26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

144. mál, Austurvegur

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Ég þarf raunar ekki að taka til máls vegna ræðu hv. þm. S.-Þ.. en vegna misskilnings, sem mér þótti gæta, þykir mér rétt að taka fram, að hér er ekki um neina lántökuskyldu að ræða, heldur einungis heimild. En vitanlega mun engin ríkisstj. nota þessa heimild og gera sér leik að því að taka margra millj. kr. lán, ef fé er til í ríkissjóði. Ég lít þannig á þetta mál, og þeir, sem meta meira nauðsyn þessa verks en peningalega aðstöðu ríkissjóðs á hverjum tíma. Ég hygg, að það sé engin tilviljun, að þeir 5 menn, sem valdir hafa verið til að rannsaka þetta mál og gera till. um það, komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þegar niðurstöður þessarar n. voru ræddar um daginn, var bent á, að hún hefði ekki flutt þetta frv. Það er rétt. Hún gerði einungis það, sem henni var falið.

Ég vil forðast að gera samanburð á öryggi þessa vegar og Krýsuvíkurvegarins. Ég vænti, að n. hafi rannsakað þetta nákvæmar en gert verður með pappírsgögnum inni á skrifstofum.

Ég vil leiðrétta þau ummæli hv. 6. þm. Reykv., sem voru þó mælt af góðhug í minn garð, um forgöngu mína í þessu máli. Ég ætla, að þörfin hafi knúið hér meir til átaka, án tillits til allra mannanafna. Stundum þykir það mikilsvert að vísa til vilja fólksins, en stundum þykir það lítilsvert, allt eftir því, hvernig málin horfa hverju sinni. En rétt þykir mér að benda á, að sýslufundur Árnessýslu tjáði sig fylgjandi þessu máli með 16 shlj, atkvæðum. (GJ: Þeir áttu ekki að borga). Þá hygg ég og, að bílstjórar viti, hvers virði þetta mál er.

Lánsheimildin er einungis til vara. Það er engin skylda að nota hana, og ég vildi óska, að hæstv. ríkisstj. fyndi aðra leið til fjáröflunar.