01.03.1946
Neðri deild: 78. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af tveim mönnum í nýbyggingarráði, sem sæti eiga hér í d., í samráði við ríkisstj., og skal ég gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna frv. er flutt.

Eitt af því, sem nýbyggingarráði var falið að gera, var að athuga, hvaða staðir væru heppilegir til að koma á fót slíkum bæ, sem um ræðir í þessu frv. Segja má, að flestir bæir og þorp á Íslandi, hafi frekar sprottið upp af handahófi en af athugun á því, hvort einn staður öðrum fremur gæti talizt haganlega settur til slíkra hluta. Hefur einatt ráðið mestu, hvort einhver einstaklingur hefur ráðizt í atvinnurekstur á tilteknum stað, án tillits til legu hans eða framtíðarskilyrða, enda má sjá þess glögg merki, að margir staðir eru miður heppilega valdir. Má í því sambandi t. d. benda á Siglufjörð, sem virðist ekkert hafa fram yfir t. d. Dalvík, Hofsós eða Þórðarhöfða, nema síður sé. Ljóst dæmi um þetta er einnig útgerðin frá Akureyri, sem er óðum að hverfa. Við í nýbyggingarráði höfum álitið það okkar hlutverk að athuga, hvernig heppilegast sé að haga byggingu slíks bæjar frá byrjun. Ég minnist þess, þegar ég gekk í skóla á Siglufirði, að þá var skólahúsið allofarlega á eyrinni, en nú hefur byggðin aukizt þannig, að skólinn er kominn inn í mitt verksmiðjuhverfið. Fleira mátti til nefna, sem sýnir hið algera skipulagsleysi, sem ríkt hefur í þessum málum undanfarið. Fólkið hefur flutzt úr sveitinni, komið sér upp litlum og ljótum húsum af hinum mestu vanefnum og í fullkomnu skipulagsleysi.

Það, sem okkur þótti fyrst liggja fyrir, var að velja heppilegan stað undir þennan framtíðarbæ, og skal ég nú gera grein fyrir, af hverju Höfðakaupstaður varð fyrir valinu. Eins og kunnugt er, er síldin sú auðsuppspretta, sem ætla má, að þjóðarbúskapur Íslendinga byggist einna mest á um ófyrirsjáanlega framtíð. Aðalsíldveiðitíminn stendur nú yfir um tveggja mánaða skeið, en á þeim tíma veiðist svo mikið magn af síld, að það samsvarar allri þorskveiði landsmanna, en næringargildi síldarinnar er miklu meira en í nokkrum öðrum fiski, sem hér veiðist. Möguleikarnir eru því stórkostlegir til iðnaðar í sambandi við þessa veiði. Þessi auðsuppspretta gerir það að verkum, að sjálfsagt var að velja fyrirhuguðum bæ stað á Norðurlandi og þá helzt við Húnaflóa. Jafnframt er einnig vitað, að sú síld, sem mest er eftirsótt til niðurlagningar og kryddunar, er úr Húnaflóa. Hins vegar hafa síldarstöðvar við Húnaflóa verið mjög litlar, vafalaust meðfram sökum þess, að einstaklingar hafa átt lönd þar að, sem ekki hafa verið svo efnum búnir, að þeir hafi getað komið upp síldarverksmiðjum eða söltunarstöðvum. Ég vil bara nefna sem dæmi um það, hvert handahóf oft er í því, hvar síldarstöðvar eru settar niður, að H.f. Kveldúlfur hefur reist síldarverksmiðju á Hjalteyri, sem er norðarlega við Eyjafjörð, langt frá beztu síldarmiðunum, og ástæðan til þess er sú, að viðkomandi félag átti þarna land. Og af því, að þetta félag einhvern tíma fyrir mörgum árum hefur keypt þetta land, er svo sett upp þarna síldarbræðslustöð, þannig að hvert skip, sem leggur upp í þá verksmiðju, verður að fara lengri leið með afla sinn en annars hefði þurft, ef síldarbræðslustöðin hefði verið sett annars staðar og nær síldarmiðunum. Nú hafa hins vegar nokkrir menn barizt í að setja síldarbræðslustöðvar við Húnaflóa, við Djúpuvík og Ingólfsfjörð. Í Djúpuvík er algerlega ófært að hugsa til þess, að menn eigi að búa árlangt, vegna aðstæðna. Það er staður, sem eingöngu verður verstöð, og að mjög miklu leyti gildir hið sama um Ingólfsfjörð. En orsakirnar til þess, að stöðvarnar eru settar þarna, eru þær, að þeir, sem settu þær, upp, fengu þarna land til þess með tiltölulega góðu móti. Hins vegar eru alls engir skynsamlegir möguleikar fyrir því, að þarna muni koma upp bæir, því að þarna er ólifandi, miðað við að vera þar allt árið: En nú er búið að koma þarna upp verksmiðjum, bryggjum og öllu mögulegu slíku, án þess að því sé svo heppilega valinn staður frá sjónarmiði þjóðfélagsins sem æskilegt hefði verið.

