og bjarga sér sjálf.

Ég get ekki stillt mig um að benda á, að búnaðarþing hefur nú haft um nokkra tugi ára allmikið fé, sem það hefur skipt á milli héraða og sveita. Um það hafa gilt fastar reglur. Fyrsta reglan hefur ávallt verið sú, að tekin hefur verið viss og ákveðin upphæð, sem skipt hefur verið á milli þeirra, sem erfiðast eiga uppdráttar.

Ég vænti, að menn athugi mál þetta vendilega og rólega, áður en menn leggja út í það óláns gerræði að svipta Búnaðarfél. Íslands og búnaðarþingið öllum umráðarétti yfir þessu fé, og vitanlega er æskilegast, að slíkt komi aldrei til.

Það má vel vera, að einhverju þurfi að breyta frá því, sem nú er, en sú breyting á að koma frá bændunum sjálfum eða búnaðarfélagsskapnum. Kjörtími okkar til búnaðarþings er nú nærri útrunninn, því að kjósa á til búnaðarþings í vor. Ef við misskiljum nú hlutverk okkar, þá láta bændur skipta um fulltrúa við kosningarnar í vor, og fæst þá leiðrétting. Ég er alveg rólegur að bíða þess dóms. — En ég álít, að allar slíkar breytingar eigi að leggjast undir dóm bændanna. Þá hefur málið fengið rétta meðferð, og þá fyrst getum við samþ. það.