26.03.1946
Neðri deild: 95. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (2830)

104. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Á öndverðu þessu þ. var flutt frv. um breyt. á l. nr. 68 1945 af hv. þm. Borgf. og mér. Í því frv. er eigi farið fram á meiri breyt. en á þskj. 182 greinir, þ. e. breyt. á 31.–38. gr. l. incl., um að auka réttindi þeirra manna, sem nú hafa rétt til að fara með allt að 150 hestafla vélar, upp í 250 hestöfl. — Frv. þetta er fram komið vegna áskorana frá vélstjórafélögum í Vestmannaeyjum og á Akranesi. Skortur hefur verið á vélstjórum, er hefðu rétt til svo stórra véla, sem hér um ræðir. Breytingar hafa svo örar orðið, að á tveim stöðum a. m. k. hefur mjög orðið að bjargast við svonefnda „undanþágumenn“. Að vísu hafa eigi verið nein vandkvæði vegna þekkingar manna, en hins vegar er leitt, ef mjög verður að ganga út á þessa braut. Ætti að vera óþarft að veita undanþágur, þegar þess er gætt, að þeir, er lengi hafa farið með 150 ha. vélar, hafa vitaskuld oftast næga þekkingu til að fara með 100 ha. stærri vélar. Til undanþága hefur oft orðið að grípa til þess að halda bátunum gangandi.

Sjútvn. fékk mál þetta til meðferðar. Hefur hún rætt það og verið í samráði við kunnuga menn, þá Þorstein Loftsson vélfræðiráðunaut og Þorstein Árnason vélstjóra, þá er telja verður, að hafi mesta þekkingu á þessum málum. N. fór fram á við þessa menn, að þeir athuguðu frv. Þeim virtist raunar mikil þörf á auknum réttindum til handa 150 ha. vélstjórum. Hins vegar töldu þeir þó þörf mikilla annarra breyt., ef eigi ættu vandræði af að hljótast vegna hinnar gífurlegu mannfjölgunar á togurunum, vélbátunum og annars staðar, svo og vegna aukinnar hestaflatölu skipa.

Sjútvn. hefur sem heild fallizt á þau rök, sem liggja fyrir bæði hjá flm. frv. og eins þau rök, sem þessir tveir vélfróðu menn lögðu fram. Og n. er þeirrar skoðunar, að þær ábendingar, sem þeir hafa komið með, séu réttar. Ég skal taka það fram, að þeim fannst fulllangt gengið, þessum tveim mönnum, að hækka 150 hestafla réttindi upp í 250 hestafla réttindi, og töldu, að minna mætti nægja, vegna þess að s. l. haust hefði verið gefin út reglugerð um umreikning á hestöflum í mótorbáta, sem hefði haft þær afleiðingar, að hann yki af sjálfu sér réttindin, þ. e. a. s. að þeir, sem hefðu rétt til þess að vera með 150 hestafla vél, fengju samkv. þeim umreikningi töluvert aukinn rétt.

Nú gerði ég tilraun til þess að athuga þetta, með því að bera mig saman við vélstjóra og kunnáttumenn í þeim efnum annars staðar, og niðurstaðan varð sú, að við urðum sannfærðir um það í sjútvn., að þessi breyt., sem frv. fer fram á, var ekki nema réttlát, með vissum skilyrðum þó. Og skilyrðin eru þau, að annað tveggja, ef þessir vélstjórar hafa talsvert langan siglingatíma að baki sem vélstjórar með fullum réttindum og prófi, eða þá að þeir, ef þeir ekki hafa réttindi eins og þar er til tekið í brtt. n., vanti stjórnartíma að baki sér í þessum efnum, að þeir afli sér aukinnar kunnáttu með því að taka þátt í námskeiði, sem gert er ráð fyrir hér í brtt. sjútvn., þ. e. tveggja mánaða aukalegu námskeiði. Ætla ég, að með því sé séð fyrir, að sú réttaraukning, sem hér er um að ræða, miði ekki að því að rýra öryggi á vélbátum, þar sem annars vegar er krafizt langrar reynslu og hins vegar aukins náms og aukalegs prófs, og þá séu nægilegir varnaglar slegnir.

Hið sama er hvað hin stærri skip snertir, og skal játað, að þar er í höfuðatriðum farið eftir till. Þorsteinanna tveggja, sem ég nefndi áðan. Þar er gert ráð fyrir talsverðri hækkun réttinda, en hún er aðallega fólgin í því að stytta þann siglingatíma, sem þeir höfðu áður haft, þannig að þeir fá örara hækkunina en gert hefur verið ráð fyrir í l. þó að l. séu ekki gömul, virðist þróunin ætla að verða svo ör í þessum efnum, að l. hafa, svo ung sem þau eru, skorið þessari atvinnugrein of þröngan stakk. Er nú verið með þessum breyt. að reyna að ráða bót á og þá líka varðandi hin stærri skip.

