13.02.1946
Neðri deild: 66. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (2547)

29. mál, fræðsla barna

Skúli Guðmundsson:

Ég vildi minnast á eitt atriði í þessu langa frv. Í 14. gr. eru ákvæði um., framlag úr ríkissjóði til stofnkostnaðar barnaskóla. Er þar fram tekið, hversu mikið þurfi að greiða til heimangönguskóla og heimavistarskóla. Í sömu gr. frumv. er talað um, að tryggja skuli skólastjóra íbúð, 3 herbergi og eldhús a. m. k. Heimavistarskólum skal einnig fylgja íbúð eða íbúðir fyrir kennara. Íbúðir skólastjóra og kennara teljast með í stofnkostnaði skóla svo og nauðsynlegustu skólahúsgögn.

Í þessari gr. er þetta framlag nefnt ríkisstyrkur, og skilst mér, að til sé ætlazt, að sveitarfélögin komi upp þessum skólum, en ríkið veiti styrk, og skólahúsin verði eign sveitarfélaganna; eins og verið hefur. Þetta hefur verið svo, og húsin eru eign sveitanna, en bygging þeirra hefur verið styrkt úr ríkissjóði. Ég vil því minnast á og beina því til hv. menntmn., að ástæða væri til að setja inn í frumv. ákvæði um, að sveitarfélögin fái allar tekjur af skólahúsunum. Ég held, að það sé ekki tekið fram, og væri e. t. v. ástæða til að geta þess, til að fyrirbyggja misskilning. — Í launalögunum er tekið fram, að kennarar skuli borga húsaleigu eftir mati, þeir sem húsnæði hafa. Það eru tekjur, og það getur verið fleira, sem kemur til greina. Skólarnir eru oft notaðir til annars, meðan kennsla fer ekki fram, og getur verið um tekjur að ræða þar.

Í 15. gr. er tekið fram, að sveitarfélögum beri að greiða allan kostnað af húsum. Ég vildi því skjóta því hér inn, hvort ekki væri rétt að taka það einnig fram, að sveitarfélögin fengju einnig allar tekjur af húsunum.

Að svo stöddu ætla ég ekki að segja meira. Mér hefur því miður ekki unnizt tími til að fara eins rækilega yfir þetta frv. og skyldi, því að hér er um merkilegt mál að ræða.