19.02.1946
Neðri deild: 70. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

149. mál, virkjun Sogsins

Frsm. (Sigurður Thoroddsen) :

Herra forseti. Milli fyrri umr. og þessarar hefur iðnn. haft þetta mál til athugunar og komið sér saman um að gera nokkrar brtt. við frv. Þessar brtt. eru á þskj. 415. 1. brtt. er við 5. gr. og er til orðin út af því, að í frv. hafði láðst að taka fram, að auk þeirrar ábyrgðarheimildar, sem þar er talin 34 millj., var lagt til, að þær ábyrgðir, sem Reykjavíkurbær hafði þegar fengið hjá ríkinu vegna Ljósafossvirkjunarinnar, ættu að vera með taldar, og hefur n. þess vegna umorðað gr. til þess að koma þessu inn, að auk þeirra ábyrgða, sem ríkissjóður er í fyrir virkjun Ljósafossins, bætist við þessi nýja ábyrgðarheimild. Hins vegar hefur n. talið sanngjarnt að taka til greina aths., sem fram kom við 1. umr., að takmarka þessa ábyrgðarheimild við 85% af kostnaðarverði. Sér í lagi telur hún ástæðu til þess að styðja að því, að samræmi verði milli þessa frv. og raforkulagafrv. Hér er að vísu aðeins ábyrgð fyrir virkjunarkostnaði, en það má telja víst, að Reykjavíkurbær fái með raforkulagafrv, ábyrgð fyrir 85% af stofnkostnaði í viðbót við innanbæjarkerfið.

2. brtt., sem n. var ásátt um, er við 6. gr., þar sem lagt er til, að í staðinn fyrir orðin : „í nálægum héruðum“ komi: „utan Reykjavíkur.“ Það kom fram við 1. umr., að það gæti orkað tvímælis, að hve miklu leyti unnt væri að láta rafmagnið ná til fjarlægra héraða. Þótti því sjálfsagt að setja þetta inn, og er þá ekki neinn vafi um það, að öll héruð, sem hafa þess kost að geta sótt raforkuna til Sogsvirkjunarinnar, hafa leyfi til að fá hana. — Við sömu gr. er önnur brtt., sem n. var sammála um, en það er að breyta því, sem Sogsvirkjuninni er leyfilegt að leggja á kostnaðarverð raforkunnar, að breyta því úr 10%, eins og það er í frv., niður í 5%.

Á fundi n., þegar málið var rætt, mætti rafmagnsstjórinn í Reykjavík, og voru allar þessar brtt., sem hér um ræðir, bornar undir hann, og hafði hann ekkert við það að athuga, að þessu yrði breytt í frv. Annars er þetta ákvæði til orðið vegna ákvæða vatnal., þar sem segir, að selja megi raforkuna með allt að 10% álagningu. Væri álagningin meiri, bar að endurgreiða allt það, sem umfram var. Það kom fram hjá sumum nm., að þeir vildu jafnvel fella þessa álagningu alveg niður, en það þótti n. ekki fært vegna þess, að þá hefði þurft að áætla söluverð raforkunnar, og ef það yrði of hátt áætlað, þá yrði að endurgreiða það aftur. Ég skal geta þess, að við 2 nm. vorum frekar á móti þessari lækkun, en gengum þó til samkomulags, af því að við teljum, að það sé rétt, að þarna væri leyfð álagning og sérstaklega til þess að léttara væri að leggja á auknar veitur og viðbótarveitur.

Þá er enn ein brtt. Það kom fram við 1. umr., að menn teldu það orka tvímælis, hvenær Sogið væri virkjað til hálfs, og þótti því n. rétt að ákveða í frv., við hvaða kw.-tölu ætti að miða, sem er talið 86000 kw. í Soginu fullvirkjuðu, eftir því sem rafmagnsstjóri segir. N. kom sér því saman um þessar till. og leggur til, að þær verði samþ.

Ég skal að lokum að gefnu tilefni, áskorun frá hv. þm. Borgf. til n. um það að athuga, hvort hún teldi sér ekki fært að fella meginefni þessa frv. inn í raforkulfrv., taka það fram, að allir nm. mæltu með samþykkt þessa frv. sem sérstaks frv. og þeir telja, að með samþykkt þessa frv. sé ekki á neinn hátt brotið í bága við anda raforkulfrv. Í raforkul. er gert ráð fyrir, að hverjum sem er sé heimilt að virkja allt að 2000 ha., ef leyfi ráðh. komi til. Sé hins vegar um stærri virkjun að ræða, þá er Alþ. einu heimilt að leyfa hana, og þarf þá um það sérstaka lagasetningu. Hér hefur verið farið fram á leyfi til stærri virkjunar en 2000 ha., og um það verður að leita leyfis Alþ., og með samþ. þessa frv. er þessi leið farin.