Þegar við svo fórum að athuga, hvar heppilegast mundi vera að setja síldarbræðslustöð, studdumst við líka við það, hvað Alþ. hefði sett í l. áður um það, hvar stjórn Síldarverksmiðja ríkisins væri heimilt að setja upp síldarbræðslustöðvar. Það er á Hólmavík, Skagaströnd, Húsavík, Siglufirði og fleiri stöðum. En það, að við leggjum til, að þessar byggingar verði reistar í Höfðakaupstað við Húnaflóa (Skagaströnd), stafar sérstaklega af því, að síldarmið eru þar nærri og þar veiðist stór og góð síld. Enn fremur er þarna staður, þar sem Alþ. hefur ákveðið, að reisa skuli síldarbræðsluverksmiðju. En sérstaklega er það með tilliti til þess, að þarna má útbúa eina mestu höfn norðanlands og þarna liggur nálægt eitt af stærstu landbúnaðarhéruðum Norðurlands, með góðum samgöngum. Þarna ætti því að vera hægt að setja upp bæ, sem hefði það fram yfir Siglufjörð, að samgöngur eru góðar við hann á landi allan ársins hring, ekki aðeins frá nærliggjandi sveitum, heldur líka suður til Reykjavíkur. Og enn fremur er þessi staður við ágæt síldarmið og þar er hægt að fá síld, sem mjög er eftirsótt vegna þess verðmætis, sem hægt er að fá úr henni, og sérstaklega vegna þess, hve hæf hún er til niðurlagningar og söltunar. Þess vegna álitum við rétt að byrja þarna á undirbúningi byggðar bæjar, þar sem ráðizt væri í stórar framkvæmdir eins og að byggja 10 þús. mála síldarverksmiðju. Sú framkvæmd krefst þess, að hægt sé að gera eða fyrir hendi sé góð höfn. — Þarna búa nú 200–300 manns. Þess vegna væri hægt að skipuleggja þarna þorp þannig, að öll byggðin, sem þarna væri reist eftir fyrirfram gerðri áætlun, mundi ekki vera á því svæði, þar sem nú er byggt, heldur ofan við það. Það væri hægt að ætla mönnum, sem þar búa, allríflegt landrými í kringum sín hús. Og af því að höfn er þarna að myndast, væri hægt að skipuleggja byggingu síldarbræðslustöðvar og verksmiðja allt í sambandi við höfnina.

