21.03.1946
Neðri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að um leið og það öðlast gildi, ef það verður samþ., þá falli úr gildi að mestu leyti l. frá 1941, um Byggingar- og landnámssjóð. Og í brtt., sem fyrir liggja frá hv. landbn., er lagt til, að þessi l., sem ég nefndi, falli að öllu leyti úr gildi um leið og þetta frv. verður að 1. Sömuleiðis er lagt til að fella úr gildi l. nr. 58 frá 1941, um landnám ríkisins. Enn fremur er sagt, að þessi löggjöf komi að öllu leyti í staðinn fyrir þessi eldri l., enda er tekið upp í þetta frv. margt af því, sem er í núgildandi l., þó að nokkur af ákvæðum hinna eldri l. séu ekki tekin upp í þetta frv., og hef ég við samanburð á þeim sérstaklega komið auga á einn kafla l. frá 1941, um Byggingar- og landnámssjóð, en það er III. kafli þeirra l., en í hans stað eru tekin upp í þetta nýja frv. önnur ákvæði. Samkv. gildandi l. um byggingarstyrk leggur ríkissjóður árlega fram nokkra fjárupphæð, sem varið hefur verið til að styrkja endurbyggingu bæjarhúsa á jörðum. Og þó að þarna hafi aldrei verið um stóra fjárupphæð að ræða, hefur þetta komið að talsverðum notum og verið verulegur styrkur fyrir ýmsa, sem hafa orðið að ráðast í endurbyggingu á jörðum sínum. Og ég geri ráð fyrir, að það valdi töluverðum vonbrigðum hjá ýmsum, ef þetta verður fellt niður. Mér þótti vænt um að heyra, að einn af nm. landbn., hv. þm. Mýr., gat þess í ræðu sinni í gær, að hann vildi athuga þetta nánar og jafnvel flytja um það brtt., að ákvæði í þessa átt yrði tekið upp í frv. Eins og hann benti á, held ég, að það væri ekki nein hætta fyrir ríkissjóð að verja nokkru fé árlega í þessu skyni, þannig, að menn gætu valið um það, hvort þeir tækju eingöngu hærra lán til byggingar, eins og nú er gert ráð fyrir í frv., eða fengju að nokkru leyti óendurkræfan styrk og þá minna lánsfé og e. t. v. með eitthvað hærri vöxtum. Ég vildi vænta þess, að samkomulag gæti orðið um að taka þetta ákvæði um endurbyggingarstyrkinn upp í þetta frv. áður en það verður afgr. héðan úr hv. deild.

Ég vildi þá líka víkja nokkuð hér að einstökum atriðum þessa frv., og er það þá fyrst 6. gr. þess, en hv. landbn. leggur til, að á þeirri gr. verði gerðar lítils háttar breyt. Í 6. gr. eru ákvæði um landnám, sem skuli fara fram á landi, sem er eign ríkis og bæja eða byggðarfélaga. Og enn fremur að keypt skuli land í þessu skyni, þar sem þess gerist þörf, og er heimilt að taka jarðir, sem ekki eru í sjálfsábúð, eignarnámi til þessara nota og einnig einstakar sjálfseignarjarðir, sem ekki næst samkomulag um kaup á og eru inni á milli landssvæða, sem taka á til landnáms. Ég vildi benda á í þessu sambandi, að ég tel það varhugavert að gera þarna upp á milli þeirra, sem búa á eigin jörðum, og ýmissa annarra manna, sem búa á leigujörðum. Ég get ekki séð ástæðu til þess, hvers vegna ætti frekar að taka af þeim mönnum, sem þannig eru settir, en sjálfseignarbónda. Það er áreiðanlega hægt að finna mörg dæmi þess, að menn, sem búa á leigujörðum, hafa þannig samninga um .ábúð, að það jafngildir í raun og veru sjálfsábúð. Þeir hafa jörðina samkv. byggingarbréfi á leigu til lífstíðar og jafnvel þannig um samið, að eftirkomendur þeirra geta tekið við ábúðinni á þessum jörðum. Ég sé ekki, hvers vegna ætti frekar að taka slíkar jarðir eignarnámi og þar með svipta þessa menn ábýlisjörð sinni heldur en sjálfseignarbóndann. — Ég vil þess vegna mælast til þess við hv. n., að hún taki til athugunar þessa gr. nánar.

