20.03.1946
Neðri deild: 91. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (2669)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Mál þetta, er hér liggur fyrir, er frá landbn. Hafa við það verið fluttar 2 brtt. — Mig langar til að segja nokkur orð um málið í heild sinni.

Landbn. hefur haft frv. til meðferðar og rætt það mjög. Teljum við það vera mjög til bóta fyrir íslenzkan landbúnað. Að sumu leyti tel ég, að málið hafi ekki alls kostar batnað hjá landbn. Frv. þetta er annar hluti af frv., sem flutt var af hæstv. dómsmrh. á síðasta þ. í hv. Ed. Því máli var vísað frá og til nýbyggingarráðs. Þetta frv. er á þskj. 463 og er 181. mál. Markmiðið með frv. í öndverðu var að greiða fyrir nýbyggingum, og eru ákvæðin um Byggingarsjóð að mörgu leyti látin óbreytt haldast. En hvort tveggja var þó eftir, þegar búið var að semja frv., að setja ný ákvæði um teiknistofuna og styrkinn. — Sú breyting, sem hlyti að verða á landbúnaðinum, vakti fyrir flm. og einnig hitt, að nýbyggingarnar væru annar þáttur þeirra landbúnaðarframkvæmda, er hér um ræðir, enda næði hann eigi heldur til eldri löggjafar. Ég tel þetta mikinn skaða. Erfitt verður að framkvæma þessa hluti. Það er hætt við því, að fjármagnið verði látið ganga í einstök býli til viðhalds því, er áður var gert, og muni ekki ná fullum árangri sú aðferð. Ég held, að betra væri að láta frv. um nýbyggingar vera sér, en þeim þætti o. fl. var blandað saman í einn hrærigraut, og er nú gráu bætt ofan á svart með því að fella ný málefni beint inn í það fyrirkomulag, sem áður var. Mér finnst vera álitið allra meina bót, að landbúnaðurinn fái véltæknina í þjónustu sína. Að því leyti má þess gæta, að töluvert fólk mun þurfa, ef hraðvirkar vélar fást, — og þær fást. Og þannig er því farið um afraksturinn, að við áttum okkur ekki á því, hvað tæknin getur verið fljót að koma. Af þessu má það vera ljóst, að byggðin verður að færast saman. Það verður ekki hægt að byggja landbúnaðinn upp eins og í gamla daga. Við getum ekki fyllilega gert okkur grein fyrir hinni gömlu tíð. Við sjáum, að lítill hlutur liggur eftir mannsorkuna, borið saman við það, sem nú er. Tel ég samvinnu nauðsynlega við hina nýju tækni.

Ég er að þessu leyti andvígur þeim breyt., er hér á að gera. Ég flyt hér 2 brtt. á þskj. 588, að byggt verði upp, eins og þar segir. Ég held, að allt, sem gert er, dragi málið inn á sömu brautir og áður, frá 1941. Við getum ráðið það af þessu frv. Í þeirri mynd, sem málið kom í til landbn., var gert ráð fyrir, að 10 býli yrðu saman. Landbn. færði töluna niður. Við sjáum, ef t. d. teknar yrðu hraðvirkustu vélarnar, að þá mundi vart hægt að fá nægilegt starf fyrir þær, ef eigi væru a. m. k. 10 býli í byggðarhverfi, þ. e. saman um notkun vélanna.

Þetta vildi ég taka fram á undan. Kem ég þá að brtt. mínum á þskj. 588.

Fyrri brtt. er við 6. frvgr. og um eignarnámið. Svo er málum háttað, þegar málið kemur í Nd. og ljóst verður, að fá þurfi lóðir til almenningsnota, og líka hitt, að í því skyni beri að veita heimild til eignarnáms, að þá er engu líkara en það þyki eiginlega algert eignarrán. Venjulegast er svo farið, þegar taka á land eignarnámi, að allt og sumt, sem knýr til þess að taka það, er, að búið er að vinna að því, — að landið er orðið verðmætt. Þannig er um land það, er tekið hefur verið undir nýbyggingarnar, að hið opinbera hefur síðan tekið það til ræktunar. M. ö. o., hér um bil ætíð hefur öll verðhækkun, sem orðið hefur, sjaldnast stafað af tilverknaði landeigandans sjálfs. Hið opinbera hefur þar meiri áhrif en einstaklingurinn. Þess vegna finnst mér, að eignarnámið eigi að framkvæma eftir mati. Ég veit, að þetta verður til þess, að landið verður ekki tekið nema um byggðarhverfi sé að ræða. — En svo er líka önnur hlið á þessu máli. Ég er sízt af öllu að bera brigður á, að menn fái eðlilegt verð fyrir framkvæmdir sínar. En hitt mætti athugast, að vafasamt er, hvort maður, er ekkert hefur aðhafzt á landareign sinni, hafi þá skýlausan eignarrétt. Ef einstaklingar sjá sér hag í að kaupa eitthvert land, þá hugsa þeir ekki svo mjög um helgi eignarréttins. Ég er sannfærður um, að ekki ein jörð hefði verið seld, sem þannig hefði verið ástatt um. Við teljum þetta til hagsælda horfa fyrir þjóðina.

Síðari brtt. mín á þskj. 588 er við 28. frvgr. Svo vildi ég láta orða síðari hluta gr. sem þar segir. Ef til vill vantar í frv. þetta, og er breyt. mín þess vegna. Þannig er upp byggt, að gert er ráð fyrir, að ríkið nemi landið, en svo, þegar búið er að rækta og byggja á því, þá kaupi menn það. Nú vantar í frv. ákvæði um, hversu haga skuli til, verði jarðirnar leigðar, en þá er þörf leigumála. Taldi ég rétt, ef um leigu yrði að ræða, að þá þyrfti ekki að borga 25%, heldur teldist ábúandinn eigandi bygginga þeirra, er hann reisti sjálfur, og eins yrði hans eign það, sem hann ræktaði í viðbót, en honum bæri svo aftur að greiða leigu eftir hitt.

Að endingu vildi ég taka þetta fram : Mér finnst frv. horfa til bóta í heild sinni. Þó er ég óánægður með stefnuna. Mér þykir vera farið út á þá braut, að viðbúið sé, að í því sama lendi með landnámssjóð sem áður. Tel ég hyggilegast, að nýbýlin verði látin vera sér á blaði.

Ég held, að það verði síður farið inn á þær brautir, er menn hér ætla að þræða, en þær, sem fara verður, ef landbúnaðurinn á að verða samkeppnisfær við aðra atvinnuvegi í landinu.