17.04.1946
Neðri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (2645)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans viðvíkjandi grg. hans við 2. umr., hvers vegna hann hefur verið á móti því að leggja þá skyldu á þjóðbankann að kaupa skuldabréf fyrir 20 millj. kr. Skýrsla dómsmrh. fól það í sér, að raunverulega væri fjmrh. andvígur þessu ákvæði. Hann hefði hins vegar lofað aðstoð sinni um að selja þessi bréf, þegar þess gerðist þörf. Nú er það rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þessi þörf er þegar fyrir hendi og hefur verið það lengi. Það hefur undanfarið verið svo, að byggingarsjóðurinn hefur ekki getað selt þau bréf, sem hann hefur boðið út, og því ekki getað fengið það fé, sem hann hefur þurft til þess að geta starfað að þeim framkvæmdum, sem honum eru fyrirhugaðar. Og nú virðist manni samt, að þetta hefði verið hægt hjá stjórn byggingarsjóðsins, þar sem einn helzti bankastjóri Landsbankans er formaður byggingarsjóðsins, og að það hefði þess vegna, þar sem maður getur reiknað með því, að nokkur vilji sé fyrir hendi hjá formanni byggingarsjóðsins að afla lána, átt að vera sá möguleiki, ekki sízt ef félmrh. hefði lagzt þar á sveif með. Væri hann þegar búinn að láta undan í þessu máli, ef hann ætlaði sér að gera það. Ég vil því leggja áherzlu á, að ég held það þyrfti ákveðnari yfirlýsingu frá hæstv. ríkisstj. í þessu máli, til þess að rétt væri af hv. d. að falla frá því að samþ. mína tillögu. Ég held, að það þyrfti að koma yfirlýsing frá öðrum hvorum ráðherranum um það, að ríkisstjórnin væri búin að tryggja það, að Landsbankinn keypti þessi bréf fyrir svona og svona upphæð, svo að þar með væri öruggt; að þessu gæti orðið hrundið í framkvæmd. Ég tala þarna ekki út í bláinn eða af því að mig langi til að skylda Landsbankann til þess, eins og sumir kynnu að halda. Ég tala út frá þeirri reynslu, sem ég hef fengið við meðferð á öðru máli hér á þinginu, í sambandi við stofnlán til sjávarútvegsins. Ég veit, hvað þarf til þess að skylda Landsbankann til að lána fé. Það er vitanlegt, að Landsbankinn lét þá menn, sem hann helzt hefur samband við, flytja þau boð hér, hvort ekki mætti komast af með í samráði við ríkisstjórnina að taka svona lán, jafnvel lýsa yfir, að bankinn mundi nú gera þetta, ef hann bara ekki væri skyldaður til þess. Ég held þess vegna, að það verði að taka Landsbankann dálítið föstum tökum nú. Ég held eftir reynslunni á þessu þingi, að þá sé nauðsynlegt að skylda Landsbankann til að gera þetta. Þá væri máske, ef auðséð væri, að vilji væri í þinginu fyrir því, sá möguleiki, að bankinn kæmi fram og byðist til þess að kaupa þetta, til þess að komast hjá því að vera skyldaður til þess með lögum. Ég hef þessa reynslu, og ég held flestir þm. hafi þessa reynslu með mér. Það þarf að taka stjórn Landsbankans fastari tökum en þeim, sem dómsmrh. mun nægja núna, og þeim tökum, sem þessi eina stofnun í landinu, Alþ., getur gert. Mér finnst þess vegna, að sú yfirlýsing, sem þyrfti að liggja fyrir frá fjmrh. í þessu efni, þyrfti að vera ákveðnari, ef Alþ. ætti að geta sætt sig við að falla frá að skylda Landsbankann til þess að veita ákveðin lán. Reynslan sýnir það, hve mikið þarf til þess að fá þessa voldugu stofnun okkar til þess að láta undan, og það er alveg sama og engin ástæða fyrir Alþ. að hlífa henni í þessum efnum, þegar um svona mikið mál er að ræða eins og að tryggja framgang þessa mikla lagafrv., sem hér liggur fyrir. Alþ. hefur reynt það að fara bónarveg að Landsbankanum, að mælast til ákveðinna hluta við Landsbankann, og ég sé vel af þeim viðskiptum, sem við höfðum viðvíkjandi stofnlánum til sjávarútvegsins, að meðan verið var að leggja til við Landsbankann, að hann veitti aðstoð sína, var hann hinn versti og taldi allt úr, sagði ekkert hægt að gera í þessum efnum. En þegar hann var tekinn þeim tökum að skylda hann