Þá er hér næst 14. gr. frv., sem er um lánveitingar byggingarsjóðs, en við hana er brtt. á þskj. 565 frá landbn. En mér virðist þessi brtt. n. vera þannig orðuð, að ef hún verður samþ., gætu menn fengið lán úr sjóðnum t. d. til þess að byggja á jörðum sínum, sem næmi öllum byggingarkostnaðinum. Í brtt, stendur: „Lánin mega vera það hæst, að samtals hvíli á jörðinni allt að 75% fasteignamatsverðs að viðbættu kostnaðarverði þeirra bygginga, sem reistar kunna að verða.“ Nú skulum við hugsa okkur, að engin lán hvíli á jörðinni og fasteignamatsverð sé 25 þús. kr. Síðan byggir jarðareigandi hús, sem kostar 75 þús. kr., og þá getur hann samkv. þessu ákvæði í brtt. n. fengið allt að 75 þús. kr. lán, eða sem svarar öllum byggingarkostnaði. Ég tel ástæðu til þess að athuga það nánar, hvort það væri ekki rétt, að hafa þessi ákvæði t. d. þannig, að til bygginga á jörðum væri ekki lánað yfir 75% af byggingarkostnaði og síðan mætti jafnframt hafa ákvæði um það, að lán, sem hvíla á jörðum, mættu ekki nema meiru en — eins og þarna segir — 75% af fasteignamati að viðbættu kostnaðarverði bygginganna, sem reistar kunna að verða.

Hv. landbn. leggur til, að 22. gr. verði alveg orðuð um. Í brtt. n. segir svo : „Búnaðarbanki Íslands annast framkvæmdastjórn sjóðsins og skal bankastjórinn ákveða allar lánveitingar hans.“ En í næsta málslið á eftir segir þó : „Um lánveitingar til nýbýla jafnt í byggðahverfum sem til einstakra býla skal hann fara eftir till. nýbýlastjórnar.“ Mér skilst á upphafi gr., að bankastjóri Búnaðarbankans skuli ákvarða þessar lánveitingar, en seinna er sagt, að farið skuli með þær eftir till. nýbýlastjórnar, og virðist mér því, að í síðari liðnum sé tekið aftur ákvæði, sem sé í þeim fyrri.

V. kaflinn er um byggðarhverfi, og skilst mér, að hann eigi að koma í stað ákvæða núgildandi l. um nýbýli og samvinnubyggðir. Það skiptir ef til vill ekki miklu máli, hvort þetta er kallað byggðarhverfi eða samvinnuhverfi, en mér finnst, að gjarnan mætti taka til athugunar, hvort ekki væri hægt að finna hér annað nafn.

Í 28. gr. frv. segir svo : „Þegar ákveðið hefur verið, að byggðarhverfi skuli reist á landi, sem ríkið hefur áður numið, skal landnámsstjóri láta rækta 5 ha. túns og reisa íbúðarhús og nauðsynlegustu peningshús, hlöður og verkfæraskemmur þeirra býla, sem þar eiga að rísa.“ Síðan segir svo, að hann skuli fá lán til þessara framkvæmda úr Byggingarsjóði. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á fyrirmælum, sem eru í núgildandi l. um nýbýli og samvinnubyggðir. Þar segir t. d. svo í 2. tölul. 25. gr.: „Áður en hafizt er handa um stofnun samvinnubyggða skal formaður nýbýlastjórnar tryggja það, eftir því sem hann telur þurfa, að nægilega margir ábúendur í væntanlegri samvinnubyggð séu reiðubúnir að mynda félag og gera með sér samþykkt samkvæmt ákvæðum l. (þ. e. 27. gr.).“ Þarna er í gildandi l. gert ráð fyrir því, að það skuli athugað, hverjir vilji gerast þátttakendur í þessum byggðarfélagsskap, og tel ég, að bæri að athuga, hvort ekki væri rétt að setja eitthvert slíkt ákvæði þarna inn í, í stað þess að gera ráð fyrir því, að ríkið komi þessum framkvæmdum upp án nokkurs samráðs við væntanlega bændur á þessum býlum. — Þá segir enn fremur í sömu l., 3. málsl. 25. gr.: „Væntanlegir ábúendur í samvinnubyggðum skulu, eftir því sem um semst og unnt er, vinna að stofnun býlanna.“ Hins vegar er ekki gert ráð fyrir þessu í frv. því, sem hér liggur fyrir, nema að vísu í 35. gr. þess, þar sem gert er ráð fyrir, að ef 10 menn eða fleiri — en 5 samkv. brtt. n. — stofni með sér félag, þá vinni þeir að þessu, en að öðru leyti er gert ráð fyrir því í þessu frv., að það verði ríkið, sem reisi þetta að verulegu leyti, og síðan komi það til á eftir, hverjir vilji gerast bændur á þessum býlum. — Hér stendur enn fremur í 4. lið 25. gr. í núgildandi l.: „Nýbýlastjórnin ákveður býlafjölda í hverri samvinnubyggð, hversu mikið land skuli fylgja hverju býli í samráði við ábúendur, svo og hvers konar búskapur skuli aðallega stundaður á býlunum.“ Í gildandi l. er því gert ráð fyrir því, að þetta verði frá upphafi gert í samráði við væntanlega bændur á þessum býlum. Álít ég, að skynsamlegra sé að hafa slíkt ákvæði í þessum tilvonandi l., því að það er vel hugsanlegt, að þeir, sem vilja gerast þátttakendur í þessum félagsskap, vilji þegar frá upphafi vinna að verulegu leyti að framkvæmdunum í stað þess að kaupa allt, eins og gert er ráð fyrir í frv., og taka við lánum, sem nemi 75% af kostnaðarverði, en borga hinn hlutann úr eigin vasa. Vildi ég mælast til þess, að hv. landbn. taki til athugunar, hvort ekki væri hægt að gefa væntanlegum ábúendum kost á að framkvæma þetta að einhverju leyti sjálfir og að fylgjast með framkvæmdunum frá byrjun.