Eins og hv. þm. munu hafa veitt athygli, þá er það tekið fram hér í nál. n. á þskj. 601, að árið 1936, þegar l. voru þá sett um atvinnu við siglingar, var enginn togari hér með stærri vél en 800 ha., en þau skip, sem væntanleg eru til landsins og búið er að festa kaup á, verða með allt að 1200 ha. vél. Nú kvað vera hér um 30 vélstjórar, sem sigla á þessum gömlu togurum og hafa siglt ákaflega lengi margir hverjir og hafa fengið réttindi hvað reynslu og próf snertir, en hafa ekki verið við stærri vélar en 600–800 ha., og þó að þessir menn hafi 10 og jafnvel 15 ára siglingatíma, geta þeir ekki að óbreyttum l. fengið réttindi sem fyrstu vélstjórar á þessum nýju togurum, en hins vegar munu menn með slíka æfingu færir til slíks starfs. Á þessu er ætlazt til, að ráðin verði bót með þeim till., sem liggja fyrir í brtt. n. á þskj. 601.

Þetta nær raunar lengra, þannig að það snertir líka 800–1200 ha. vélar, enda er þess full þörf, og í samræmi við þessi auknu réttindi er það svo till. n., að námskeið undir próf við vélstjóraskólann í Reykjavík verði lengt um 2 mánuði og hið minna mótorvélstjórapróf Fiskifélags Íslands um 3 vikur og hið meira mótorvélstjórapróf Fiskifélags Íslands um 2 mánuði. Og er ætlazt til þess, að reglugerðir verði settar um þetta nánar, þar sem fram kemur þessi lenging námstímans framvegis, en til þess að brúa þessi bil, sem verða þangað til nýjar reglugerðir eru farnar að verka varðandi þessi námskeið, þá er ætlazt til, að þeir, sem hafa lokið hinu minna vélstjóraprófi vélstjóraskólans í Reykjavík og minna mótorvélstjóraprófi Fiskifélags Íslands og meira vélstjóraprófi Fiskifélags Íslands, eigi kost á að fá strax þessi auknu réttindi, sem með þessum l. eru veitt þessum 3 fl. vélstjóra, sem hér hafa nefndir verið, gegn því að þeir sæki þessi tveggja mánaða námskeið og ljúki prófi.

Þá er það 4. fl. vélstjóra, sem hafa nú öðlazt réttindi samkv. gildandi l., og er ekki ætlazt til þess, að þeir þurfi að bæta við sig námi. En að því er snertir, eins og áður er fram tekið, þá aukningu vélstjóra, sem hafa yfir 150 ha. réttindi og ætlazt er til, að geti fengið 250 ha. réttindi, þá er lagt til, að þeir hafi siglt samtals 4 ár fram að þeim tíma er þeir öðluðust réttindi sem vélstjórar og þangað til l. þessi ganga í gildi, og að þeir geti orðið aðnjótandi þeirra auknu réttinda, sem með þessum l. eru veitt þeim, er öðlast við hið minna próf Fiskifélags Íslands, án þess, að þessir menn þurfi að nýju að setjast á skólabekk.

Ég vil geta þess, að þegar talað er um að hafa starfað eða siglt sem vélstjórar í þetta mörg ár, og þegar átt er við fiskiskip, þá vil ég a. m. k. leggja þann skilning í það, að árið þýði í þessu tilfelli svona venjulegan útgerðartíma fiskiskipa. Ég á þar ekki við togara, sem nú hafa stærri vélar. Það mun láta nærri, að slík skip séu á veiðum 8–9 mánuði og kannske 10 mánuði ársins með undirbúningi og svo afsetningu og hreingerningu á haustin, heldur á ég við skip, sem stunda vor og vetrarvertíð og síldveiðar. Og till. okkar í sjútvn. eru miðaðar við, að sá skilningur sé lagður í árið að þessu leyti, en ekki bókstaflega sá skilningur, að árið þurfi að þýða 12 mánuði, þannig að menn þurfi að hafa siglt alla 12 mánuði ársins til þess að það geti talizt ár.

Mér virðist ekki þörf á að rökstyðja þessar breyt. n., sem hér er farið fram á, að gerðar verði. En ég vil vænta þess, að hv. d. geti á þær fallizt, og ég vona, að þær verði ekki tafðar í þinginu, því að það er brýn aðkallandi nauðsyn að breyta þessum ákvæðum, og má til, ef haldast á í hendur við þá stóru aukningu á skipum og vélaafli, sem við vonum, ef allt gengur að óskum, að geti orðið í ríkum mæli síðar á þessu ári og á næsta ári. Og verði ekki þessar breyt. gerðar nú þegar, þá færist undanþágufarganið enn meira í aukana, sem getur ekki endað með öðru en því að breyta þeim lagastaf, sem ekki lengur helzt í hendur við líf landsins og þróun þess.