12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það eru óskapleg örlög, sem fyrir mér eiga að liggja, a. m. k. í augum hv. þm. S.-Þ. En það, sem ég ætla að vekja athygli á, er þessi einkennilegi hugsunarháttur, sem finna mátti gegnum alla ræðu hv. þm. S.-Þ., að það sé höfuðólán að vera ekki við völd, hvernig sem maður kemst í þau, — þó að það sé með svikum. Eins og hann talaði, mátti halda, að hann hefði komizt til valda á þann hátt. Hann sagðist ekki kæra sig um að vera mjög mikið við riðinn flokk. sem væri valdalaus um þjóðmál, eins og Framsfl. Hvernig lízt hv. þingmönnum á þennan hugsunarhátt? Það er þetta sama, sem kemur enn fram hjá hv. þm. S.-Þ., að það er ekki aðalatriðið að berjast í flokki fyrir málefni, sem maður álítur, að sé rétt, og fara úr ríkisstj. vegna þess, að maður sé í andstöðu við það, sem ríkisstj. að öðru leyti berst fyrir. Nei. Aðalatriðið fyrir honum er að vera við völd. — Hann sagðist hafa gefið hv. þm. Str. þrjú ár í ráðherrastóli. Það er fyrir honum aðalatriðið. að því er virðist, að vera í ráðherrastóli. Hitt er ekkert atriði, hvort maður berst fyrir réttum málstað. Það er ekkert atriði í hans augum fyrir Framsfl., hvort flokkurinn berst fyrir réttri stefnu, hvort dýrtíðarstefna ríkisstj. er rétt eða stefna Framsfl. er rétt, heldur hitt, að Framsfl. tekst ekki að vera við völd. Og hann segir, að þessi þm. Str. hafi komið í veg fyrir borgaralega samvinnu. Það skiptir ekki hv. þm. S.-Þ. máli, hvort sú borgaralega samvinna er á heilbrigðum grundveili, heldur hitt, að Framsfl. komist inn í borgaralega samvinnu.

Hv. þm. S.-Þ. sagði enn fremur, að ég hefði staðið í vegi fyrir því, að Framsfl. tæki þátt í ríkisstj., því að ég hefði viljað vera sjálfur þar í forsæti. Það er margsýnt fram á, að Framsfl. bauð, að forsrh. yrði Björn Þórðarson. Fyrir því liggja bréf. Og Framsfl. bauð samvinnu upp á viss býti, sem voru þannig, að hægt var við að hlíta, og allt annar ráðh. átti að vera í forsrh. stóli en Hermann Jónasson, sem ekki gerði sér neina von um að komast þar að.

Þá minntist hv. þm. S.-Þ. á Jón heitinn Baldvinsson. Ég fer ekki inn á að ræða það mál. Það er horfið mál og látinn maður. Ég skal ekki tala um þá atburði. En ég held, að hv. þm. S.-Þ. hefði ekki átt að minnast á Jón Baldvinsson, því að nafn þess manns rifjar upp minninguna um þann vitnisburð um hv. þm. S.-Þ., sem Jón Baldvinsson skrifaði nokkru áður en hann dó. Ég held, að hv. þm. S.-Þ. hefði helzt ekki átt að minnast á Jón Baldvinsson sem mann, sem hann tæki trúanlegan á öllum sviðum. Því að ef nokkurn tíma hefur verið gefinn vitnisburður svo að manni hrýs hugur við honum, þá er það vitnisburður sá, sem Jón Baldvinsson hafði um hv. þm. S.-Þ., og bréf, sem hv. þm. S.-Þ. fékk frá honum.

Hv. þm. S.-Þ. sagði, að Framsfl. hefði verið að villast burt frá framsóknarstefnunni. Og hann segir, að ég sé ekki mikill bardagamaður og illa gefinn. Það er satt, ég er ekki mikill bardagamaður og kannske allt of lélegur í andstöðu gegn núv. ríkisstj. Og það er sjálfsagt rétt, að ég hafi ekki mikla hæfileika. En það verður við það að sitja. En einkennilegur er þó einn hlutur, að þessi lítilmótlega og hæfileikalausa stjórnarandstaða, sem við hv. þm. S.-M. og ég eigum að vera, skuli vera þannig, að allt flokkslið Framsfl. skuli yfirleitt hafa villzt með þessum mönnum, en frá þessum sprengi- og bardagamanni, sem hv. þm. S.-Þ. segir sjálfur, að hann sé. Það er það undarlega við þetta allt saman. Og það er ekki aðeins það, að allir framsóknarmenn hafi villzt burt frá þessum hv. þm., heldur svo að segja hver einasti vinur hans og samherji frá því fyrsta. Og ekki geta þetta verið mín verk, jafnlítilmótlegur og ég á að vera og jafnlítill bardagamaður og hv. þm. S.-Þ. segir, að ég sé. Það er eitthvað annað, sem hér kemur til. Nú vil ég, að hv. þm. S.-Þ. hugsi um þetta í nótt, þegar hann gengur til hvílu, hvort orsök þessa muni ekki vera eitthvað, sem liggur í honum sjálfum. Það er svo bezt að láta þetta vera útrætt að sinni.

Viðvíkjandi valdatöku ríkisstj. og því, hvort einhver flokkur hefur völd eða ekki og hvort hægt er að koma á borgaralegri samvinnu, þá sannast að segja hrýs mér svo hugur við þessum hugsunarhætti, sem fram kom hjá hv. þm. S.-Þ. og ég hef lýst, að mér þykir fyrir því, að hann skuli vera til hér innan sala þessa þings. Og ég held, ef ég ætti að gefa hv. þm. S.-Þ. leiðbeiningar um það, hvernig stendur á öllum þessum ósköpum, sem hann er að lýsa um fráhvarf Framsfl. frá honum, sem hann kallar þokuvillu, sem getur ekki verið af mínum sökum, þar sem ég er svo lítilmótlegur og lítill bardagamaður, þá held ég að ég vildi benda þessum hv. þm. á að athuga það, hvort það er ekki eitthvað vegna þessa hugsunarháttar, sem þessi hv. þm. hefur tamið sér og mér hrýs hugur við, hvernig fyrir honum er komið.