Þá segir svo í 30. gr. frv.: „Ef eigandi og ábúandi býlis í byggðarhverfi vill selja býli sitt, hefur Byggingarsjóður forkaupsrétt að því gegn kostnaðarverði að frádreginni fyrningu.“ Sams konar ákvæði er og í 40. gr. frv., þar sem ræðir um einstök nýbýli : „Ef eigandi nýbýlis vill selja það eða verði að láta það af hendi, gilda um það sömu reglur og um sölu og afhendingu býla í byggðarhverfum.“ Samkv. þessu er gert ráð fyrir því, að Byggingarsjóður sé ekki eingöngu lánsstofnun, heldur fáist hann einnig við jarðakaup. Hins vegar hef ég ekki séð ákvæði í frv. um það, hvað Byggingarsjóður eigi að gera við þessi býli, sem hann þannig eignast, þ. e. hvort hann eigi að leigja þau út eða selja og þá eftir hvaða reglum sú sala yrði framkvæmd. Finnst mér nauðsynlegt að hafa skýr ákvæð um þetta í frv., úr því að rétt þykir að láta Byggingarsjóðinn hafa forkaupsréttinn að býlunum.

Þá segir svo í 43. gr. frv.: „Ef ábúenda- og eigendaskipti verða við sölu á fasteign, sem veðbundin er Byggingarsjóði, skal sjóðurinn, nema um erfðaskipti sé að ræða, hafa forkaupsrétt að eigninni,“ — og er þetta í samræmi við þær tvær gr., sem ég hef áður gert að umtalsefni — „og ef um nýbýli er að ræða, gegn kostnaðarverði að frádregnu metnu álagi vegna fyrningar og skemmda, enda er enginn kaupsamningur m eignina gildur nema með árituðu samþykki sjóðsstjórnarinnar eða þess fulltrúa hennar, sem umboð hefur til slíkrar áritunar. Með þessum ákvæðum í þrem gr. frv., þ. e. 30., 40. og 43. gr. þess eru lagðar allmiklar kvaðir á bændur. Með þeim er að verulegu leyti tekinn af þeim umráðarétturinn yfir jörðunum og þeim er ekki frjálst að selja jarðir sínar hverjum sem er og fyrir hvaða verð sem er, fyrir það verð, sem býðst, þegar um nýbýli er að ræða. Þetta eru engin nýmæli í l., því að oft áður hafa verið settar ýmsar kvaðir á menn í sambandi við lánveitingar og styrki frá því opinbera. Það var stundum hér áður talað um 17. gr. jarðræktarl. meðan hún var og hét, og var árum saman mikill blástur hér á hæstv. Alþ. út af þeirri gr. Voru þau ákvæði, sem þar um ræðir, þó miklu vægari en þau, sem í þessu frv. er um að ræða, því að í þessari 17. gr. var ekki sett hámarksverð á jarðir til sölu, enda sýndi það sig í framkvæmdinni, að þessi ákvæði voru ekki háskaleg. En það hafa líka verið í l. til skamms tíma önnur ákvæði um kvaðir á jarðeigendur og er þau að finna í l. um nýbýlasjóði frá 1941. Í 30. gr. þeirra l., sem var í kaflanum um réttindi og skyldur ábúenda og fjallaði um nýbýli, var ákvæði um það, að skylt væri að tilkynna nýbýlastjórn, ef nýbýli væru seld, og væri kaupsamningur því aðeins gildur, að hún samþykkti hann. Þetta ákvæði er nú tekið upp í þetta frv. Síðan var í þessari 30. gr. nefndra l. ákvæði um það, hvað selja mætti þessi býli hæst, en þó eru þau ekki nákvæmlega eins og þau eru í þessu frv., en hliðstæð. Það er einnig í þessu frv. ákvæði um hámarksverð á þessum jörðum, en það er gengið enn lengra, því að í frv. er bætt við einum nýjum aðila, sem á að hafa