Nú vil ég leggja áherzlu á það, hvaða þýðingu það hefur að gera heildaráætlun um slíkar framkvæmdir sem þessa fyrir fram. Ef á vissum stað, eins og þarna, er fyrirfram gerð áætlun um byggingu síldarbræðslustöðvar, síldarsöltunarstöðvar, niðurlagningarverksmiðju fyrir síld og í sambandi við hana, þegar kæmi að þorskveiðum, hraðfrystihúss, niðursuðuverksmiðju og svo annars, sem stæði í sambandi við þetta allt, bæði tunnuverksmiðju og dósaverksmiðju og þó ég segi þarna verksmiðju, þá yrði þetta raunverulega allt deildir í því sama, ef skynsamlega væri þarna að unnið — þá gefur að skilja, að með því að undirbúa fyrir fram teikningar og annað, má haga verki við framkvæmd þessara bygginga miklu skynsamlegar en ella. — Ef maður, sem kemur til Siglufjarðar og sér, hvernig þar hefur vaxið upp sá síldarútvegsbær, sem þar er, fer að hugsa, hvernig breyta þyrfti aðferðum við vinnuaðferðir í sambandi við síldarsöltun þar, rekur hann sig á erfiðleika við það. Bryggjur eru þar langar og verður að aka síld eftir þeim nokkuð langar leiðir, og hús eru tiltölulega langt frá þeim stöðum á bryggjum, þar ,sem síld er skipað upp. — Á Skagaströnd væri hægt, ef nóg fjármagn væri lagt fram til þess, að koma á miklu vinnusparari aðferðum við uppskipun og vinnslu á síld og þorski. Og það væri hægt að byggja, þegar í það væri ráðizt, hús, sem gætu að sumrinu til verið síldarsöltunarstöð og að vetrinum niðurlagningarverksmiðja, til þess að skaffa því fólki, sem þarna byggi, atvinnu allt árið um kring og til þess að geta unnið á hinn vinnusparasta hátt, sem hægt er að hugsa sér, úr þeim afurðum, sem þarna eru framleiddar að sumrinu. Þetta er hægt að gera, svo framarlega sem hægt er að skipuleggja fyrir fram það, sem okkur hefur verið dýrast af okkar vinnu í þessu sambandi, sem er flutningur á fiski og síld frá því að skipað er upp og þar til þessum vörum hefur verið komið á þann stað, þar sem á að vinna úr þeim. En að þetta hefur verið okkur svo mjög dýrt, stafar af því, að þegar sköpuð voru vinnuskilyrðin, hefur ekki verið tekið tillit til þess svo sem þurft hefði að vera, að aðstaða væri svo þægileg sem æskilegt væri til vinnunnar. Og sama býst ég við að gildi að því er snertir þorskveiðarnar, eins og að því er síldina snertir. Ég held, að eitt af því, sem fyrir okkur liggur að gera hér á næstunni, sé að reyna að tryggja, að okkar fiskimið verði betur hagnýtt en verið hefur, með því að útgerð sé stunduð meira frá ýmsum stöðum í landinu en verið hefur, öðrum en aðalveiðistöðvunum. Undanfarið hefur fiskveiðifloti okkar sótt mest á Faxaflóa að vetrinum til, en önnur fiskimið, sem við eigum allt í kringum landið, hafa á þeim tíma lítið verið hagnýtt. Það er þess vegna ekki vafi á því, að meðan svo er, er okkar útgerð stofnað í meiri hættu en vera þyrfti, ef við gætum haldið fiskiskipaflota okkar að veiðum allt árið, líka frá verstöðvum austan- og vestanlands, jafnvel þó að afli væri minni þar, og verðum við að sjá það við þá sjómenn, sem þar stunduðu fiskveiðar. Ég átti ekki alls fyrir löngu tal við sjómann á Hólmavík, sem gert hefur út tvo báta, 15 og 27 tonna, og hefur allan ársins hring látið þá veiða á Húnaflóa og á Strandagrunni og Skagagrunni og hafði með því mjög sæmilega afkomu, með því að bátarnir stunduðu veiði þarna allt árið um kring. Og ef menn hefðu stærri báta og betri aðstöðu í landi til þess að taka á móti aflanum og vinna úr honum eftir þörfum, þá hygg ég, að frá Höfðakaupstað væri hægt að stunda fiskveiðar árið um kring, þannig að ekki þyrfti að senda bátana suður á vertíð. Þetta mundi náttúrlega fara mjög eftir afla á hverjum tíma. En ef menn ættu hraðfrystihús í Höfðakaupstað og hefðu hagsmuni af því að leggja fisk í hraðfrystihús, og það fram yfir það að senda bátana suður á vertíð, þá mundi það verða eitt atriði, sem héldi mönnum að útgerð þar. Og ef svo væri, eins og ætti að vera á hverjum stað, þar sem þorskveiði er stunduð, að ekki væri aðeins hraðfrystihús þarna, heldur líka fiskimjölsverksmiðja, þá mundi það líka hjálpa til að bæta afkomu báta, sem þaðan stunduðu veiðar, því að nú er um helmingi þorskaflans víða á Íslandi fleygt, svo sem hausum og beinum. Og þetta kæmi mjög til greina nú, þegar fiskimjöl er nú í því allra hæsta verði, sem það nokkru sinni hefur komizt í. Ég hygg því, að ef vel væri búið að hraðfrystihúsi eða húsum þarna í Höfðakaupstað og fiskimjölsvinnslutæki væru þar og þetta hvort tveggja til frá upphafi byggðar Höfðakaupstaðar og svo fyrir komið, að ekki þyrfti að vera að sópa upp beinum og hausum af gólfinu í hraðfrystihúsunum, eftir að búið er að flaka fiskinn, heldur því svo fyrir komið, að jafnóðum og hann væri flakaður félli fiskúrgangurinn frá flökuninni niður á reim, sem flytti hann inn í næsta herbergi við, þar sem fiskimjölsvinnslutæki væru, — ef slíkur útbúnaður væri þarna til frá upphafi, þá mætti áreiðanlega búa það vel að útgerðinni, að útgerðarmenn og sjómenn ættu hagsmuni sína betur tryggða en nú er á þessum stöðum, með betri hagnýtingu fiskafurðanna. Og með því yrðu ýmis af okkar beztu fiskimiðum betur notuð, þar sem þau nú eru illa notuð, en eru okkar mestu auðlindir. Við í nýbyggingarráði álitum þess vert að reyna að gera slíka tilraun, til þess að vita, hvort ekki væri hægt að skapa ákveðið plan fyrir fram um það, hvernig atvinnutækin ættu að vera, og láta þau passa hvert við annað. En það er ekki tilætlun nýbyggingarráðs, að það eigi að vera ríkið eða sá bær eða sýsla, sem þetta væri í, sem ræki þetta og ætti þetta, heldur er meiningin að fella þarna saman það framtak, sem til er — á þessum stað eða annars staðar á landinu, sem þarna vill vinna að einkaframtaki eða félagsframtaki. Nýbyggingarráð vill vekja áhuga manna almennt fyrir þessu og fá menn úr hópi þeirra áhugamanna, sem vildu beita sér fyrir þessu, hvort sem það væri þarna á þessum stað eða annars staðar á landinu, og sameina þann áhuga, sem væri fyrir þessu, og reyna að skapa samkv. fyrirfram gerðri áætlun hagfelldan rekstur á þessum stað, þannig að sá rekstur væri eins hagnýtur og vísindalegur sem frekast væri unnt með þeim aðferðum, sem við nú þekkjum til í okkar atvinnu, svo að atvinnan bæri sig sem bezt. — Og samhliða því, að við leggjum til, að reynt verði að koma upp skilyrðum fyrir, að síldveiði og þorskveiði yrði stunduð með slíkum aðferðum, sem ég hef greint, álítum við, að þau góðu landbúnaðarskilyrði, sem eru í kringum Höfðakaupstað, þar sem hann er fyrirhugaður og í nærsveitum þar, gefi líka möguleika til landbúnaðarframkvæmda, sem yrðu reknar með þeim áhuga, sem alltaf sýnir sig að vera um ræktun í kringum kauptún. Og með þeim aðbúnaði gagnvart jarðrækt, sem að miklu leyti hefur verið fram að þessu af hendi hins opinbera, þá búumst við við því, að landbúnaðarmöguleikar mundu ekki síður verða hagnýttir af íbúum Höfðakaupstaðar en möguleikar til sjávarútvegs.

