17.04.1946
Neðri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Skúli Guðmundsson:

Ég vildi gera grein fyrir 2 brtt. við þetta frv. frá mér og hv. 2. þm. N.-M., sem eru á þskj. 871. — III. kafli þessa frv. fjallar um íbúðarbyggingar sveitarfélaga. 27. gr. hljóðar þannig:

„Í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem fólk býr í heilsuspillandi íbúðum (bröggum, útihúsum, háaloftum, kjöllurum o. s. frv.) og ekki verður úr bætt á nægilega skömmum tíma að dómi sveitarstjórnarinnar með þeirri aðstoð ríkisins og sveitarfélaganna, sem um getur í I. og II. kafla þessara laga, ber sveitarstjórn kaupstaðarins eða kauptúnsins að ráða bót á húsnæðisvandræðunum, og nýtur hún til þess þeirrar aðstoðar ríkisins, sem í þessum kafla segir.“

Í 31. gr. í sama kafla eru svo ákvæði um, í hverju sé fólgin sú aðstoð við sveitarfélögin. Þar segir:

„Nú færir sveitarstjórn félagsmálaráðuneytinu sönnur á, sbr. 29. gr., að nauðsyn sé slíkra íbúðarbygginga, sem hér um ræðir, og skal þá ríkissjóður lána þeim sveitarfélögum, sem reisa slíkar íbúðir, 75% af byggingarkostnaði hverrar íbúðar, en þar skal ekki lóð með talin. Lán þessi skulu vera til 50 ára með 3% ársvöxtum, og greiðast vextir og afborganir með jöfnu, árlegu gjaldi. Ríkissjóður leggur enn fremur fram 10% af byggingarkostnaðinum sem vaxtalaust lán til 50 ára. Lán þessi eru afborgunarlaus fyrstu 15 árin, en greiðast síðan með jöfnum árlegum greiðslum á 35 árum. Ef sveitarstjórn ákveður að afskrifa þau 15%, sem sveitarsjóður leggur fram án atbeina ríkissjóðs, er ríkisstjórninni heimilt að gefa eftir vaxtalausa lánið.“

Í þessum kafla frv. eru engin ákvæði um, að ríkisstjórnin skuli fylgjast með þessum byggingarframkvæmdum,. sem ríkissjóður á þó að leggja til 85% af byggingarkostnaði. Eins eru og sveitarfélögin óháð ríkinu um gerð húsanna og hafa óbundnar hendur um allt, sem að því lýtur, og geta hagað gerð húsanna eftir vild. Það liggur í eðli sínu, að ekki er rétt að leggja svo miklar kvaðir. á ríkissjóð án þess að ríkið hafi nokkuð að segja um framkvæmdir. Ég gat þess við 1. umr., að ég teldi vanta í frv. ákvæði um að gera byggingar íbúðarhúsa ódýrari en þær nú eru. Um leið og ríki og bæir leggja fram stórfé til bygginga, þá er nauðsynlegt að hafa þær sem hentugastar og ódýrastar. Það er vitað, að verulegur liður í byggingarkostnaði er þóknun til húsameistara, sem eiga að veita þessum byggingum forstöðu. Ég veit dæmi til þess, að menn hafa orðið að borga mörg þús. krónur til slíkra manna fyrir. það eitt að hafa Eftirlit með byggingunum. Eitt byggingarfélag borgar 6000 krónur fyrir hverja íbúð.

Þá er síðari brtt. okkar. á þessu sama þskj. um það, að ríkisstj. sé heimilt að verja fé úr ríkissjóði til þess að greiða laun ekki færri en 4 manna, sem settir eru í þau störf eða embætti, sem í brtt. er ráðgert að stofna, og að það verði menn, sem ráðnir eru til þessara starfa annaðhvort af ríkisstj. eða sem hún samþ., og hafi þá, um leið fullan rétt til þess að veita byggingarframkvæmdum forstöðu, og þeir, sem njóta starfa þeirra, þurfi ekki að hafa aðra byggingarfróða menn til þess að standa fyrir framkvæmdunum: Það má vitanlega um það deila, hvaða tölu skuli setja þarna, við höfum sett, að það skuli greiða úr ríkissjóði laun ekki færri en fjögurra manna. En ef þetta gengur vel í framkvæmdinni, sem ég geri mér vonir um, mætti gera þessa heimild nokkuð rýmri. Og ég er ekki í vafa um, að þetta hafi mikla fjárhagslega þýðingu fyrir. ríkissjóð samanborið við þau útgjöld, sem annars er um að ræða í þessu frv., og með tilliti til þess, hve hér er um þýðingarmikið málefni að ræða fyrir allan almenning í kaupstöðum og kauptúnum landsins, sýnist mér, að vel sé fórnandi nokkurri fjárupphæð úr ríkissjóði til þess að einstaklingar geti komið upp íbúðum handa sér og sínum á sem auðveldastan og ódýrastan hátt.