forkaupsrétt, til viðbótar við það, sem var samkv. eldri l., þar sem er Byggingarsjóður. Í 47. gr. í þessum eldri l. voru ýmsar kvaðir settar, ef ábúenda- og eigendaskipti urðu við sölu á fasteign eða ef um samninga var að ræða, og þetta er nú tekið upp í frv. það, sem nú liggur hér fyrir. Hafa þessi ákvæði eldri l. verið felld úr gildi, einmitt fyrr á þessu þingi, þ. e. 17. gr. jarðræktarl. og þessi ákvæði í 30. og 47. gr. um Byggingar- og landnámssjóð. Snemma á þessu þ. var flutt frv. til l. um breyt á l. um Byggingar- og landnámssjóð. Var það 23. mál og flutt fyrst af hv. Ed., kom síðan til þessarar hv. d. og var afgr. til hv. landbn., er skilaði áliti um það 11. febr. þ. á. Lagði meiri hl. n. til, — en frsm. hennar var hv. þm. A.-Húnv. (JPálm), sá hinn sami, sem er frsm. í máli því, sem hér liggur fyrir, — að 30. og 47. gr. þessara l. skyldu felldar niður. Var frv. afgr. sem l. frá hæstv. Alþ. 25. febr. í vetur. Ég held, að þessi sami hv. þm. hafi haft framsögu af hálfu hv. landbn. um 17. gr. jarðræktarl. Nú er senn liðinn mánuður síðan þessi ákvæði voru numin úr l. og virðist þá tími kominn — eftir að Adam er búinn að vera svona lengi í Paradís að taka þau í l. aftur. Ég sé að vísu ekkert athugavert við það, að ákvæði séu í þessu nýja frv., sem eiga að hindra, að farið verði að braska með þessi býli, en álít, að setja verði nánari fyrirmæli um það, hvernig Byggingarsjóðurinn eigi að fara með þær jarðir, sem hann kaupir, þannig að hann geti ekki sprengt upp verðið á þeim. Eins og ég hef þegar leitt rök að, þá er um hliðstæð ákvæði að ræða í þessu nýja frv. við þau, sem búið er að nema úr l. fyrr á þessu þingi, og lítur því út fyrir, að mönnum þyki eitthvað sætara á bragðið, þegar þessi ákvæði koma nú í frv., sem samið er af nýbyggingarráði, heldur en þegar þau eru í eldri l. En menn fá þarna ef til vill skýringu á því, að þingið stendur nokkuð lengur en ýmsir gerðu ráð fyrir í upphafi, því að þegar flutt eru tvö frv. snemma á þessu þingi um það að nema burt úr l. ákveðin fyrirmæli og síðan flutt frv. á sama þingi um að taka þau aftur í l., þá flýtir slíkt ekki fyrir störfum þingsins.

Loks vildi ég minnast hér á 38. gr. frv., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta : „Sá, sem reisa vill nýbýli og hefur tryggt sér til þess umráðarétt á landi, sendi landnámsstjóra umsókn um, að hann fái heimild til að reisa býli, er njóti þeirra hlunninda, er lög þessi veita. Landnámsstjóri lætur þá athuga alla aðstöðu til stofnunar nýbýlisins og úrskurðar, hvort hús séu nægilega góð til þess, að stutt skuli að því, að býlið skuli reist.“ Vildi ég spyrja að því hvort hús væru yfirleitt á þessum stöðum. Er þetta líklega prentvilla og þyrfti að sjá um, að þetta verði leiðrétt, því að annars getur það valdið misskilningi, ef frv. verður að l. með þeim breyt., sem til bóta eru, sem ég vona, því að ég tel það að ýmsu leyti vera til bóta, þar eð í því er gert ráð fyrir meira fjárframlagi til Byggingar sjóðs en veitt hefur verið til þessara mála áður.