En hvernig á svo sá bær að vera, sem rynni upp á svona stað? Ef þjóðin gerir svona tilraun til að mynda samkv. ákveðinni áætlun atvinnulíf á svona stað, sem virðist vera heppilegur staður til slíks, hvernig á þá byggðin að vera í svona kaupstað, sem þannig rynni upp? Eigum við að láta fara um hana á þann venjulega hátt, sem átt hefur sér stað í þessu landi, að einn maður kemur einhvers staðar að úr þorpi eða sveit, fer að reyna að byggja yfir sig lítinn kofa á mölinni og gerir það af vanefnum og á svo erfitt með það að öllu leyti, verður fyrir það sama að láta fara verr um sína fjölskyldu en ef efni hefðu verið betri, til að byggja, og endar svo kannske með því, sem oft hefur viljað verða hjá okkur, að hann fer eitthvað annað, til þess að komast inn í íbúð, sem betur er úr garði gerð, af því að honum finnst, að hann sé að reisa sér hurðarás um öxl með því að gera þetta sjálfur. Það er einn möguleiki til þess, að menn þurfi ekki að eiga í slíkri baráttu viðkomandi húsnæði fyrir sig í vaxandi kauptúni eða kaupstað, að samtímis því, að við reynum að leggja grundvöll að slíku atvinnulífi, sem ég hef lýst viðkomandi Höfðakaupstað, yrðu gerðar ráðstafanir af því opinbera til þess að byggja íbúðarhús á svona stöðum. Þegar við höfum verið að byggja í kauptúnum, hefur það verið þannig, að einn og einn maður hefur byggt sér sitt hús án þess að það hafi verið í sambandi við byggingu annarra íbúðarhúsa. Hann fær einn meistara til þess að teikna, síðan svo eða svo marga húsameistara til þess að sjá um byggingu hússins að öðru leyti. Þetta á við bæ, þar sem slíkar kröfur eru gerðar um húsbyggingar. Og það sýnir sig, að þetta verður honum mjög dýrt. En ef aðferðin er ekki þannig, verður það venjulega útkoman, að húsin verða lítil og leiðinleg, svo að upp rís lítið og ljótt fiskiþorp. Ef þannig einn og einn er að byggja yfir sig, en ekki fleiri samtímis og í sambandi hver við annan, þá verða húsin annaðhvort mjög dýr eða lítil og ljót og ófullnægjandi, og það síðar talda verður hins vegar til þess að setja sinn svip á þorpið um langa tíð, t. d. eins og á Siglufirði. Það er ekki nema von, að við höfum byrjað böslulega með að byggja upp okkar þorp, Íslendingar, af því að við vorum sérstaklega fátæk þjóð, þegar við vorum að stíga fyrstu sporin í því efni. En nú stöndum við öðruvísi að vígi. Við erum, a. m. k. í svipinn, efnuð þjóð, og það, sem sérstaklega gerir aðalmuninn, er, að við gerum meiri kröfur til lífsins nú en þá. Og ef við ætlum að reyna að vinna að því, að það rísi upp bæir hér og hvar úti á landi, sem fólkið sæki til frekar en að það sæki flestallt til Reykjavíkur, sem til bæja flytur, þá verðum við að reyna að gera þá bæi, sem eru að skapast, það vel úr garði, að fólk vilji sækja þá til búsetu. Ef t. d. atvinnumöguleikar eru þar þannig, að menn vilji sækja þá, þá þarf líka undirbúningur byggðar í þeim bæjum að vera þannig, að menn vilji sækja til þeirra staða. Við höfum þess vegna hugsað okkur í nýbyggingarráði, að á Skagaströnd verði byrjað á því, hvað byggingu íbúðarhúsa snertir, að byggja t. d. 100 íbúðir, þó að ekki væri meira, sem það opinbera léti gera með tilliti til þeirrar nýbyggðar, sem gengið er út frá að stofna samkv. þessum l. Og hugmyndin er, að þarna kæmu upp 20, 30 eða 40 hús, eða hvað það nú væri, eins og byggð eru í stærri bæjum á Íslandi, falleg og reisuleg tveggja til þriggja hæða hús úr steinsteypu. Afleiðing þess mundi verða sú, að þessi hús, 20 til 40, settu sinn svip á þennan bæ. Og það er alveg víst, að með slíkri byrjun væri tónninn gefinn, þannig að eftir slíka byrjun á íbúðarhúsabyggingum mundu menn ekki byggja þar ljót og leiðinleg hús. Ef það opinbera sem sagt byrjaði á þessu og hjálpaði mönnum yfir erfiðleika í þessu sambandi, sem þeir ekki ráða við annars, mundi á eftir þessari æskulegu byrjun rísa upp fallegur bær í staðinn fyrir fiskiþorp í þeim gamla, fátæklega stíl. Nú sýnir það sig, að ódýrasti byggingarhátturinn er að byggja allmörg hús í einu með hagnýtingu nýtízku aðferða, svo sem með notkun stálsteypumóta og véla og með öðrum slíkum hagkvæmum aðferðum. Og nú vitum við það, að þegar verksmiðjubyggingum væri lokið á Skagaströnd, þá mundu vera þar vinnuvélar fyrir hendi og vinnuafl og ýmis tæki og jafnvel eitthvert efni, til þess að hægt væri að byrja í nokkuð stórum stíl á slíkum íbúðarhúsabyggingarframkvæmdum, og öll þessi tæki mundu hagnýtast miklu betur, ef þá strax, er byggingu síldarverksmiðju o. fl. væri lokið, væri tekið til að vinna að íbúðarhúsabyggingum þarna á staðnum.