með lögum, lýsti hann yfir, að hann mundi fúslega sætta sig við þetta, bara að hann fengi að framkvæma það. Ég held þess vegna, af þeirri reynslu, sem Alþ. hefur fengið af viðureigninni við Landsbankann, að óhjákvæmilegt sé að taka þetta fastari tökum. Það mundi raunar ekki vera þörf á þessu, ef það væri eins og hv. 4. þm. Reykv. lýsti, að það ætti að vera, að tryggð væri sama stefna í framkvæmdum og fjármálum þjóðbankans eins og er hjá Alþ. og ríkisstj. á sama tíma. En sú stefna er bara ekki tryggð. Enn þá er ekki búið að fá það fram, að bankinn fylgi þeirri pólitík, sem ríkisstj. hefur tekið upp, og því má ekki hika við að grípa til frekar leiðinlegra aðgerða eins og að skylda Landsbankann til þess að gera hluti, sem honum ætti að vera ánægja að gera. Og þegar það er athugað, að byggt hefur verið fyrir 93 millj. kr. á einu einasta ári hér í Rvík, er engin afsökun fyrir því, að þjóðbankinn geti ekki tryggt það að kaupa skuldabréf fyrir 15 millj. kr., til þess að tryggja byggingu verkamannabústaða á öllu Íslandi. Þessir peningar eru til, og spurningin er bara að knýja bankann til að nota þá. Má vera, að það gengi út yfir sumt af byggingum, sem heldur mundi fara til efnaðri manna. En það yrði þá bara að hafa það. Mér er ljóst, að aldrei hefði hafzt í gegn að fá 100 millj. kr. til stofnlána handa sjávarútveginum, ef það mál hefði ekki verið sótt eins hart og það var sótt. Og eins er ég viss um, að ekki verður hægt að knýja fram að láta þjóðbankann lána verulegar fjárupphæðir til byggingar verkamannabústaða, nema Alþ. sæki þetta mál mjög fast. Ég vil hins vegar mjög alvarlega biðja dómsmrh. að athuga það, að hann sé ekki búinn að sleppa því tækifæri, sem hann hefur enn þá, til þess að geta beygt Landsbankann til hjálpar til að framkvæma þetta mál. Enn þá hefur dómsmrh. einmitt möguleika til þess að fá frá hv. Alþ. það vald, sem honum nægir til þess að geta knúið þetta frv. fram í veruleikanum, gert það að framkvæmd undir eins og það er samþ. með l. En eftir að búið er að samþ. þetta frv., ef það yrði samþ. án brtt. minnar, þá hefur hann litla aðra aðstöðu en þá að fara bónarveg að Landsbankanum, að biðja hann að gera þennan hlut. Og eftir þeirri reynslu, sem stjórn byggingarsjóðsins hefur haft undanfarið, sem á helzta bankastjórann fyrir formann, er sú reynsla sannarlega ekki svo glæsileg, að það væri gaman fyrir dómsmrh. að vera í þeirri aðstöðu. Ég skil það ofur vel, að bæði dómsmrh. og fjmrh. sé illa við að skylda Landsbankann í máli eins og þessu. Það er engan veginn skemmtilegt að fara inn á þessa leið. En það er köld og nöpur reynsla, að við höfum orðið að gera þetta, og með því hefur okkur tekizt að knýja stórmál fram, þrátt fyrir það, að bankinn upphaflega stritaðist á móti eins og hann gat. Þess vegna er það, að ég mun mælast til þess við dómsmrh., að ef hann ekki gæti fengið yfirlýsingu frá fjmrh. um, að hann tryggði það, beinlínis gæti nú tryggt það, að stjórn Landsbankans mundi kaupa skuldabréfin fyrir allríflegar upphæðir, hvort ekki væri þá betra fyrir hann að fá þessa heimild frá Alþ. Ég held, að meira að segja flokkur hans hafi þá reynslu frá gömlum tímum, að gagnvart Landsbankanum sé nú vissara að standa nokkuð sterkur. Það hefur komið fyrir, jafnvel þegar Alþfl. átti ráðh. í ríkisstj., að Landsbankinn hefur sýnt sig að vera erfiður, þegar Alþfl. hefur viljað fá fram mjög mikilvæg mál. Þannig að enn er tækifæri til þess að samþ. þetta og tryggja þar með heppilega framkvæmd á þessu frv., og vildi ég mjög leggja áherzlu á, að það yrði gert. Það er vitanlegt, að þjóðin ætlast til þess, að þetta þýðingarmikla frv. verði framkvæmt. Og hún mundi verða fyrir alvarlegum vonbrigðum, ef af hálfu Alþ. yrði ekki gengið betur frá því en svo, að nokkrir embættismenn í Landsbankanum gætu hindrað okkur í að framkvæma þetta mál, sem hér er verið að framkvæma.