Nú þekkjum við, að það hefur verið þannig hjá okkur venjulega, að alllöngu eftir að menn hafa byggt hús hér og þar á stangli í þorpunum, hafa menn reynt að fara að leggja götur. Og eftir að menn hafa lagt þær, hafa menn svo stundum brotið þær upp, til þess e. t. v. að leggja vatnsveitu í þorpinu, og þegar búið er að leggja vatnsveitu og laga göturnar aftur, þá hafa þær verið enn brotnar upp, til þess að leggja skolpleiðslu, og svo hefur þetta síðar endurtekið sig, til þess að leggja rafmagn eða annað slíkt. Það er þess vegna alveg gefið, að ódýrasti og skynsamlegasti hátturinn á því að koma slíkum bæ af stað, sem hér er gert ráð fyrir, er sá að leggja þessar leiðslur allar þegar í byrjun. Og við vitum, að t. d. bara hvað vatnsveitu í Höfðakaupstað snertir, þá mundi síldarverksmiðjan verða að fá strax byggða vatnsveitu út af fyrir sig, og þá yrði að byggja tvöfalda vatnsveitu á þessum stað, svo framarlega sem ekki yrðu höfð samtök um það að undirbúa að leggja vatn í íbúðarhús samtímis og til verksmiðjunnar. Það væri því ekki nema eðlilegt, að samtímis því, að gerð væri svona tilraun til þess að mynda ákveðinn atvinnugrundvöll fyrir svona kaupstað, þá væru gerðar ráðstafanir til þess að leggja t. d. vatnsveitu til afnota fyrir íbúðarhús samtímis og annað slíkt, svo sem skolpræsi, rafmagnsleiðslur og götur. — Við álítum, að í þeim átökum, sem þjóðin á í um stórfelldar nýbyggingar á vissum sviðum, þá muni það vera skynsamleg tilraun að byrja á að byggja bæ samkvæmt slíkri heildaráætlun þess opinbera. Vafalítið mundi árangurinn af því verða sá, að víða annars staðar mundi verða fetað í sömu fótsporin. — Að vísu gengur maður að því vísu, að þegar slík tilraun er gerð, kunni eitthvað að mistakast. Engum okkar, held ég, að detti í hug, að slíkt geti ekki komið fyrir. En þá er að reyna að læra af þeim mistökum og stýra fram hjá þeim í næsta skipti. — En hvernig á að koma þessu fyrir? Ég hef reynt að lýsa þeim hugmyndum, sem fyrir okkur vaka, en auðvitað eru þessar hugmyndir ekki fullgerðar í okkar kolli. Auðvitað er þetta nokkuð, sem yrði að ræða og endanlega ákveða, Þegar fara ætti að koma þessu í framkvæmd. Og þeir sérfræðingar, sem betur mundu vita en við á hverju einstöku sviði í þessu efni, mundu þá væntanlega leggja sitt lið til þess, að þetta mætti sem bezt úr hendi fara.