Viðvíkjandi því, sem hv. 4. þm. Reykv. minntist á um till. á þskj. 872, viðvíkjandi innflutningi á byggingarefni, þar sem hann talaði um, að það væri á valdi viðskiptaráðs, hvernig þetta væri ákveðið, þá vil ég hreint segja, að það er einmitt undir valdi viðskiptaráðs, sem ég vildi ekki eiga í þessum efnum. Það er til þess að forða þessu, að ég samþykki þessa brtt. Maður veit, hvað erfitt er að fá fram nokkrar breyt. til bóta á störfum viðskiptaráðs. Allur þingfl. hv. 4. þm. Reykv. er búinn að leggja fram sérstaka þáltill. í því skyni að fá fram breyt. í þessu efni, og þrátt fyrir það, þó að búið sé að samþ. breyt. á þessum l., hefur ekki tekizt að fá þessar breyt. fram. Ég held það sé þess vegna mjög heppilegt að eiga þetta ekki undir valdi viðskiptaráðs, heldur væri byggingarfélögunum tryggður þessi innflutningur. Viðvíkjandi því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að byggingarfélögin væru of smá til þess að þetta kæmi að notum, þá held ég, að það sé ljóst, að þó að innflutningsleyfum og gjaldeyrisleyfum væri úthlutað til þessara félaga, þá held ég, að þessi byggingarfélög mundu hafa samstarf um það að kaupa inn þetta byggingarefni. Náttúrlega hefði mátt leggja þetta í hendur byggingarsjóðanna, og það kom fram till. frá einum þm. í mínum flokki um sérstaka stofnun, sem hefði með að gera byggingarefnisinnflutning, því að við vitum, að það er ákaflega mikilvægt, að byggingarefni sé sem álagningarminnst. Það hafa því verið nægileg tækifæri til þess að tryggja, að byggingarvöruinnflutningur yrði hagnýttur sem bezt, svo að það er ekki það, sem hefur valdið. Nú skilst mér, að þessi till. sé fram komin til þess að tryggja, eftir að aðrar till. hafa verið felldar, að þessi byggingarfélög fái að breyta leyfum sínum, og ef þau leyfi eru svo smá, þá trúi ég ekki öðru en að lítil félög hafi vit á því að hafa samstarf sín á milli. Hins vegar vil ég taka það fram, að ég mundi hafa hallazt að því, sem hæstv. félmrh. hefur álitið heppilegt, að það væri hægt að tryggja byggingarvöruinnflutning til svona félaga í miklu stærri stíl, og hér var lögð fram till. um það, sem var felld. Ég held þess vegna, að till. á þskj. 872 sé heppileg. Hef ég áður lýst skilningi mínum á henni, sem sé, að hún ætti að tryggja rétt fyrir það byggingarefni, sem þyrfti. Ef till. er skilin þannig, þá þýðir það forréttindi til handa þessum byggingum. Ég hef ekki heyrt skýringu hv. flm. á þessu, en álít mjög æskilegt, að hún komi fram.