Þetta þorp er nefnt Höfðakaupstaður í frv., en það þýðir ekki, að það sé kaupstaður eftir þeim skilningi, sem er í okkar l. á því, hvað sé kaupstaður og hvað sé kauptún, heldur er því valið það gamla, góða heiti, sem það hefur haft, Höfðakaupstaður, og sjálfsagt, að það fái að halda því, og vonandi verður það kaupstaður síðar meir samkvæmt lögum.

Við höfum hugsað okkur, að þessi n. yrði samsett þannig, að skipulagsstjóri yrði formaður hennar, af því að mikið af starfi hennar er í samræmi við það, sem gildir um skipulag í kauptúnum. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að mjög mikið af kauptúnum á Íslandi hefur verið skipulagt hvað íbúðarhús snertir án þess að tillit sé tekið til atvinnulífs viðkomandi bæjar. Meira að segja hefur hafnargerð verið skipulögð út af fyrir sig, en skipulag bæjarins af annarri skrifstofu; án þess að samhengi hafi verið þar á milli. Það má geta nærri, hversu ófært það er að byggja íbúðarhúsahverfi við hliðina á verksmiðjum.

Einn maður í n. á að vera valinn af nýbyggingarráði og einn af stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, einn af hreppsnefnd Höfðahrepps og einn án tilnefningar.

Störf nýbyggingarnefndar eru þessi: 1) Að koma upp skipulegri byggð í Höfðakarupstað í samráði við nýbyggingarráð og ríkisstj. 2) Að koma á fót atvinnufyrirtækjum í Höfðakaupstað í samráði við nýbyggingarráð og ríkisstj. 3) a. Að stuðla að því, að einstaklingar, félög og stofnanir reisi íbúðarhús og önnur mannvirki í Höfðakaupstað. b. Að reisa sjálf íbúðarhús í samráði við nýbyggingarráð og ríkisstj. til þess að selja þau fullsmíðuð. 4) Að koma upp handa byggðinni, rafveitu, vatnsveitu og götum. 5) Að gera till. til ríkisstj. um gjaldskrár fyrir lóðaleigu, notkun rafmagns, vatns o. fl.

Þetta verkefni lítur út fyrir að vera sérstaklega mikið. Þó vil ég leggja áherzlu á, að hugmyndin er engan veginn, að n. sjálf eigi að hafa alla forgöngu um að koma upp þessum mannvirkjum, heldur jafnframt að hafa samstarf við þær stofnanir, einstaklinga og félög, sem að þessu vilja vinna, en samræma starf allra þessara aðila.

Í 5. gr. frv. eru ákvæði, sem tryggja þessari n. og síðan hreppsn. meira vald yfir lóðum og meiri lóðaréttindi en tíðkazt hefur. Ég skal geta þess, að þegar rætt var um möguleika til byggingar á Skagaströnd, kom okkur saman um, að eitt fyrsta skilyrðið til, að það gæti tekizt vel, var, að ríkið yrði að eiga það land, sem þessar byggingar kæmu til með að standa á. Síðan eru fyrirmæli um, að eftir fimm ár skuli þessi n. afhenda hreppsn. Höfðahrepps öll þessi verkefni, því að það er gert ráð fyrir, að þessi n. komi aðeins þessari starfsemi af stað, en síðan taki hreppsn. þorpsins við allri stjórn.

Það, sem við viljum sérstaklega stefna að í þessu efni, er það, að allar framkvæmdir á þessum stað verði gerðar með sem allra mestri hagsýni og að þær byggingar, sem þar koma upp, verði reistar þannig, að þær hjálpi til að ryðja brautina fyrir, að þarna rísi upp myndarlegri, fallegri og betur reistur útgerðarbær en átt hefur sér stað fram að þessu, en við hyggjum, að slíkt verði alls ekki mögulegt án þess að hið opinbera vilji standa fyrir því. Að þessu leyti hefur þessi n. vald, sem hreppsn. annars hafa, en það er óhjákvæmilegt til þess, að hægt sé að hrinda þessu af stað.

Ég vil geta þess, að þótt hér sé eingöngu rætt um slíkar byggingar í þessum eina kaupstað, þá er ekki meiningin frá okkar hálfu, að þetta verði eini kaupstaðurinn, sem verði skipulagður þannig eftir ákveðinni fyrirætlun. Við vonum, að fleiri geti farið á eftir, en einhvers staðar varð að byrja.

Mér er fullkomlega ljóst, að það eru margs konar erfiðleikar, eins og þingið er nú skipað, að koma fram og segja við þm. úr öllum kjördæmum landsins: Hjálpið þið til að láta gera eina tilraun og verja til þess allmiklu fé úr ríkissjóði til að mynda bæ og koma þar upp allstórfelldri útgerð, því að það er vissulega svo, að svo og svo margir mundu geta sagt sem svo: Því í ósköpunum er þetta ekki heldur gert í mínu kjördæmi? Því er það ekki heldur gert á þessum stað eða þarna og þarna, þar sem eru eins góðir möguleikar? Það er engum efa bundið, að víða á Íslandi eru góðir möguleikar, en ég hef gert grein fyrir, hvers vegna við höfum valið þennan stað, og ég álít, hvaða kjördæmi sem við annars erum fulltrúar fyrir, að hægt sé að gera eina slíka tilraun, því að þá getum við séð, hvort þetta getur ekki tekizt, hvort við getum ekki skapað betri möguleika til að veita íbúum okkar lands betri lífsskilyrði, gera vinnuafl þeirra dýrmætara og aðbúnað þeirra betri en verið hefur. Ég vona því, að þótt ekki sé hægt að gera svona tilraun nema á einum stað nú, þá megi líta á hana sem tilraun, sem landið gerir í heild með það fyrir augum, að ef það tekst vel að vinna þannig samkvæmt ákveðinni áætlun frá upphafi, þá fari meira þar á eftir, ekki eingöngu í Norðlendingafjórðungi, heldur líka austan, vestan og sunnan, ekki aðeins á þessum stað á Norðurlandi, heldur einnig víðar. Ég vil því eindregið vonast til þess, að þessi nýjung fái góðar undirtektir, og mælist til þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til fjhn.